19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3338)

113. mál, skipulag ferðamála

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Ég mun ekki eyða mörgum fleiri orðum að þessu máli með vísun til þess, sem ég áður sagði, að ég á sæti í þeirri n., sem fær það til meðferðar.

Ég er næsta vantrúaður á, að það muni ekki kosta allmikið fé að koma á fót þeirri allviðamiklu stofnun, sem mér sýnist vera verið að gera till. um. Allt um það, vonandi verður ekki um neinar stórfúlgur að tefla. En alla vega eiga að fylgja upplýsingar um það við slíka tillögugerð, með hvaða hætti verður að þessu staðið eða til hvers málið muni leiða í fjárhagslegu tilliti. Ég minnist þess, að á dagskrá hér í gær, — ég hafði ekki tök á því að fylgjast með því, hvort það mál náði fram að ganga eða ekki, var í Sþ. till. til þál., þar sem lagt er til að skora á ríkisstj. að hlutast til um það, að kostnaðaráætlanir fylgi öllum stjfrv. Ég sá einnig, að frá hv. fjvn. hafði komið shlj. álit um að mæla með samþykkt þessarar till., og ég er sannfærður um, að það er einróma álit allra hv. þm., að þannig eigi að standa að málum.

Við í hv. samgn. munum vafalaust fá svör við þeim spurningum, sem við kjósum að leggja fyrir embættismenn sem aðra í þessum efnum, og þess vegna dvel ég ekki lengur við það atriði.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að hér er ekki verið að leggja til neitt stórt nýtt í sambandi við Ferðamálasjóð varðandi lánakjör hans. Það er alveg rétt, á því er ekki neinn stór munur, hvort byggt er á framfærsluvísitölu eða byggingarvísitölu. En allt um það, þá er samt ljóst, að þessi lánakjör eru ekki með þeim hætti, að maður ætli, að þau verði til þess að efla neitt nægjanlega þennan atvinnuveg, langt frá því. Það er einnig alveg hárrétt, að vítaskuld getur ekki neinn sjóður lánað út á öðrum kjörum en þeim lánskjörum, sem hann nýtur sjálfur, það gefur auga leið. En aðalmálið í þessu sambandi er það, að þessi sjóður er sveltur af opinberu fé, og ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að það afsakar ekkert þessa tillögugerð, þótt hann hafi verið rösklega sveltur allt frá stofnun hans.

Ferðamálaráð gerir till. um, að lagður verði skattur á fríhöfnina, og hafa tjáð mér kunnugir menn, að þótt lagður yrði 10% skattur á fríhöfnina, sem mun velta um 300 millj. kr., þá muni verðlag þar eftir sem áður vera hið lægsta sem gerist í Evrópu, svo að ég held, að það þurfi að líta sérstaklega á þetta atriði.

Ég skal ekkert um það dæma, hvort er fær leið að innheimta þetta gjald af vínveitingahúsum. Ég kann ekki að meta það, þó hygg ég, að það hljóti, þó að sé um aðgöngumiða að ræða, að vissu marki að verða nokkuð þungur skattur á þeim húsum.

Varðandi Ferðaskrifstofu ríkisins og þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf, þá get ég að vísu játað, að áhyggjur mínar linuðust nokkuð, en þó fór því fjarri, að honum tækist að eyða þeim með öllu. Hann játaði, að lausafjárstaða þessarar stofnunar væri ekki með þeim hætti sem skyldi, og þá þýðir það rakleiðis, að hún getur ekki eftir hendinni, þetta opinbera fyrirtæki, staðið við skuldbindingar sínar, sem hlýtur að leiða til erfiðleika, ef litið er til þess, við hvaða aðila hún á aðallega að skipta, sem eru erlendir aðilar. Ég fékk þær upplýsingar hjá Ferðaskrifstofunni, að þeim tilmælum hefði verið komið á framfæri við hana, að hún rannsakaði, hvort hún gæti ekki dregið úr t.d. rekstri þeirra hótela og hætt rekstri þeirra Edduhótela, sem hefur verið mest tap á á s.l. ári, en það reyndist að sjálfsögðu ómögulegt, þar sem þegar höfðu verið hafnar bókanir um gistirými þar. Enn fremur hygg ég, að það hafi verið svo fyrir mælt, sem mér þykir afar slæmt, ef rétt reynist, að dregið skyldi úr samstarfi við aðrar þjóðir á þessu sviði. Þar í felst stórvægilegt atríði, sem snertir landkynningarstarfsemina, sem ég tel eitt allra þýðingarmesta atriði þessa máls. En að fengnum svörum hæstv. ráðh. leyfi ég mér að lýsa því yfir, að ég treysti því, ekki síst með tilliti til þess, að við ætlum að halda hér mikla þjóðhátíð, sem við vonumst til, að erlendir gestir heiðri með nærveru sinni m.a., og ég vænti þess fastlega og er þess raunar fullviss, að úr verði bætt, skorti eitthvað á um það, að Ferðaskrifstofan nái vopnum sínum fullkomlega til þess að standa við allar skuldbindingar sínar og verða rekin með þeim sóma, sem við hljótum að ætla henni. Ég lýsi því yfir, að ég treysti hæstv. samgrh. til að sjá svo um, að þannig verði að málunum staðið, að þau mál, sem kunna að vera óleyst í þessu sambandi, verði leyst þegar í stað.