19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3796 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

281. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð um liðið síðan 1. umr. um þetta mál hófst hér í hv. d. Var þá málið tekið út af dagskrá eftir ræðu hæstv. iðnrh., og mér satt að seg,ja þykir miður, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur nú.

Þar er fyrst til að taka, að ég skil ekki, af hverju þetta frv. er ekki flutt sem stjfrv., þar sem um jafnviðamikinn lagabálk er að ræða og hér er. Hér er ekki neitt smámál á ferðinni, og ég hefði haft áhuga á að fá skýringu á því, hvers vegna hæstv. ríkisstj. flytur þetta ekki sem stjfrv., heldur biður iðnn, að flytja það, sem út af fyrir sig er sjálfsagt. Einhver skýring hlýtur að vera á því, hvers vegna þessi háttur er á hafður, og þá skýringu hefði ég mjög gjarnan viljað fá.

Hæstv. iðnrh. flutti, ef ég man rétt, á sínum tíma, er hann fylgdi þessu máli úr hlaði, mjög viðamikla yfirlitsræðu um iðnaðarmálin í landinu, og hann ræddi þar í þó nokkrum smáatriðum um, hvað mikið væri ætlunin að gera og hvað mikið hefði verið gert, og talaði þar þá, að mér fannst, eins og vandamál iðnaðarins væru að verulegu leyti leyst, bæði með þessu frv. og öðrum aðgerðum. En þar er ég öldungis á öðru máli. Ég tel, að iðnaðarmálin í landinu hafi aldrei verið í öðru eins öngþveiti og einmitt nú, og mér finnst, að iðnaðarmál landsmanna hafi verið allt of sjaldan og allt of lítið rædd hér á hv. Alþingi. Það hefði mátt ræða um þessi mál miklu meira og miklu fyrr, því að vandamál þessa atvinnuvegar eru svo stórbrotin, að ýmsar iðngreinar og alveg sér í lagi sá iðnaður, sem hefur verið að hasla sér völl á erlendum mörkuðum og orðið nokkuð ágengt, er nú að deyja, það er bláköld staðreynd í málinu, og kemur þar margt til, sem ég hef stundum nefnt hér áður og ætla ekki að fara út í sérstaklega. En þessi vandamál útflutningsiðnaðarins eru svo stórbrotin, hvort sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera eitthvað til þess að bæta þar um eða ekki, að aðgerðir þola enga bið, ella hættir margs konar iðnaður.

Hér er um að ræða frv., sem að mínu mati er stórmál. Það, sem er verið að gera, er að sameina rannsóknastofnanir iðnaðarins í eitt, og ég skal ekki á þessu stigi ræða um, hvort það sé rétt. Við fyrsta yfirlestur finnst mér, að í raun og veru sé þetta skipulagsbreyting, en ekki tekið á málunum eins og þyrfti að gera. Það er enginn í vafa um það, að rannsóknastarfsemi fyrir iðnaðinn er nauðsynleg og það þarf að gera eitthvað til að efla slíka starfsemi. Þessar stofnanir eru nú fyrir hendi, en mér hefur skilist, að meginerfiðleikar þeirra, hafi verið að fá hæfa menn, hæft starfslið, til þess að vinna fyrir stofnanirnar, vegna þess einfaldlega að þær hafa ekki getað greitt sömu laun og viðkomandi sérfræðingar hafa getað fengið á hinum frjálsa vinnumarkaði slíkra sérfræðinga.

Mér sýnist líka, að með þessu frv. séu ekki aukin eins mikið fjárráð til þessarar rannsóknastarfsemi og var ætlunin að gera, þegar drög að þessu frv. voru fyrst gerð í nóv. 1973. Hér hefur sem sé verið dregið úr frá því, sem þá var gert ráð fyrir. Þá var talað um það, að ríkisframlag á fjárlögum yrði 0.3–0.8% að áætluðu framleiðsluverðmæti íslensks iðnaðar, en í þessu frv. er það fært niður í 0.2–0.6%, þannig að sá fjárhagslegi styrkur, sem atvinnuvegurinn átti að fá, virðist mér ekki vera eins mikill og hefði mátt ætla.

