22.04.1974
Efri deild: 105. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3819 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

228. mál, gatnagerðargjöld

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Félmn. hefur haft til athugunar frv. til l. um gatnagerðargjöld á þskj. 392. Nál. á þskj. 723 greinir frá því, að n. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. Í umsögn, sem barst frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem mælt er með samþykkt frv., eru lagðar til tvær brtt., sem n. hefur gert að sinum og birtast á fyrrnefndu þskj, n. Breyt. eru í því fólgnar, að 2. mgr. 3. gr. orðist svo:

„Heimild til að leggja á slík gjöld er bundin við það, að sveitarfélagið hafi ekki áður innheimt af hlutaðeigandi fasteign gatnagerðargjald, sem ætlað hefur verið a.m.k. að hluta til bundins slitlags.“

Í öðru lagi: „Á eftir 6. gr. komi ný gr., sem verði 7. gr., svo hljóðandi:

„Gatnagerðargjaldi skv. 1. og 3. gr. fylgir lögveð í viðkomandi fasteign.“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Grg. er allítarleg, og flm. hefur flutt ítarlega framsöguræðu. Ég vil aðeins undirstrika það, sem kemur fram í grg., að bæði þörfin og kröfur um bætt umhverfi fer mjög vaxandi. Það er ekki eðlilegt, að íbúar þéttbýlisstaða úti um land uni því að þurfa að vaða þar í for og leðju, hvenær sem vætir. Hitt er einnig ljóst, að því fylgir verulegur kostnaður að leggja varanlegt slitlag, sem svo er nefnt, á götur, og jafnframt því ljóst, að sveitarfélög þessi verða að hafa aðstöðu til að innheimta gjald af notendum þessara gatna, af íbúum við slíkar götur, til þess að geta ráðist í þær kostnaðarmiklu framkvæmdur. Þetta hefur raunar verið gert af ýmsum sveitarfélögum án lagaheimildar, en þó orðið á nokkrum stöðum viðtekin venja. Það er því samdóma álit sveitarstjórnarmanna, að tími sé til þess kominn að festa í lög ákvæði um gatnagerðargjöld, sem heimila sveitarfélögum undir vissu eftirliti ráðh. að innheimta umrædd gjöld til gatnagerðar og til þess ekki síst að leggja á götur varanlegt slitlag. Að þessu stefnir þetta frv., og það er, eins og ég sagði, samdóma niðurstaða n. að mæla með samþykkt þess.