19.04.1974
Efri deild: 104. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3769 í B-deild Alþingistíðinda. (3301)

8. mál, skólakerfi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Án efa er skólakerfi, lög um skólakerfi og skipun skólamála, eitt af meginhornsteinum þjóðfélagsins, og það, hvernig tekst til um lagasetningar í því sambandi, getur að sjálfsögðu varðað heill og hamingju komandi kynslóða. Án efa er það svo. Nú höfum við verið að endurskoða okkar skólalög eftir að hafa búið við nokkurn veginn sömu lög í 20–30 ár, og þá hafði maður búist við, þegar tekið er tillit til allra þeirra breytinga, sem hafa orðið í tækniefnum og möguleikum á kennslu á þessu tímabili, að hér mundi koma fram eitthvað virkilega nýtt, einhver nýmæli, og að samþykkt þessara laga, sem hafa verið svo lengi í undirbúningi og eru undirbúin af mestu skólamönnum þessa lands, mundi marka tímamót í skólasögu landsins. En við lauslega yfirvegun virðist mér, að svo sé ekki. Ég sé ekki annað en hér sé fyrst og fremst um eðlilega þróun að ræða. Ég sé ekki annað en hér séu mörg orð og margar setningar og kannske margar siður, sem hefði mátt sleppa og frv. staðið jafngott eftir. En hvað um það, ýmislegt er hér til framfara, en þó er það sitthvað, sem knýr mig til að segja hér nokkur orð, og þá er það fyrst og fremst það, að ég á svolítið erfitt með að fella mig við skólaskyldu frá 7 til 16 ára aldurs. í fyrsta lagi lít ég svo á, að skólaskylda eða skólavera eigi að hefjast við 5–6 ára aldurinn og henni skuli lokið við 14 ára aldurinn. Sem sagt skólaskyldan má gjarnan vera 9 ár, en frá mínu sjónarmiði á hún að vera frá 5 ára aldri til 14 ára. Þetta byggist á því, að ég sé ekki annað en að með breyttum skipulagsháttum, sem hér eru að ske, þar sem meiri hluti húsmæðra vinnur utan heimilis, þar sem heimilin hafa minni og minni tök á því að fylgjast með og sjá um börn á þessum 5–6 ára aldri og einnig þar sem opinberir aðilar, sveitarfélög og ríki, taka þegar í nokkrum mæli tillit til þessara þarfa með því að byggja dagheimili fyrir þennan aldursflokk, þá sé það í raun og veru sjálfsagt, að þessi dagheimili og þessir verustaðir fyrir 5–6 ára börnin séu tekin inn í skólakerfið. Rök mín fyrir þessu eru þau í fyrsta lagi, að það er viðurkennt, að börn á þessum aldri eru bæði næm og opin fyrir námi og þroska, í öðru lagi, að þau eru meðfærileg og það er færra, sem glepur fyrir þeim en unglingum á seinni hluta skyldustigsins, og svo í þriðja lagi, að ég sé ekki annað en að með minnkandi afskiptum foreldra, sem er bein afleiðing af þeirri nauðsyn, að fleiri en einn aðili sjái um framfærslu heimilisins, sé nauðsyn að hafa þessi börn í skóla á þessu aldursskeiði.

Þetta er ekki sagt út í bláinn. Þetta hefur verið reynt, og ég veit ekki betur en þetta hafi gefist vel. Aftur á móti felli ég mig ekki vel við, að konur séu fram á giftingaraldur í barnaskóla. Ég sé enga ástæðu til þess, að skyldunámið sé fram til 16 ára aldurs. Hins vegar, ef ekki er hægt að koma þeim nauðsynlegu hlutum í unglingana á þessu tímabili, þá er auðveld leiðin að breyta inntökuskilyrðum framhaldsskólanna.