En það er annað atriði í þessu sambandi, sem mér finnst sárlega vanta, og það er, að aðgerðir í markaðsmálum iðnaðarvara komi jafnhliða þessari tæknistofnun, Iðntæknistofnun, eins og hún er kölluð. Það er enginn minnsti vafi á því, að markaðsmálin eru fullkomlega jafnþýðingarmikil fyrir útflutningsiðnaðinn og tæknistofnun, og við höfum orðið varir við það hér á hv. Alþingi í sambandi við afgreiðslu fjárlaga til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, að það hefur ekki fengist neinn hljómgrunnur fyrir því, að sú stofnun fengi viðunandi fjármagn til að sinna sínu hlutverki, langt frá því. Markaðsmálin eru sem sé í öngþveiti, og þá er ég hræddur um, að hvað góð iðntæknistofnun sem kynni að verða sett á stofn, sem er í raun og veru ekkert annað en samansláttur þriggja stofnana, sem fyrir eru, verði hún ekki mjög þýðingarmikil, ef ekki er jafnframt fylgt eftir um þróun markaðsmála fyrir hina.

Því var lýst yfir af hæstv, iðnrh., ég held fyrir einum tveimur árum eða svo, þegar sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna höfðu gert sín fyrstu drög að iðnþróunaráætlun, að nú væri að hefjast iðnbylting á Íslandi. Mér finnst satt að segja, að þessi iðnbylting hafi gengið ákaflega hægt, svo hægt, að ég get varla merkt, að henni hafi þokað áfram um eitt hænufet á þeim tíma eða síðan hæstv. iðnrh. gaf þessa yfirlýsingu. Og það var ekki gert bara með lítilli tilkynningu, heldur var það gert með fjölmiðlasamtölum og miklum og stórbrotnum yfirlýsingum. En iðnþróunin hefur að mínu mati gengið svo hægt, að þó að þetta frv., sem liggur hér fyrir, yrði samþ., þá sé ég ekki, að það marki nein veruleg tímamót í sambandi við þessa iðnbyltingu, sem tilkynnt var um á sínum tíma.

Ég skal þá snúa mér að frv. sjálfu og nefna nokkur atríði, sem ég vil benda hv. n. á. Enda þótt ég eigi sæti í þeirri n., sem frv. kemur væntanlega til, vil ég samt nefna þau nú.

4. gr. frv. er talað um nokkuð, sem heitir skorir, og hefði að mínu mati alveg eins mátt heita deildir, og svo er skorarfundur og skorar formaður og allt þar fram eftir götunum. Það er kannske bara af því, að ég er ekki búinn að átta mig á þessu orði og þessu fyrirkomulagi, að mér einhvern veginn lýst ekki á þetta fyrirkomulag, eins og það er sett þarna fram. Þetta er auðvitað hluti af þessari skipulagsbreytingu, sem ég var að tala um áðan, og skipulagsbreytingin í sjálfu sér er auðveld, ef það hefði fylgt með, sem þarf, en það er, að fjármagn sé til staðar ti1 þess að auka starfsemi þessara stofnana.

Í 11. gr. frv. er talað um framkvæmdanefnd, og að það skuli vera forstöðumenn deilda í stofnuninni og svo fulltrúi frá Útflutningsmiðstöð iðnaðarins. Það má vel vera, að þetta fyrirkomulag reynist vel. En ég sé ekki eiginlega, hvaða gagn fulltrúi Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins ætti að gera í þessari framkvæmdanefnd, ef Útflutningsmiðstöðin sjálf er svelt, eins og gert hefur verið, og hún hefur ekki bolmagn til að sinna sinu hlutverki í sambandi við málið.

Í 12. gr. er svo rætt um skipun stjórnar. Þar er gert ráð fyrir, að það séu 6 menn í stjórn. Ég er alltaf heldur á móti því, að það sé jöfn tala í stjórn stofnana eða fyrirtækja. Samsetningin er þannig, að einn fulltrúi er án tilnefningar, annar samkvæmt tilnefningu Félags ísl. iðnrekenda, einn samkv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna úr hópi meistara í byggingariðnaði, einn fulltrúi ófaglærðs starfsfólks í iðnaði, einn fulltrúi faglærðs starfsfólks í iðnaði og einn fulltrúi starfsfólks stofnunarinnar sjálfrar.

Ég skal ekki fullyrða um það, hvernig svona stjórn mundi vinna að málefnum rannsóknastarfseminnar. En við vitum það úr fyrirtækjum ríkisins, eins og Sementsverksmiðju, Áburðarverksmiðju, Kísiliðju og sjálfsagt víðar, að stjórnir þessara fyrirtækja eru kosnar á Alþingi, og mér hefði ekki þótt óeðlilegt, að sami háttur væri hafður á í þessari stofnun.

