22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (3370)

281. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðh. kynnti þetta mál fyrir hv. d., flutti hann ítarlega og fróðlega ræðu um stöðu iðnaðarins og þróun hans sem atvinnuvegar hér á landi eða a.m.k. undanfarinn áratug. Hann minnti á iðaþróunaráform sín og iðnbyltinguna, sem svo hefur verið kölluð af honum og hans talsmönnum, og síðan lýsti hæstv. ráðh. yfir, að þetta frv. væri forsenda allra frekari aðgerða á þessum vettvangi. Hann komst þannig að orði, að hér væri um að ræða meginstoð allra þeirra miklu breyt., sem gera þyrfti í iðnaðinum, ef ekki ætti að sigla honum í strand í allra næstu framtíð.

Nú mætti ætla, þegar um svo stórt mál er að ræða, að hæstv. ríkisstj. stæði einhuga að baki þessu máli og legði metnað sinn í, að málið fengi skjóta og örugga afgreiðslu, hvað þá að ríkisstj. bæri þetta mál upp sem sitt stefnumál. En svo kynlega bregður við, að það er ekki hæstv. ríkisstj., sem stendur að flutningi þessa máls, heldur hv. þingnefnd. Ráðh. gaf þá skýringu, að sá kostur hafi verið valinn til að tryggja frekar framgang þessa máls með því að láta hv. þm. flytja það. Nú er það í sjálfu sér athyglisverð yfirlýsing af hálfu ráðh., að það sé betra að láta ríkisstj. ekki flytja mál, ef þau eiga að ná fram að ganga. Hitt held ég að sé þó sönnu nær, að hæstv. ráðh. átti ekki annarra kosta völ. einfaldlega vegna þess, að um þetta mál var alls ekki samkomulag innan ríkisstj. Og það hefði verið hreinskilnara að viðurkenna þessa staðreynd í stað þess að koma með þá barnalegu skýringu, að það tryggi frekar framgang málsins að láta þn. flytja það frekar en hæstv. ríkisstj.

Í þessu sambandi vil ég til gamans minnast á það, að í umr. hér í síðustu viku, þegar til tals kom járnblendiverksmiðja og frv.- flutningur um um það efni, þá sagði þessi sami hæstv. ráðh., að hann treysti sér ekki til þess að flytja frv. um verksmiðjuna vegna stjórnarandstöðunnar, og virðist fokið í flest skjól fyrir hæstv. ráðh., þegar hann ýmist treystir sér ekki til að sýna sín eigin frv. í nafni ríkisstj. vegna stjórnarandstöðu eða þá hann lætur þn.flytja þau og læðir þeim þannig inn á þingið. Auðvitað er þetta sönnun þess, að það er löngu tímabært fyrir þessa ríkisstj. að leggja upp laupana, þegar ráðh. hennar koma ekki málum sínum inn í þingið með öðrum hætti en þessum.

En það kom fleira athyglisvert fram í ræðu hæstv. ráðh., sem hann flutti hér í fyrstu lotu þessarar umr. um þetta mál, og ég tel ástæðu til að vekja sérstaka athygli á einum kafla þessarar ræðu, sem sjálfsagt fór fram hjá of mörgum hv. þm., en það er kaflinn þar sem hann fjallaði um atvinnulýðræði, rekstur fyrirtækja og eignaraðild þeirra, en í því sambandi sagði hæstv. ráðh.:

„Atvinnulýðræði er mikið til umr. um þessar mundir. Menn eru þó ekki á eitt sáttir um gildi þess, einkum að því er varðar aðild starfsmanna að stjórnun einkafyrirtækja. Þykir ýmsum, að slíkt sé yfirklór eitt, til þess fallið að dylja andstæðuna milli eigenda fyrirtækisins og launþega þess.“

Og síðan sagði hæstv. ráðh.:

„Fullkomið atvinnulýðræði verður ekki að veruleika, fyrr en einkaeign framleiðslutækja er úr sögunni. Hér er um að ræða grundvallaratriði í efnahagskerfi okkar og flestra annarra ríkja, og þarna er að finna eina meginástæðuna fyrir þeirri verðbólguþróun, sem barist er við, bæði hér á landi og annars staðar.“

M.ö.o.: þessi hæstv. ráðh. er búinn að segja hv. d., í hverju verðbólguvandinn sé fólginn, einfaldlega þeirri ástæðu, að framleiðslutækin eru að einhverju leyti í einkaeign, og hann telur það vera frumforsendu til lausnar þessum vanda að afnema einkaeigu manna og ryðja með því þessum bölvaldi úr vegi.