Hér var sagt áðan nokkuð um þátttöku unglinga í atvinnulífinu í sambandi við skóla, og var heldur óvirðulegum orðum um það farið. En ég verð að segja það, að ég lít öðruvísi á það mál. Ég gat þess áðan, að seinna tímabil skólaskyldunnar, þó að hún væri aðeins til 14 ára aldurs, sérstaklega ef hún væri til 16 ára aldurs, væri viðkvæmt tímabil. Það er breytingatímabil hjá unglingum, þegar „karakter“ breytist jafnan og kynhvöt þeirra vaknar, og það eru ótal erfiðleikar, sem þau verða fyrir á þessum aldri, og þess vegna er þeim bæði andleg og líkamleg nauðsyn, að vel fari um þá og þeir lifi sæmilega fjölbreytilegu lífi. Ég hygg, að það yrði best framkvæmt með því, að frá 14 ára aldri yrði árinu skipt milli unglinganna í 6 mánaða bóklegt nám í skóla og 6 mánaða þátttöku í atvinnulífi, að fráteknum einhverjum frítíma. Og ég hygg, að það kynni að koma fyllilega til greina, að þessu 6 mánaða bóklega skeiði yrði skipt í tvo eða þrjá kafla, þar sem skólatímabilið yrði — við skulum segja 2 mánuðir eða 3 mánuðir, þar sem sérstök fög væru tekin fyrir í hverri önn og þeim áfanga lokið á þessu tímabili. Með þessu móti mundu unglingar úr framhaldsskóla ekki koma til vinnu algjörlega kunnáttulausir í ástandi atvinnulífsins og öllum aðstæðum þar, algjörlega þekkingarlausir á þjóð sinni utan skóla. Og ég held, að með því móti að kenna 6 daga í viku og kannske að fækka eitthvað frídögum, sem nú gerast í skólum, mætti kenna unglingum jafnmikið á 2 sinnum 3 mánaða tímabili eins og gert er nú á 8 mánuðum. Þar að auki er ekki vafi á því og mér finnst það mikill ljóður á þessu frv., að maður fær enga hugmynd um, að teknir séu í notkun þeir möguleikar til kennslu, sem nú eru fyrir hendi gegnum sjónvarp, gegnum myndsegulband og ýmsar aðrar nýjungar, sem hafa komið fram í sambandi við tækniþróun heimsins. Ég held, að ýmis af þeim fögum, sem verið er að troða í krakkana og unglingana mánuðum saman á hverju ári, mætti hæglega kenna frá einum stað á landinu og þá gætu nemendur, hvort sem væri á Horni, á Austfjörðum eða í Reykjavik, notið sama kennarans og gætu svo tekið próf í greininni í sinum skólum heima fyrir.

Á þennan hátt held ég, að námsskráin, framhaldsskólarnir og grunnskólinn verði í raun og veru allt að ræðast í einu lagi, og mér fellur það ekki, að ekki skuli nú, þegar verið er að setja hér ný lög, sem eiga sannarlega að standa í meginatriðum a.m.k. um 10–20 ár, einkum ef maður hefur í huga, að það er ætlast til, að þau verði ekki komin til fullra framkvæmda fyrr en eftir 10 ár, þá finnst mér vanta einhverjar þær nýjungar, sem gerðu okkur kleift að prófa eitthvað annað en við búum við í dag. Hvað sem segja má um aðstöðumuninn milli dreifbýlis og fjölbýlis, þá held ég, að það fari ekki á milli mála, að það vantar eitthvað í okkar skólakerfi hér í fjölbýlinu. Námsárangur virðist fara versnandi ár frá ári, enda þótt við fáum sí og æ betri kennara og fjölhæfari og betri aðstöðu í skólunum fyrir unglingana. Ég er ekki að segja, að þetta sé endilega leiði eða leti, en það vantar þarna eitthvað í, og ég hef þá trú, að það sé þessi langa skólavera, bæði um árafjölda og langan tíma á hverju ári, sem gerir það að verkum, að hluti af unglingunum beinlínis gefist upp.