Ég er sem sé hálfhræddur um, að stjórn, sem er svona skipuð, eigi erfiðara með að gefa þau fyrirmæli og stjórnun, sem með þarf, vegna þess, hvernig hún er saman sett.

Í 14. gr. er rætt um tekjurnar, eins og ég nefndi áðan, og skal ég ekki fara nánar út í það. En í 15. gr. er rætt um ráðningu starfsfólks og launakjör, og þar er rætt um, að launakjör starfsfólks fari samkv. kjarasamningum ríkisstarfsmanna á hverjum tíma. En í upphaflega uppkastinu, sem ég nefndi áðan, var talað um, að stjórn stofnunarinnar ákvæði launakjör starfsfólks, sem er ráðið. Skal það gert með hliðsjón af kjörum opinberra starfsmanna annars vegar og hins vegar af þeim kjörum, sem viðkomandi starfsmanni bjóðast í sambærilegu starfi á frjálsum vinnumarkaði. Þetta er auðvitað ákaflega þýðingarmikið atriði. Ég er ekki að segja, að það sé út af fyrir sig ekki æskilegt, að slík stofnun sem ríkisstofnun lúti sömu reglu og aðrar opinberar stofnanir, en staðreyndin er bara sú, að þær stofnanir, sem hafa starfað að þessum verkefnum, hafa ekki fengið hæfa starfskrafta. Þetta er grjóthörð staðreynd. Hvort hægt er að breyta þessu eitthvað, skal ég ekki segja um, eða hvort hv. Alþingi þyki þorandi að fara út á þá braut. En sú n., sem fjallaði um þetta og gerði þessi drög, sem ég nefndi, taldi, að þetta væri gerlegt, og ef ekki fást hæfir starfskraftar til iðntæknistofnunar, þrátt fyrir þessi lög, þá er í raun og veru ekki verið að leysa neinn vanda, heldur er bara verið að hrista upp í því skipulagi, sem fyrir er. Að mínu mati orkar það mjög tvímælis, hvort rétt er að gera það. Hins vegar eru mörg önnur atriði í frv., sem sjálfsagt eru til bóta, og ég er ekki að hafa á móti því út af fyrir sig, að reynt sé að finna skynsamlega leið til að samræma aðgerðir þessara rannsóknastofnana, og tel, að það væri æskilegt að mörgu leyti. En mér finnst bara vera agnúar á þessu, svo miklir, að ég er hálfhræddur um, að þetta leysi ekki þann vanda, sem frv. er ætlað að leysa.

Erfiðleikar iðnaðarins þola enga bið, það er alveg ljóst, alveg sérstaklega útflutningsiðuaðarins og raunar iðnaðarins fyrir heimamarkaðinn líka, bara svolítið seinna, því þegar tollarnir hafa smátt og smátt fallið niður á innfluttum iðnaðarvörum, þá gefur auðvitað auga leið, að sá iðnaður, sem fer á innlendan markað, á við nákvæmlega sömu erfiðleika að etja og hinn, sem er að fást við útflutning. Þegar svo er komið, að það verður að greiða stórar uppbætur með tilteknum samningum fyrir iðnaðarvörur og lagmetisvörur, sem hafa verið seldar til Sovétríkjanna, gefur auðvitað auga leið, að það verður að bregðast fljótt við, og það er alveg óþolandi, að vissar uppbætur séu greiddar á tiltekna samninga, en svo ekkert á aðra samninga. Hér verður eitthvað að koma til.

Ég sagði, að mér þætti miður, að hæstv. iðnrh. er ekki við, vegna þess að ég ætlaði að spyrja hann, hvernig hann ætli að halda á málefnum iðnaðarins á allra næstu vikum, jafnvel dögum, því mér er kunnugt um, að viss iðnaðarfyrirtæki eru að hætta eða hafa ákveðið að hætta sinni framleiðslu, sem hefur verið til útflutnings. Og þetta er einmitt úti á landsbyggðinni, þar sem sérstaklega þarf að hlynna að þessari litlu iðnaðartilraun. Það gefst tækifæri til að ræða um þetta síðar, en ég vil aðeins líka þessum fáu orðum mínum með því að bera fram efasemdir um gagnsemi þessa frv., enda þótt það verði auðvitað rætt nánar í hv. iðnn., þegar það kemur þangað, en fyrst og fremst reyna með einhverjum hætti að koma þeim tilmælum ti1 hæstv. iðnrh., að hann geri einhverjar ráðstafanir til þess að aðstoða útflutningsiðnaðinn, ekki einhvern tíma í sumar eða haust, heldur strax.