22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (3367)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. er á þskj. 738, eins og það er komið frá hv. Ed., og var lagt þar fram á s.l. hausti. Eins og skýrt var frá í framsögu fyrir frv. í þeirri hv. d., var allmikill aðdragandi að gerð þessa frv. og hafði verið búið að vinna að frv. um skráningu fasteigna af fyrrv. fjmrh., þegar síðustu stjórnarskipti urðu. Það var skoðun þess hæstv. ráðh., að á frv. væru ýmsir annmarkar, svo að ekki væri rétt að leggja bað þá fram, eins og það var úr garði gert, og var því haustið 1971 samið frv. upp úr því upphaflega frv., sem hugsanlega yrði lagt fram. En þrátt fyrir þá vinnu, sem í það var lagt, var það skoðun núv. fjmrh. og þeirra, sem að málinu unnu síðar, að á því frv. væru einnig þeir annmarkar, — m.a. að það yrði dýrt í framkvæmd, — að horfið var frá því ráði að leggja frv. þá fram.

Sumarið 1972 og fram á vetur 1973 var svo unnið að endurskoðun frv., og meðal þeirra, sem þá unnu að endurskoðun þess, var ráðuneytisstjórinn í fjmrn. og yfirfasteignamatsnefnd ríkisins, sem vann mikið verk, og var haft samráð við fleiri aðila um verð þessa frv., enda grípur það til landsins alls. Niðurstaðan af því verki var það frv., sem lagt var fyrir hv. Ed. á s.l. hausti og hefur verið þar til meðferðar á þessu hv. þingi, en sú d. gerði á því nokkrar breyt., þó að þær muni ekki vera veigamiklar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um skráningu og mat fasteigna, er, eins og greinir í aths. með frv., ný lagasetning á þessu sviði. Var orðin brýn og aðkallandi þörf á slíkri lagasetningu, enda hefur alllengi verið ljóst, að lagagrundvöllur aðalfasteignamatsins frá 1970 gæti ekki dugað til frambúðar um þróun þessara mála. Það hefur geysimikla þjóðhagslega þýðingu, að skráning og mat fasteigna sé jafnan í góðu horfi, bæði fyrir sveitarfélögin í landinu og ýmsa aðra aðila.

Með frv. þessu er leitast við að móta ákveðna frambúðarstefnu, sem á ýmsan hátt víkur frá ríkjandi skipan þessara mála, auk þess sem frv. er nú mun ítarlegra um flest en núv. lög, sem eru nr. 28 frá 1963, um fasteignamat og fasteignaskráningu.

Helstu nýmæli í frv. þessu eru þau, sem hér skal greina:

1. Í núgildandi l. er megináhersla lögð á mat fasteigna, en skráning kemur í öðru sæti og mun minni áhersla lögð á hana. Í þessu frv. er þessu snúið við, því að þar er a.m.k. ekki minna lagt upp úr skráningarþættinum en matinu sjálfu, enda hefur haldgóð skráning fasteigna mikla og sívaxandi þýðingu bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila. Í 3. gr. frv. er nánar greint, hverjum upplýsingum skuli safnað um sérstaka fasteign. Um það, hvort einhverjir agnúar eru á þeirri upptalningu, verður reynslan að skera úr.

2. Mikilvægt atriði í frv. er það, að ekki er lengur gert ráð fyrir allsherjarmati fasteigna á landinu öllu með ákveðnu árabili og millimatskerfi þess í milli, svo sem nú er. Mat og skráning fasteigna verður samkv. þessu frv. sífellt verkefni, sem unnið er að allan ársins hring. Með þessu er stefnt að því, að upplýsingar um fasteignir verði á hverjum tíma eins nærri sanni og tæknilega er kostur á.

3. Gert er ráð fyrir, að ný stofnun, Fasteignaskrá, sinni þessum verkefnum og leysi núv. Fasteignamat ríkisins af hólmi. Um nánara skipulag þeirrar stofnunar vísast til frv. og grg. þar um.

4. í 9. gr. frv. segir fyrir um, hverjir skuli annast upplýsingasöfnun um fasteignir, en þau störf eru falin byggingafulltrúum. Á sama hátt er í 18. gr. frv. gert ráð fyrir, að sérstakir matsmenn, sem ráðh. ræður til þess starfa, meti fasteignir, en um þetta skal að öðru leyti vísað til aths. með frv.

