19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

262. mál, mat á sláturafurðum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir samþykki landbn. við þetta frv. með fyrirvara og vil gera stutta grein fyrir því, á hverju það byggist.

Hv. þm. er vafalaust kunnugt, að fyrir nokkrum árum komu hingað til lands breskir og bandarískir eftirlitsmenn til þess að skoða framleiðsluskilyrði fyrir kjöt, sem selt var til þessara landa. Niðurstaðan af þessari skoðun varð sú, að útflutningur kjötsins féll algerlega niður og kaupendur neituðu að taka við afurðum úr þeim sláturhúsum, sem þá voru fyrir hendi.

Eftir þetta var þegar hafist handa um að gera átak í byggingu fullkominna sláturhúsa, sem stæðust kröfur nútímans, og hafa verið byggð allmörg mjög glæsileg og myndarleg og fullkomin hús. Er rétt að taka það fram, að þar hefur víða verið tekið vel til höndum og vel unnið. Engu að siður hefur ástandið nú um árabil verið þannig, að fjöldi sláturhúsa hefur starfað með undanþágu, sem þýðir, að þessi sláturhús standast ekki þær kröfur, sem' gera verður til slíkra mannvirkja, þar sem framleiða á matvæli. Geta menn séð í hendi sér, hvernig þetta hefur verið á þessu millibilstímabili. Útflutningskjötið hefur að sjálfsögðu verið tekið úr þeim frystihúsum, sem standast hreinlætiskröfur og aðrar kröfur erlendra kaupenda. Við Íslendingar höfum fengið að borða kjötið úr hinum húsunum, sem standast mörg þeirra hvergi nærri þær kröfur, sem nú eru gerðar.

Ég óskaði þess í n., að leitað væri nánari upplýsinga um þetta, svo að þær lægju fyrir, og voru þær fúslega veittar. Form. og frsm. n. hefur látið þær fylgja sem fskj. með nál. Vona ég, að með því að vekja athygli á þessu máli takist að ýta örlítið á eftir því. Rætt er í þessari skýrslu um þau hús, sem talin eru í góðu lagi eða verið er að byggja upp, en spurning númer tvö er, hvaða önnur hús séu löggilt. Og svarið er frá Framleiðsluráði landbúnaðarins:

„Löggilding sláturhúsa hefur annars farið fram á þann hátt, að þau eru löggilt aðeins fyrir eitt ár í senn, þó með því að viðkomandi lagfæri ýmislegt, er dýralæknar segja til um. Þó er því ekki að leyna, að flest húsanna eru í rauninni alls ekki það vel úr garði gerð, að dýralæknar telji þau notandi. En vegna þess átaks, sem gert hefur verið í þessum málum á undanförnum árum, hafa þeir litið mildum augum á hús þessi, einnig til þess að forða frá beinum vandræðum.“

Hér viðurkennir opinber stofnun berum orðum, að dýralæknar landsins gefi gegn betri vitund út vottorð um, að það megi slátra í húsunum, þó að þeir telji sjálfir að þau séu óhæf til slátrunar. Ég skal viðurkenna, að það er verið að gera mikið átak á öðrum sviðum í byggingu sláturhúsa, og ég skal líka viðurkenna, að þetta er erfitt mál og vandræðamál. Það er hægara sagt en gert að loka sláturhúsunum, e.t.v. í heilum landshlutum. En við verðum að horfast í augu við þetta. Þetta er eitt af alvörumálum nútímans við matvælaframleiðslu.

Ég vil enn fremur vekja athygli á svörum við þriðju spurningu. Þar kemur í ljós, að s.l. haust var slátrað í 62 sláturhúsum. Svo segir: „7 húsum var hótað að loka eftir slátrunina s.l. haust.“ Hvernig ætli aðstæður hafi verið í þessum húsum, þegar dýralæknar geta ekki beðið og strax eftir sláturtíðina er þessum húsum hótað lokun? Og síðan stendur: „47 hús eiga það yfir höfði sér, að þeim verði lokað hvenær sem er.“ Það leynir sér ekki, hvernig ástandið er, og það má því hver lá mér sem vill, þótt ég sé tregur til þess að leggja blessun mína yfir þetta mái. Engu að síður er málið svo vandasamt, að með fyrirvara og með þeim aðvörunum, sem felast í því að kalla fram þessa skýrslu, mun ég láta það gott heita.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að við höfum orðið fyrir svipaðri reynslu á sviði frystiiðnaðarins hvað fisk snertir. Við uppgötvum það allt í einu, að úti í heimi er verið að stórauka kröfur á þessu sviði, og við þurfum að gera átak fyrir nokkra milljarða, til þess að frystihús okkar séu boðleg og það megi flytja fiskinn frá þeim til Bandaríkjanna, á bandarískan markað. Þetta er í sjálfu sér það sama sem við höfum reynt með kjötsláturhúsin. Hvernig er brugðist við þessu? Þegar fiskur á í hlut, er allt sett á annan endann, og það stendur ekki á hundruðum og jafnvel þús. millj. Það er búið að gera risavaxið átak á þessu sviði á örskömmum tíma. Án þess að gera lítið úr því, sem búið er að byggja upp og bæta á sviði kjötfrystihúsanna og sláturhúsanna, vil ég leyfa mér að halda því fram, að það hafi skort nægilega fylgni og hörku í yfirvöld til þess að útvega þá peninga, sem þarf. Það hlýtur að vera hægt varðandi sláturhús eins og frystihús. Þegar við horfum á allar þær byggingar, verslunarhús, vörugeymslur, öll þau samgöngutæki, sem sömu fyrirtæki, er annast þetta, hafa getað keypt á undanförnum árum, þegar við horfum á hvert stórátakið í framleiðslu landbúnaðarafurða á fætur öðru, þá hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu, að við höfum ráð á því að byggja sláturhús, sem uppfylla hreinlætiskröfur og aðrar kröfur nútímans, þannig að við getum boðið íslenskum neytendum þessa vöru úr löglegum sláturhúsum, alveg eins og við bjóðum breskum, sænskum og norskum og bandarískum kaupendum íslenskt lambakjöt úr húsum, sem standast hvaða kröfur sem gerðar eru. Ég tel rétt, að þetta komi fram. Ég tel, að það sé brýn nauðsyn, að Alþingi ýti við þeim aðilum, sem um þessi mál fjalla, og geri þeim ljóst, sem fara með fjárráð í okkar landi, að þetta er eitt þeirra verkefna, sem verður að sinna. Það er ekki hægt að bíða ár eftir ár og veita tugum sláturhúsa undanþágu, þurfa svo að bera fram hótanir í lok sláturtíðar og gefa Alþingi á prenti þær upplýsingar, að dýralæknar landsins séu neyddir til að veita undanþágur til þessara húsa gegn betri vitund.