22.04.1974
Efri deild: 105. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3818 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

303. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. nr. 57 27. apríl 1973, um atvinnuleysistryggingar, er fyrst og fremst flutt til staðfestingar á því samkomulagi, sem gert var í kjarasamningunum í febrúarlok og ríkisstj. hét að beita sér fyrir, að lögfest yrði. Sérstök n. samdi síðan þetta frv. undir forustu Hjálmars Vilhjálmssonar fyrrv. ráðuneytisstjóra ásamt fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins. Frv. er komið frá Nd. og hlaut þar einróma samþykki.

Ýmis atriði frv. snerta beinlínis ýmsar þær breytingar, sem urðu við þessa kjarasamninga, svo sem 1. og 4. gr. frv. Aðrar, svo sem 2. og 3. gr., eru til leiðréttingar og frekari áréttingar eldri laga. En aðalefnið liggur í þætti Atvinnuleysistryggingasjóðs í greiðslu kauptryggingar til þess fólks, er að fiskvinnu starfar. Réttur vinnuveitenda til endurgreiðslu úr sjóðnum er nú samkv. frv. 60%, gildir þannig til 1. mars 1979, fer þá niður í 50% og lækkar síðan um 10% á ári og fellur því með öllu brott 1. mars 1984.

Um nauðsyn á kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu er óþarft að ræða, svo sjálfsagt réttlætismál sem það er, og með fullnýtingu fiskvinnslustöðva ætti hér ekki að vera vandamál á ferðinni í framtíðinni fyrir neinn aðila.

Heilbr: og trn. mælir einróma með samþykki frv., en fjarverandi afgreiðslu málsins voru Eggert G. Þorsteinsson og Geir Gunnarsson.