Hér er hæstv. ráðh, ekki að skafa af meiningu sinni. Hann undirstrikar, að hér sé um að ræða grundvallaratriði í efnahagskerfi okkar, og hann fullyrðir, að einkaeign framleiðslutækja sé bölvaldurinn í íslensku efnahagslífi og skuli afnema þessa einkaeign.

Nú er þetta að sjálfsögðu ekki nein ný tíðindi. Þetta eru skoðanir hins sanntrúaða sósíalista. En venjulegum mönnum hefur stundum sést yfir þessa staðreynd, þegar hinir æfðu stjórnmálamenn bregða sauðargærunni yfir nafn og númer, og þannig hefur það farið fram hjá allt of mörgum, hvernig þessi hæstv. ráðh. og hans flokkur hafa notfært sér valdaaðstöðu sína í þjóðfélaginu í dag til þess að þrengja skipulega að öllum frjálsum atvinnurekstri í landinu. Það er ákaflega lærdómsríkt, að á sama tíma og ráðh. leggur fram frv. um uppstokkun á skipulagi nokkurra opinberra stofnana, þjónustustofnana fyrir iðnaðinn, sem hann telur vera algjöra forsendu frekari átaka í iðnaðarmálum, þá skuli hann nota tækifærið og árétta stefnu sína og hug gagnvart frjálsum atvinnurekstri. Ég tel það ekki vera tilviljun, að ráðh. notar þetta tækifæri til þess að koma þessari skoðun sinni á framfæri. Og ég held, að það sé auðvelt að sjá samhengið þarna á milli. Ég held, að það sé líka ástæða til þess að gera sér grein fyrir þessari meginstefnu hæstv. ráðh. og hans flokks, nú þegar menn tala um lausn á efnahagsvanda. Ég er þeirrar skoðunar, að Alþb. og ráðh. þess hafi viljandi leitt yfir þjóðina ákveðin vandamál og kynnt undir, að til þessara vandamála yrði stofnað. Þeir hafa átt sinn þátt í því, að fjárl. hafa verið margfölduð, opinberar framkvæmdir auknar fram úr öllu hófi, vinnumarkaðurinn sprengdur og kröfupólitík mögnuð. Og í framhaldi af þessu, þegar allt er komið í vandræði, þá er hringiðunni beint að atvinnurekstrinum, einkarekstrinum, og sagt: Þarna er sökudólgurinn, þennan sökudólg verður að hálshöggva. Ég tel, að það sé nauðsynlegt, að þetta sjónarmið ráðh. sé nokkuð kynnt fyrir þjóðinni, og ég held, að það sé full ástæða til þess að aðstoða ráðh. í því að kynna þessa skoðun hans, — menn eiga ekki að gleyma þessum boðskap. Og ég held, að þessa kveðju eigi þeir aðilar að taka til sín, sem hafa tekið mark á fagurgala hæstv. iðnrh. á vettvangi iðnaðarins undanfarna mánuði.

Ýmsir iðnrekendur og þeir, sem að iðnrekstri standa, hafa léð samþykki sitt, a.m.k. óbeint, við það frv., sem hér er á dagskrá, vegna þess að þeim er talin trú um, að tækniþjónusta þessarar stofnunar muni vaxa, fjármagn til rannsókna og iðntækniþjónustu muni aukast og rannsóknastofnanir muni vera samkeppnisfærari í mannaráðningu. Allt er þetta þó mikill misskilningur, eins og best sést á því, þegar þetta frv. er skoðað. Það er rétt, að þær forsendur, sem að ofan eru taldar, eru algjörlega nauðsynlegar og óhjákvæmilegar til raunhæfrar eflingar á iðntækniþjónustu, — forsendurnar fjármagn og mannafli. En hvorugt þessara atriða er til staðar, þegar frv. er skoðað ofan í kjölinn. Og þá stendur eftir, því miður, uppstokkun á úreltu kerfi, flókin skipulagsbreyting, sem ekki hefur annan sjáanlegan tilgang en að koma á nýrri yfirbyggingu, annars konar stjórn og sennilega nýjum mönnum.

