19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

262. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er búið að fara í gegnum Ed. og fór þar í gegn óbreytt. Það, sem í þessu felst, er það, að um s.l. áramót rann út sá frestur, sem ráðh, hefur samkv. lögum heimild til að leyfa slátrun í ólöggiltum sláturhúsum.

N. ræddi þetta mál nokkuð og óskaði eftir því að fá skýrslu frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, hvernig þessum málum væri komið. Skýrslan fylgir hér sem fskj. með nál., og það kemur fram í henni, að það hafi verið samin áætlun 1969 og 1970 um að byggja á næstu 5–6 árum 17 sláturhús, stór og afkastamikil hús, en það sé búið að byggja 7 af þessum sláturhúsum og 8 séu í endurbyggingu og verði væntanlega lokið á næsta hausti. Það kemur líka fram í þessari skýrslu, að 7 af þeim sláturhúsum, sem hafa verið starfrækt hingað til, muni ekki fá leyfi til áframhaldandi notkunar hér eftir. Það kemur einnig fram í skýrslunni, að á næstu 2 árum sé reiknað með, að verði byggð 7 sláturhús fyrir utan þessi 8, sem ég er áður búinn að telja, en það verður ekki gert öðru vísi en það fáist til þess mjög aukið fjármagn frá því, sem áður hefur verið. Þá kemur í ljós, að um 30 sláturhús þar fyrir utan eiga það yfir höfði sér að verða lokað hvenær sem er. Á þessari skýrslu sést, að það er mikil þörf á því að gera stórt átak í þessum málum. N. er sammála um, að frv. verði afgreitt.