22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

15. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður sagði, að það þyrfti að flýta sér að nýta orkuna sem mest í landinu, og ég er honum alveg sammála. Það þarf að flýta sér að nýta orkuna, sérstaklega með tilliti til þess, að innfluttur orkugjafi er dýr. En að þetta frv. verði til þess, það er fjarstæða, þótt það verði að lögum, nema því verði haldið fram, að það sé í rauninni lítið að marka skýrslur frá Orkustofnuninni eða öðrum opinberum aðilum um rannsóknastörfin og undirbúning að virkjunum jarðhita og vatnsfalla. Þótt leitað sé með logandi ljósi, kemur hvergi fram, að nokkrar tafir hafi orðið á rannsóknum í þessum málum, vegna þess að ríkið hafði ekki átt orkugjafann. Hafi tafir orðið, þá er það fjármagnsskortur, sem hefur komið í veg fyrir æskilegan hraða, en ekki það, að rannsóknir hafi verið hindraðar vegna þess, að orkugjafinn eða uppsprettan hafi verið í einkaeign eða félagseign.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Stefáns Gunnlaugssonar, hvað fyrir honum vakir, og ég held, að hann hafi túlkað á nokkuð réttan hátt stefnu frv., þ.e. að ná tangarhaldi á þessum réttindum á greiðan hátt. Hann telur, að frv., ef að lögum verði, greiði fyrir því. En það er talsverður misskilningur í hugsanagangi hv. þm., vegna þess að það er eins og hann hafi ekki munað eftir ákvæðum í orkul., sem gera ráð fyrir leigunámi eða eignarnámi. Hv. þm. talaði um, að vegna þess að Svartsengi væri í einkaeign, gæti valdið miklum erfiðleikum að nýta jarðhitann í Svartsengi og sveitarfélögin á Suðurnesjum væru með áhyggjur út af þessu. Ég las áðan upp úr skýrslu Orkustofnunar, og ég vil leyfa mér að gera það aftur, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess að það gæti verið að hv. þm. hafi ekki veitt því athygli, sem ég las áðan. Orðrétt segir í skýrslunni:

„Háhitasvæði við Svartsengi, er í einkaeign. Jarðhitadeild Orkustofnunar tók við rannsóknum, sem gerðar höfðu verið af hálfu Grindavíkurhrepps í samráði við landeigendur og gaf át í janúar 1973 bók um varmaveitu frá Svartsengi.“

Og á bls. 15 í skýrslu Orkustofnunar stendur orðrétt:

„Eignarréttur jarðhitans mun vera í höndum einkaaðila og hefur ekki verið gerð tilraun til að meta kostnað við öflun virkjunarréttinda, en hins vegar gert ráð fyrir, að hann sé óverulegur hluti af stofnkostnaði og hafi engin úrslitaáhrif á hagkvæmni veitunnar.“

Nú er það svo, að áður en farið er að taka leigunámi eða eignarnámi, er venjulega farin samningaleiðin. Það skyldi nú ekki vera, að þeir, sem sömdu skýrslu Orkustofnunarinnar, hafi, áður en þeir skrifuðu þetta í skýrsluna, verið búnir að leita sér nokkurra upplýsinga um, hvort samningsvilji væri fyrir hendi hjá landeigendum. Ef enginn samningsvilji er fyrir hendi hjá landeigendum, er vitanlega ekkert annað að gera en að flytja frv. um eignar- eða leigunám hér á Alþ., og ég efast ekki um, að slíkt frv. yrði samþykkt með öllum atkv., því að slíkt frv. yrði flutt vegna þess, að almenningsheill krefði. Það er því alger fjarstæða að halda því fram, að það verði til tafar framkvæmdum við Svartsengi, verði þetta frv., sem við nú erum að ræða um, ekki samþ. Ég trúi því, sem Orkustofnunin segir í þessu efni, og byggi það á því, að þeir hafa ekki látið frá sér fara nema það, sem styðst við staðreyndir, og ég geri ráð fyrir því, að þeir hafi kynnt sér það, hvort samningsvilji er fyrir hendi, og hafi e.t.v. einnig gert sér grein fyrir því, að hátt matsverð yrði á þessu ef til eignarnáms kæmi.

Ég held þess vegna, að það sé engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af því, að framkvæmdir tefjist með varmaveitu á Suðurnesjum, þó að þetta frv. nái ekki fram að ganga. Það þarf ekki heldur að hafa áhyggjur af því, að verkið verði tiltakanlega kostnaðarsamt, þótt einhver greiðsla þurfi að koma fyrir hitaréttindin, því að eins og Orkustofnunin segir, hefur það engin úrslitaáhrif á hagkvæmni varmaveitunnar.

Herra forseti. Mér þótti rétt að taka þetta fram að gefnu tilefni. Það er leitt til þess að vita, ef þetta frv. verður lögfest, vegna þess að hv. þm. geri sér ekki grein fyrir því, að þótt þetta frv. verði ekki að l., þá er hægt að halda áfram skipulegum athugunum, skipulegum rannsóknum og skipulegum framkvæmdum í þessu efni samkv. þeim l., sem nú eru í gildi, — þeim orkul., sem nú er unnið eftir.