Tildrög þessa máls eru þau, að 8. maí 1972 skrifaði hæstv. ráðh. bréf og skipaði þar n. og skrifaði erindisbréf til n. um verkefni hennar. Stóð m.a. í þessu ráðherrabréfi:

„Hér með eruð þér skipaðir til þess að vinna að því að samhæfa þá starfsemi þeirra stofnana ríkisins, er vinna að sérfræðilegum rannsóknum og tækniaðstoð við iðnaðinn, í eina allsherjar tæknistofnun.“

Þetta skyldi vera verkefni n., sá þröngi stakkur, sem hennar störfum var sniðinn. Í áliti, sem n. gaf út í des. 1972 og ég hef hér með mér, kemur fram, að n. sú, sem vann eftir þessu erindisbréfi ráðh., gerir till. um, að gerð sé rammalöggjöf um þessar stofnanir og um þessi verkefni. Í þessu áliti n. leggur hún mikla áherslu á réttan aðdraganda, réttan undirbúning málsins, áður en til stofnunar þessarar allsherjar tæknistofnunar kemur, og segir, með leyfi forseta, í þessu nál.:

N. leggur til, að fyrsta skrefið til samhæfingar verði stigið sem fyrst með því að koma á fót samstarfsnefnd með fulltrúum frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun iðnaðarins, og Iðnþróunarstofnun Íslands, auk Útflutningsmiðstöðvar og iðnrn. N. þessi hittist t.d. tvisvar í mánuði og fylgist með samstarfi stofnana og komi í veg fyrir tvíverknað. Engin formsatriði virðast því til fyrirstöðu að stofna slíka n. nú þegar.“

Áfram segir síðan í nál.:

„Til þess að framkvæma skipulagstillögu n. til fullnustu þarf a.m.k. að breyta l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, að því er varðar Rannsóknastofnun iðnaðarins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Það þarf jafnframt að breyta l. um Iðnþróunarstofnun og l. um verkstjórafræðslu. N. er ljóst, að slíkar breyt. mundu taka nokkurn tíma, en þó er að sjálfsögðu rétt að hefjast handa sem fyrst. N. vekur hins vegar athygli á, að vel má framkvæma ýmsar till. hennar um nýja og breytta starfsemi, án þess að endanlegur skipulagsrammi sé kominn á.“

Framkvæmd till. n. um nýja starfsemi krefst stóraukins fjármagns til þessara hluta, svo sem við er að búast. N. leggur sérstaka áherslu á, að fjármögnun verði að haldast í hendur við endurnýjun starfseminnar, því að annars dregur úr þeirri starfsemi, sem fyrir er. N. varar t.d. ákveðið við því, að aukin tækniþjónusta við iðnfyrirtæki verði til þess að hefta eðlilegan vöxt rannsóknastarfsemi, sem miðast við langtímahagsmuni íslensks iðnaðar.

Þetta eru tilvitnanir úr nál. frá því í des. 1972. Þessu nál. var vísað til umsagnar ýmissa aðila, og vil ég leyfa mér að kynna hér álit Rannsóknaráðs ríkisins eða framkvæmdanefndar þess ráðs, en það álit er dags. í mars 1973. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst virðist, að með umræddu nál. hefur að ýmsu leyti verið unnið ágætt starf. M.a. eru dregin fram ýmis mikilvæg atriði, sem bæta verður, og á þeim vakin athygli. Með tilliti til rannsóknastarfseminnar má sérstaklega nefna:

1) Aukið samstarf rannsóknastofnana og annarra þjónustustofnana iðnaðarins.

2) Stóraukin rannsóknastarfsemi með verulegri aukningu þess fjármagns, sem til rannsókna rennur.

3) Bætt aðstaða rannsóknastofnana til samkeppni við atvinnuvegina um ráðningu á starfsliði með auknu frelsi í launamálum.

4) Bætt þjónusta við atvinnuvegina með aukinni ráðgjafarstarfsemi.

Síðan segir í þessu nál. Rannsóknaráðs ríkisins:

„M.a. teljum við hina miklu yfirbyggingu, sem ráðgerð er, að ýmsu leyti varhugaverða, ekki síst þar sem skrefið til sameiningar verður ekki stigið til fulls. Algjör sameining umræddra stofnana er að okkar mati ekki æskileg, enda er gert ráð fyrir nokkru sjálfstæði einstakra eininga. Með þessu móti virðist hins vegar ástæða til þess að óttast, að ákvarðana- og stjórnunarleiðir verði óljósar. Einnig virðist okkur vafasamt að rýra um of áhrif atvinnuvega eða atvinnugreina á stjórn viðkomandi stofnunar. Ætlunin virðist vera að ráða nokkra bót á þessu með aukinni ráðgjafarstarfsemi. Með auknu fjármagni frá iðnaðinum sjálfum virðist hins vegar eðlilegt, að iðnaðurinn fái aukinn rétt til ákvarðana um ráðstöfun þess fjármagns.“

