22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3836 í B-deild Alþingistíðinda. (3374)

15. mál, orkulög

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls lét ég í ljós stuðning minn við meginefni þessa frv., sem miðar að því að tryggja, að hagnýting jarðvarma á háhitasvæðum verði til sem mestra nytja og heilla fyrir þjóðina í heild. Sú orka, sem hér um ræðir, er enn að mestu óbeisluð, en á vafalaust eftir að verða undirstaða bættra lífskjara og fjölbreyttara atvinnulífs í landinu á komandi árum, ef rétt er á málum haldið, ásamt vatnsaflinu og þeim atvinnuvegum, sem þjóðin byggir lífsafkomu sína nú aðallega á, því að framtíðarmöguleikarnir í sambandi við hagnýtingu jarðvarmans eru vissulega ýmsir og ekki nándar nærri enn fullkannaðir. Það, sem þar kemur helst til greina, er þess eðlis, að ríki og sveitarfélög hljóta að hafa forustu um þær framkvæmdir. Það er því í alla staði eðlilegt, að hagnýtingarréttur jarðvarma á háhitasvæðum sé einungis í höndum ríkis og sveitarfélaga. Sú meginhugsun, sem liggur að baki frv., á því rétt á sér, þ.e. að jarðvarmi á háhitasvæðum komist í almannaeigu og þannig verði örugglega um hnútana búið, að nýting hans geti orðið með sem hagkvæmustum og ódýrustum hætti fyrir íbúa viðkomandi byggðarlags og þjóðina alla.

Sem dæmi um það, hversu mikilvægt það getur verið að mínum dómi fyrir einstök byggðarlög, að meginefni þessa frv. nái fram að ganga, vil ég einmitt nefna það, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, þ.e. jarðhitasvæðið í Svartsengi, en sveitarfélög á Suðurnesjum sunnan Hafnarfjarðar hafa komið sér saman um og stofnað sameignarfélag um hitaveitu fyrir þessi byggðarlög, svo sem kunnugt er, en eignarrétturinn á því landssvæði, sem heppilegast er talið að nýta jarðvarma frá til hitaveitu fyrir Suðurnes, er í einkaeign, og það er einmitt Svartsengi, landssvæðið, sem hv. síðasti ræðumaður minntist hér á.

Það er langt síðan farið var að ræða nýtingu jarðvarma á Reykjanesskaga til upphitunar húsa á Suðurnesjum. Fyrst var svo til eingöngu rætt um möguleikana á beislun hverahitans á svæðinu við Reykjanestá. Þar er það hitasvæði, sem kunnugt er, sem mest ber á þar um slóðir. Veigamiklar rannsóknir undanfarin ár hafa hins vegar leitt í ljós, að Svartsengi í grennd við Grindavík sé ákjósanlegasta virkjunarsvæðið. Það álít kemur m.a. fram í skýrslum verkfræðinganna Karls Ragnars og Sveinbjörns Björnssonar frá árinu 1972. Að því er nú stefnt, eins og hér hefur komið fram, að þaðan komi hitaveita fyrir umrædd byggðarlög hið allra fyrsta. En það, sem veldur erfiðleikum, er, að Svartsengi er í einkaeign og eigendur munu gera kröfur um miklar fjárbætur, ef landið yrði frá þeim tekið til virkjunar hitaveitu fyrir íbúa Suðurnesja.

