19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3786 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

191. mál, málflytjendur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð um þá brtt., sem er á þskj. 558. Ég er ekki í neinum vafa um að hér er hreyft mjög stóru og merku máli. Ég ætla ekki að ræða um það út af fyrir sig. hvort brtt. á beint heima við þann lagabálk, sem hér er settur fram, og ekki heldur þá hlið málsins, að hve miklu leyti hér væri um nám lögfræðingaefna að ræða, en hinu, að almenningi sé þörf á slíkri aðstoð eins og þessi till. gerir ráð fyrir, er ég vel kunnugur og get fullyrt, að er mikil nauðsyn á. Ég hef um allmörg ár starfað í verkalýðshreyfingunni og þekki vel, hve fjölmörg mál berast þar til úrlausnar, sem beinlínis eru í raun og veru verkefni allt annarra aðila en er leitað til, verkalýðsfélaga, og ég efast ekki um, að ýmis önnur félagasamtök hafa líka sögu að segja. Hvers vegna leitar fólk til slíkra samtaka? Það er einvörðungu vegna þess, að menn vita, að það er býsna dýrt að leita til lögfræðiskrifstofa, og hvað sem verður sagt um upplýsingaskyldu dómara og annarra embættismanna í landinu í þessum efnum, þá hygg ég, að fólk almennt leiti ekki til þeirra, svo að þörfin á svona stofnun er algjörlega ótvíræð. Oft hefur verið rætt um þessi efni og reynt að finna einhverja leið til þess að koma fyrir þeirri upplýsingastarfsemi til almennings í lögfræðilegum efnum, sem nauðsynleg er, en ekki fundist heppileg leið. Gjafsókn í málum er góðra gjalda verð. En það er bara miklu meira um mál, sem fólk þarf að leita upplýsinga um, áður en komið er á það stig, að til málshöfðunar sé komið, og það eru einmitt leiðbeiningar á fyrri stigum málanna, sem fólki eru kannske ekki siður, heldur miklu frekar nauðsynlegar. Við í verkalýðshreyfingunni greiðum að sjálfsögðu fyrir fólki í þessum efnum um allt, sem varðar samskipti verkalýðsfélaganna eða verkafólks og atvinnurekenda. En það er ekki nema aðeins nokkur hluti allra þeirra mála, sem til okkar er leitað með, fólk kemur með hvers konar persónuleg vandamál. mál viðskiptalegs eðlis o.s.frv.

Hvernig sem þessum málum yrði best fyrir komið, sem ég skal ekki fullyrða um, þá lýsi ég ánægju minni yfir, að það skuli vakin athygli á þessu máli hér og nú, og tel alveg nauðsynlegt, að þessum málum verði gerð einhver skil, hvort sem þessu yrði komið fyrir á vegum sveitarfélaganna, vegum dómaraembættanna í landinu eða á einhvern annan hátt, það er ekkert höfuðatriði, en alla vega að málið fái framgang. Mér er alveg ljóst, að þetta mál þarf undirbúnings við, góðs undirbúnings, og þarf að leita bestu leiða. Held ég, að þá væri mjög gott, að það yrði leitað samráðs við ýmsa aðila, sem einmitt þekkja þennan vanda hvað best. Hitt, hvort það væri út af fyrir sig rétt, að lögfræðinemar kæmu hér inn í, það gæti ég vel hugsað mér, og satt að segja er reynslan sú, að einmitt jafnvel lögfræðinemar, sem eru komnir nokkuð áleiðis í námi, og nýútskrifaðir lögfræðingar eru bestu mennirnir viðskiptis í þessum efnum. Þreyttu og eldri lögfræðingarnir með sínar skrifstofur og allan sinn málapraxís, fasteignasölur o.s.frv. eru ekki þeir, sem fyrst og fremst leysa vanda fólks í þessum efnum.