Enn síðar í þessu áliti Rannsóknaráðs segir: „Áður en horfið verður að því að gjörbreyta núverandi kerfi, teljum við því eðlilegt og rétt að kanna, hvort ekki megi ná svipuðum árangri á einfaldari máta. Ef svo reynist ekki vera, er aftur á móti nauðsynlegt, að tryggt sé, að sá árangur, sem að er stefnt, náist með þeim róttæku breyt., sem nál. gerir ráð fyrir. Vafasamt virðist að ákveða, eins og gert er í skipunarbréfi nefndarinnar, að lausnin skuli vera að sameina starfsemi stofnana í eina allsherjar tæknistofnun. Réttara er að skoða fleiri leiðir að settu marki.“

Þetta læt ég nægja um álit framkvæmdanefndar Rannsóknaráðs ríkisins. Í þessu áliti kemur fram hugur flestra þeirra, sem um þetta mál hafa fjallað og hafa sýnt á því áhuga, þ.e.a.s. sá hugur, að forsenda allra breyt. á þessum vettvangi sé aukið fjármagn og meira svign5m í mannaráðningum. Ef þessar forsendur eru ekki fyrir hendi, þá sé annað nánast kák eitt.

Ég held, að ég geti leyft mér að fullyrða, að með tilliti til nál. þeirrar n., sem undirbjó þetta mál, og álits m.a. Rannsóknaráðs ríkisins o.fl. aðila, þá komi fram, að þann undirbúning, sem mælt er með, og þær forsendur, sem taldar eru þurfa að vera fyrir hendi, skorti nánast gjörsamlega.

Til marks um þetta má vekja athygli á því, að í nál., sem ég hef vitnað hér til, er gert ráð fyrir því, að fjármagnsstraumur til ranasóknastarfseminnar, þessarar tækniþjónustu, aukist mjög verulega. Þar segir m.a.: Ef miðað er við að ná þessu marki með jöfnum hlutfallshækkunum milli ára, þ.e.a.s. því marki, að u.þ.b. 2% af framleiðsluverðmæti iðnaðarins gangi til tækni- og rekstrarfræðiþjónustu, — til þess að ná því marki þyrfti hækkunin til þessarar starfsemi að aukast verulega, ef gengið er út frá tölum fjárlagafrv. fyrir árið 1973.

Síðar segir í þessu áliti n., að hún telji þetta atriði vera algjöra forsendu, frumskilyrði þess, að árangur fáist af breytingum á ranasóknastarfsemi í þágu iðnaðarins.

Í frv. hefur þó verið dregið mjög úr fjármagninu, sem á að renna til starfseminnar, frá því, sem n. gerði ráð fyrir, og reyndar frá því, sem var í upphaflegu frv.- uppkasti, sem dreift var til ýmissa aðila á sínum tíma. Þar var talað um 0.3–0.8%, en í frv. núna 0.2% lágmark og er það samsvarandi við það, sem nú er ráðstafað til þessarar starfsemi, og því ekki mikil von til þess, að úr verði bætt, hvað þetta snertir.

Það er hafið yfir allan vafa, að það þarf að gera mjög róttækar breyt. á skipulagi rannsóknastarfseminnar á Íslandi. Það bíða stór og aðkallandi verkefni, enda þótt þessi ríkisstj. hafi hvorki haft dug né kjark til þess að takast á við þau. Sú breyt., sem fólgin er í þessu frv., er hvorki fugl né fiskur og er auðvitað í engum tengslum við samræmda hreyt. á heildarskipulagi rannsóknamála. Það er athyglisvert, að eftir að þetta frv. hafði verið lagt fram hér í d., hljóp framkvstj. Rannsóknaráðs ríkisins, hv. þm. Steingrímur Hermannsson upp til handa og fóta, og lagði hér í flýti fram þáltill. í Sþ., þar sem skorað er á ríkisstj. að taka nú til athugunar heildarskipulag rannsóknamála. Og hann leggur þessa till. fram vegna þess, eins og hann segir í grg., að þetta frv. er hér komið fram. Sést best á þessu, hversu skipulagshyggjan er nú allsráðandi hjá þeim hv. stjórnarsinnum, hversu vinstri höndin veit lítið, hvað sú hægri er að gera.

Ég get fallist á það, eftir því sem ég hef þekkingu til og hef kynnt mér, að það þurfi að samræma störf og þjónustu þeirra stofnana, sem vinna í þágu iðnaðarins á þessum vettvangi. En það er engan veginn sannað að setja þurfi á stofn nýja stofnun, Iðntæknistofnun, og sýnist alveg út í hött að ráðast í slíka skipulagsbreytingu, ef ekki er fullnægt þeim forsendum, sem menn virðast vera sammála um, að þurfi að vera fyrir hendi, ef einhver raunhæfur árangur á að nást. Ég tel, um leið og það er eðlilegt ~og sjálfsagt, að þetta frv. sé skoðað, að þá séu þessi sjónarmið höfð í huga.