19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3785 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

191. mál, málflytjendur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um brtt. á þskj. 558, sem flutt er af 4 hv. þm. raunar hefur till, þessi nú verið tekin aftur til 3. umr., svo að ekki er þörf á að ræða -hana ítarlega á þessu stigi.

Mér finnst till. þessi vera nokkuð vanhugsuð og óeðlileg og jafnvel blandað málum saman, ekki náskyldum, eins og hæstv. dómsmrh. vék að í sinni ræðu. Það má segja, að hugmyndin, sem að baki till. býr, sé góðra gjalda verð. Hún er skýrð þannig af hv. 1. flm., að hún sé tvíþætt: Í fyrsta lagi að styrkja efnalítið fólk í því að leita réttar síns og í öðru lagi að æfa lögfræðinema við Háskóla Íslands og opna þeim leið til málflutnings eða greiða götu þeirra út í málflutningsstörf. Þessi hugmynd er að sjálfsögðu góð. En eins og raunar hefur þegar verið bent á hvað fyrra atriðið snertir, er efnalitlu fólki þegar greidd gata að vissu marki til þess að reka réttar síns með gjafsókn t.d., og auk þess gildir það svo um efnalítið fólk og raunar allt fólk, bæði ríkt og fátækt, að það fær að sjálfsögðu margs konar leiðbeiningar hjá embættismönnum landsins um eitt og annað. Á dómara og aðra embættismenn er lögð rík upplýsingaskylda og leiðbeiningaskylda í mörgum tilvikum, sem að sjálfsögðu kemur því fólki að notum, sem hana vill notfæra sér.

Þá er það sá þátturinn að æfa lögfræðinema í málflutningi og fyrirgreiðslu við almenning í þessum efnum. Innan veggja háskólans hafa þeir hingað til látið sér nægja að æfa sig í sinu félagi, Orator, en vera má, að þeir þurfi meiri æfingar við. Nú er það svo, að ungum lögfræðingum standa margar fleiri leiðir opnar til starfa en að gerast málflytjendur. Og hingað til hefur þeim veist sæmilega auðvelt, að ég ætla, að afla sér þeirra réttinda. Það má vel vera, að það hafi verið meira fyrir greiðvikni og góðvild lögmanna, að þeim hefur tekist þetta tiltölulega fljótt og vel, en ég hygg þó, að þar hafi ekki beinlínis verið neinn sérstakur þrándur í götu.

Hæstv. dómsmrh. minntist á ákvæðin um umboðsmann Alþingis, sem beinlínis eru sett til þess að greiða götu manna og gera þeim auðveldara að leita réttar síns á ýmsum sviðum.

Ég verð að segja það, að ég er andvígur þessari brtt., eins og hún hljóðar. Það er að sjálfsögðu rétt, eins og með aðrar hugmyndir, að velta þessu nánar fyrir sér. En á þessu stigi tel ég a.m.k., að það sé ekki ofsagt hjá hv. 1. flm., að nánari athugunar sé þörf, rétt sé því að taka till. til baka að sinni.