Ég neita því ekki, að það er í þessu frv. margt til bóta og m.a. það, að tekið er meira tillit til þeirra, sem erfitt eiga með nám, en áður var. En ekkert af þessu er neitt nýmæli. Þetta hefur verið gert áður og er gert víða nú í dag. Sama er að segja um sálfræðiþjónustu, hún er fyrir hendi, en nú á að auka hana og ráðgjöfina, og því ber ekki að neita, að því vafasamara sem skólakerfið er, þeim mun meiri þörf er á öflugri sálfræðiþjónustu. En ég Ket ekki hugsað mér annað og hef þá trú á því, að í framtíðinni verði tímabilinu skipt meira milli skólanáms og vinnu og ekki bara í grunnskóla, ekki bara í barnaskóla og unglingaskóla, heldur einnig í framhaldsskólum og háskóla. Ég lít svo á, að það sé þroskandi fyrir nemendur bæði andlega og líkamlega, hvort sem menn ætla að verða læknar, lögfræðingar, prestar eða iðnaðarmenn, að þá sé það þroskandi að taka þátt í sem fjölbreytilegustu atvinnulífi. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þetta gæti orðið okkar þjóð í framtíðinni til mikilla heilla, þótt ekki væri nema það, að með því að fjölga svo á vinnumarkaðinum eins og mundi gerast með þessari aðferð, þá gæti e.t.v. sú 40 stunda vinnuvika, sem nú hefur verið lögleidd, orðið meira en pappírsgagn eitt. Að sjálfsögðu yrði þetta ekki gert í einni svipan, en það á ekki heldur að framkvæma grunnskólafrv. í einni svipan. Og mér þætti leitt, ef n., sem fær þetta mál til umsagnar hér, reyndi ekki að afla sér upplýsinga um það, hvort þeir mætu menn, sem standa að þessu frv., hafa hugleitt þessa hluti og þá ekki síst lengingu skólaskyldunnar niður á við. Ég held það hljóti að vera. Það væri fróðlegt að heyra, hvort þar finnast á þeir gjaldgengu agnúar, þannig að þetta sé ekki framkvæmanlegt.

Því hefur verið haldið fram, að þetta mundi valda mikilli útgjaldaaukningu. Ég held, að það sé alls ekki tilfellið. Dagheimilum fjölgar og innan tíðar verða flest börn í landinu á aldrinum 5–6 ára á dagheimilum. Og ef dagheimilin á að nota sem geymslustofnanir, þá er ómetanlegur skaði skeður. Þroski 7 ára barna hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir því, hvernig að þeim hefur verið búið og hvernig viðurgerning, andlega og líkamlega, þau hafa haft frá tímabilinu 3–7 ára. Og með því að skólakerfið taki við þeim snemma ætti að fást möguleiki til þess, að þau gætu 14 ára verið búin að gleypa í sig allt það, sem 16 ára unglingar eiga að vita eftir þessu frv.

Ég held, að ég leggi ekki í að fara út í einstakar gr. þessara frv. Þau hafa verið rækilega rædd hér. Eins og ég segi, þá er að sjálfsögðu margt til bóta í þessu frv. eða þessum frv. báðum, en þar er líka geysilega margt, sem er vafasamt og veldur mikilli útgjaldaaukningu. Og það vil ég segja, að það hefur verið mikið gert hér úr aðstöðumuninum milli dreifbýlis og fjölbýlis, en ég leyfi mér að efast um, að árangurinn af skólastarfi í dreifbýlinu sé miklu lélegri en í fjölbýlinu. Þetta byggist á því, að þegar við tölum um hina lélegu aðstöðu dreifbýlisins, þá ferst fyrir að minnast á kostina og þeir eru í fyrsta lagi: Börnin munu vera betur búin undir skólavist, þegar þau koma 7 ára gömul til skóla frá sveitaheimilinu heldur en frá heimilinu í fjölbýlinu. Þetta er einfaldlega vegna þess, að þar eru foreldrarnir gjarnan báðir heima og vinnan fer fram á búunum og þess vegna meiri tími til þess að sinna börnum. Fyrir nokkrum árum, þegar ég þekkti þetta, þá veit ég ekki betur en að þau börn, sem komu inn í menntaskóla frá dreifbýlinu, væru betur búin undir skólann en fjölbýlisbörnin. Og þetta er hreint ekki óeðlilegt, því að það er svo margt og miklu fleira, sem glepur hér í stóru stöðunum, en úti í fámenninu.

Ég ætlaði ekki að fara að tala hér langt mál. Mig langaði aðeins að koma þessu á framfæri. Ég sakna þess, að ekki skuli brotið blað í skólasögunni með samþykkt þessara frv. Ég sé ekki, að svo verði, og vildi gjarnan óska eftir því, að þessi mál yrðu hugleidd lítils háttar, hvort ekki væri hægt að gera hér tilraunir með nýjar aðferðir í stað þess að elta þær leiðir, sem nágrannaþjóðir okkar hafa farið og þær sjálfar eru jafnvel orðnar hundleiðar á, fáum árum eftir að þær tóku þær í notkun. Ég held, að í framtíðinni muni það verða svo, að fólkið verði lengur að læra, það verði fleiri ár í skóla en styttri tíma í einu, — að það skiptist á skóli og vinna, eins og ég hef getið um, og þetta gerist ekki aðeins á unglingsárunum, heldur upp úr og að fullorðinsnám eigi eftir að vaxa í stórum stíl.