5. Þá er gert ráð fyrir sérstakri ráðgjafanefnd sem starfi í tengslum við Fasteignaskrána. henni skulu eiga sæti fulltrúar ýmissa þeirra aðila, sem nýta eða geta nýtt Fasteignaskrána í rekstri sínum. Með þessum hætti öðlast þessir aðilar formlegan vettvang, þar sem þeir geta haft áhrif á þróun Fasteignaskrár sem stofnunar og starfsháttu hennar. Það er skoðun rn., að nauðsyn beri til að stuðla að því, að fasteignamatsskráningin og sú stofnun, sem þar er sett á fót, geti orðið matsaðili fyrir hinar ýmsu stofnanir í þjóðfélaginu, svo sem banka og aðrar veðlánastofnanir, sem til þessa hafa haft sérstaka matsmenn á sínum snærum.

Í 25. gr. er fólgið mikilsvert nýmæli þess efnis, að yfirfasteignamatsnefnd ákveði ár hvert reiknistuðla fyrir skráð matsverð fasteigna með hliðsjón af verðbreytingum. Er þannig gert ráð fyrir, að framreikningur þessi eigi sér stað í nóv. ár hvert og taki gildi 1. des., þannig að nýtt fasteignamat um verð fasteigna, sem sé sem næst raunverði, gildi um hver áramót.

Þá er gert ráð fyrir breyttri skipan fasteignamatsnefndar, en samkv. frv. má skipan hennar á ýmsan hátt jafna til dómkvaðningu.

Ýmis fleiri nýmæli eru í frv., en þessi eru hin mikilvægustu. Í því sambandi vil ég einnig geta um það, sem kom fram í hv. Ed. m.a., um aðsetur matsmanna, en það eru ákveðnir staðir á landinu, sem ætlast er til, að fasteignamatið hafi aðsetur á. Þessir staðir eru: Reykjavík, Akureyri, Egilsstaðir, Selfoss, Ísafjörður, Borgarnes, Sauðárkrókur og Keflavík. Þessir staðir eru valdir með tilliti til þess, að sem hægast sé að komast yfir þau svæði, sem undir þá heyra, og það falli sem mest til af ferðum í öðrum erindagjörðum inn á þessi svæði eins og staðarval ber með sér. Það var sjónarmið þeirra, sem völdu þessa staði og undirbjuggu þetta mál, að það væri sem hægast til samgangna fyrir þau heildarsvæði, sem undir staðinn heyra.

Enn fremur vil ég geta þess, vegna þess sem kom fram í hv. Ed., að það er gert ráð fyrir því, að fasteignamatsnefnd sé ekki, í upphafi a.m.k., skipuð með þeim hætti, að þar séu ríkisstarfsmenn, heldur séu þeir með uppsagnarrétti, og það stafar af því, að gert er ráð fyrir, að þar þurfi ekki að verða um full störf að ræða, sérstaklega í byrjun, og a.m.k. meðan ekki sé um full störf að ræða, eigi ekki að skipa þessa menn eins og um ríkisstarfsmenn væri að ræða í venjulegum skilningi, heldur að ráða þá til verksins og báðir aðilar geti sagt upp starfinu með eðlilegum hætti.

Þá kom það einnig fram í hv. Ed. um mat á bújörðum, að þar er gerður greinarmunur á því, hvort jörð er hugsuð til búskapar eða til annarra nytja, eins og sumarbústaðalanda eða sérstaklega veiðiréttinda, sem breyta verðmæti hennar mjög frá því almenna sjónarmiði að meta búskaparréttindin með tilliti til þess, að um búskap á landinu sé að ræða, og höfð hliðsjón af því, en ekki af öðrum ástæðum, sem gera þetta mat óeðlilegt.

Ég sé ekki ástæðu til við þessa umr. að fara frekar út í þetta frv., enda fylgir því ítarleg grg., og málið hefur hlotið langa og stranga meðferð í hv. Ed. Ég vona, að hv. Nd. geti byggt á þeim störfum, sem þar hafa verið unnin, því að nauðsyn her til að fá þetta mál afgreitt á þessu hv. Alþingi.

Ég legg svo til. herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.