Hv. síðasti ræðumaður, Ingólfur Jónsson, gerði lítið úr þessum kostnaði og þar fyrir sig álit Orkustofnunar um, að greiðsla fyrir landið og virkjunarréttinn væri svo lítil, að litlu máli skipti í heildarkostnaði virkjunarframkvæmdanna. Það má vel vera, að Orkustofnun sé fær um að meta slíkt. En ég , fullyrði, að ýmsir aðrir, sem einnig hafa vit á slíkum hlutum, eru allt annarrar skoðunar, og ég veit einnig, að það er mikið áhyggjuefni þeirra, sem hlut eiga að máli á Suðurnesjum, hinn mikli kostnaður, sem þeir telja, að geti orðið í sambandi við kaup á þessu landi. Margir hverjir telja, að hér geti verið um svo stórar fjárfúlgur að ræða, að torveldað geti framkvæmdir og jafnvel dregið úr hagkvæmni hitaveitunnar fyrir sveitarfélögin til að byrja með. Ef hins vegar umrætt frv. næði fram að ganga og yrði að lögum, er skoðun margra, að greiðast mundi úr þeim vanda, væntanlega fljótt og vel á næstu mánuðum. Að öðrum kasti geti virkjunarframkvæmdir dregist á langinn, jafnvel vegna samningaþófs og málaferla fyrir dómstólum vegna fjárkrafna landeigenda. En um slíkt er auðvitað ekkert hægt að fullyrða. Óneitanlega sýnist, að viss hætta geti orðið á slíku, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga eða meginefni þess réttara sagt.

Við 1. umr. málsins lét ég í ljós þá skoðun, að ég teldi fullnægjandi, að ákvæði frv. nái einungis til þeirra háhitasvæða, sem eru í eigu einstaklinga. Ég benti þá á, að vandséð væri þörfin á því, að ríkið yfirtæki einnig háhitasvæði, sem eru í eigu sveitarfélaga og þau hafa sum eignast með ærnum tilkostnaði, því að ég hygg, að óhætt sé að ganga út frá því sem gefnu, að slíkar eignir sveitarfélaga verði einungis hagnýttar til almannaheilla. En eðlilegt er að mínum dómi, að sveitarfélögum sé gert að skyldu að hafa samráð við Orkustofnun og ríkisvaldið um hagnýtingu þeirrar orku, sem fyrir hendi er á háhitasvæðum þeirra, til þess að það verði jafnan tryggt, að nýting jarðhitans á háhitasvæðunum og verði með sem skynsamlegustum hætti og til sem mestra þjóðarheilla.

Til þess að ná fram þessum markmiðum, sem ég hef lýst, lagði ég fram brtt. á þskj. 21, svohljóðandi:

„Við 1. gr. frv. bætist eftirfarandi málsgr.: Sveitarfélög skulu eiga allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum, þar sem landareign er í eigu sveitarfélagsins, þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara.“

Í umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eða stjórn þess kemur fram, að stjórnin er samþykk þessari brtt., og í umsögn stjórnarinnar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin telur nauðsynlegt, að sú breyt. verði gerð á frv., að inn í það verði felld brtt, á þskj. 21, flm. Stefán Gunnlaugsson. Jafnframt bendir stjórnin á nauðsyn þess, að l. tryggi þeim sveitarfélögum, sem ekki eiga lönd að háhitasvæðum, forgangsrétt til hagnýtingar jarðhita þar.“

Ég verð að halda fast við þessa till. mína og vona, að hún nái fram að ganga, enda tel ég ranglátt og óþarft, að ríkið sölsi undir sig eignir sveitarfélaga með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir. En fari svo mót von minni, að hún nái ekki fram að ganga, þá tel ég svo miklu varða, að meginefni frv. nái fram að ganga, að ég mun greiða því atkv. mitt. Sú hugsun, að jarðhiti á háhitasvæðum komist í almenningseign, svo að þannig verði um hnútana búið, að nýting hans verði skipulögð með hagsmuni þjóðarinnar í heild og einstakra byggðarlaga að markmiði fyrst og fremst, á að mínum dómi fyllsta rétt á sér. Þetta er atriði, sem við Alþfl.-menn höfum lagt ríka áherslu á í málflutningi og tillögugerð hér á hinu háa Alþ. En það má ná því markmiði, án þess að ríkið yfirtaki eignir sveitarfélaga, sem þau hyggjast hagnýta til almannaheilla. Þess vegna vænti ég þess, að brtt. mín á þskj. 21 nái fram að ganga hér í hv. deild.