06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

365. mál, verkfallsréttur opinberra starfsmanna

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) :

Herra forseti. Í málefnasamningi ríkisstj. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. vill, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt um kjör sín, enda hverfi þá öll sjálfvirk tengsl milli launasamninga þeirra og annars launafólks.“

Síðan þetta var ritað 14. júlí 1971, hefur það gerst, að vísu 7 mánuðum síðar, að fjmrh. skipaði n. til þess að endurskoða gildandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um kjarasamninga opinberra starfsmanna og um verkfall opinberra starfsmanna. Eins og vænta mátti, vannst n. ekki tími til að ljúka þessu mikla verkefni, þessari heildarendurskoðun, nógu snemma, til þess að nýjum reglum yrði að öllu leyti við komið við gerð kjarasamninganna nú. Niðurstaðan varð svo sú, að lagt var fyrir Alþ. frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem varð að lögum hinn 14. apríl s. l. Eins og þau lög bera með sér, er þar hvergi vikið að því, að opinberum starfsmönnum eigi að veita fullan verkfallsrétt, og hefur það raunar valdið því, — og sá dráttur, sem orðið hefur á þessu máli, — að á opinberum vettvangi hafa af hálfu forustumanna opinberra starfsmanna komið fram getsakir um, að ekki sé samstaða um það innan ríkisstj., að opinberum starfsmönnum verði veittur verkfallsréttur og staðið við ákvæði stjórnarsáttmálans þar um. Ég vil minna á í þessu sambandi, að samtök opinberra starfsmanna telja verkfallsréttinn þýðingarmesta atriðið í sambandi við samningsréttinn, eins og margsinnis hefur verið ítrekað og m. a. kom fram í bréfi fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna til formanns samningsréttarnefndar 28. okt. 1972.

Ég vil enn fremur leyfa mér að minna á svo hljóðandi ályktun 29. þings BSRB, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„29. þing BSRB ítrekar fyrri ályktanir um fullan samningsrétt til handa samtökum opinberra starfsmanna. Þingið lítur á kjarasamningalögin, er samþ. voru á Alþ. s. l. vor, sem algera bráðabirgðalausn. Leggur þingið áherslu á, að störfum samningsréttarnefndar að heildarendurskoðun kjarasamningalaganna og laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verði hraðað. 29. þing BSRB skorar á ríkisstj. að standa við yfirlýsingu í stjórnarsáttmálanum um fullan samningsrétt handa opinberum starfsmönnum og krefst þess, að sú yfirlýsing verði framkvæmd með lagasetningu á næsta Alþ. í samráði við BSRB.“

Samkv. framansögðu leyfi ég mér að bera upp svohljóðandi fsp. til fjmrh.:

„1. Hvað líður heildarendurskoðun laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna?

2. Hefur fjmrh. í hyggju að leggja fram frv. um fullan samningsrétt og verkfallsrétt opinberra starfsmanna á þessu þingi?“