22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

15. mál, orkulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka iðnn. fyrir að hafa loks skilað áliti um þetta frv. Ég hef áður greint frá því, að mér hefur fundist, að hún hafi haft það fulllengi til meðferðar, en við því er ekkert að segja. Það er eðlilegt, að n. þurfi að athuga þetta mál gaumgæfilega, og ég fagna því að sjálfsögðu, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með minni háttar breytingum.

En afstaða minni hl. kemur mér nokkuð á óvart, þ.e.a.s. þau vinnubrögð, sem minni hl. viðhefur. Það er niðurstaða í nál. minni hl., að nauðsynlegt sé að taka málið til frekari yfirvegunar og athugunar og endurskoðuninni mætti ljúka, áðum en næsta reglulegt Alþ. tekur til starfa á komandi hausti, Minni hl. virðist þannig þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að samþykkja frv. af þessu tagi, það þurfi bara að gera á því einhverjar breyt. Ég held, að það hafi þá verið eðlileg vinnubrögð og þau venjulegu þinglegu vinnubrögð, að minni hl. hefði gert till. um slíkar breyt. og flutt þær hér á hinu háa Alþ. Þannig vinnum við yfirleitt að lagafrv., ef við teljum, að rétt sé, að þau nái fram að ganga, en s,jáum á þeim einhver missmíði, þá flytjum við brtt. og látum á það reyna, hvort meiri hl. er fyrir þeim, og síðan metum við það, hvort málið er svo mikils virði, að við fylgjum því, jafnvel þótt brtt. kunni að falla, Ég tel sem sagt, að minni hl. hafi átt að hafa þessi vinnubrögð. Hann hefur sannarlega haft ærið ráðrúm til þess, því að eins og tekið hefur verið fram, er þetta annað þingið, sem málið liggur fyrir, og þetta er ekki ýkjaflókið mál. Þetta er fyrst og fremst mjög veigamikið grundvallarmál. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ingólfs Jónssonar, er þetta raunar yfirklór, þegar hann talar um, að það verði að breyta einu og öðru í frv. og það sé hægt að gera það og leggja það svo fyrir þingið á næsta hausti, því að hann lýsti í rauninni algerri andstöðu við frv. Þá hefði það verið öllu manndómsmeira að flytja till. um, að frv. yrði fellt, en að vera með svona yfirklór, að það þurfi að breyta einhverju óskilgreindu í því, en segja svo hér úr ræðustóli, að hann sé á móti sjálfri meginhugmyndinni í frv.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson vitnaði mjög til Orkustofnunar og taldi, að hún teldi, að þetta frv. væri þarflaust. Þetta er algerlega rangt hjá hv. þm. Þetta frv. er flutt í mjög nánu samráði við Orkustofnun. Sérfræðingar hennar unnu að undirbúningi þess, og mér er kunnugt um það, að Orkustofnun leggur ákaflega mikla áherslu á, að frv. verði afgreitt. Það er nú svo með réttindi af þessu tagi, að það hafa orðið ákaflega miklar breyt. á viðhorfum á tiltölulega mjög stuttum tíma. Áður fyrr voru viðhorf manna þau, að ef verið var að ráðast í meiri háttar framkvæmdir til almenningsheilla, þótti ekki sæmandi að reyna að tengja við það einkahagsmuni á óeðlilegan hátt. Þetta voru viðhorf manna um allt land. En þessi viðhorf hafa því miður verið að breytast mjög ört á tiltölulega skömmum tíma, og þau viðhorf hafa komið upp í staðinn, að þar sem verið er að gera verulegar framkvæmdir í almannaþágu, sé eðlilegt, að þeir, sem eiga land, sem þarf að nýta í því sambandi, verðleggi það eins hátt og mögulegt er. Við þekkjum þetta í sambandi við vegaframkvæmdir. Við þekkjum þetta í sambandi við línulagnir og öll möguleg önnur atriði. Ég þarf varla að minna á Votmúlamálið fræga t.a.m. í þessu sambandi. Þarna er um það að ræða, að einstaklingar telja, að þeir geti fært sér til eignar ýmsar framkvæmdir, sem verið er að gera af þjóðarheildinni, að það eigi að auka verðgildi þeirra einkaeignarréttar á einhverju landi, sem þeir hafa kannske erft og þeir hafa ekki á nokkurn hátt stuðlað að, að yrði hagnýtt í þágu alþjóðar. Þannig er það með þessi háhitasvæði, eins og allir vita. Allar rannsóknir, sem þar hafa verið gerðar, hafa verið gerðar af almannafé, og nýtingin á þessum orkugjöfum verður í þágu alþjóðar. Ég held, að það sé siðferðilega ósæmilegt með öllu, að þeir, sem hafa eignarrétt á landi, geti hagnast óeðlilega af þessum sökum. Mér finnst þetta vera siðferðilegt spillingareinkenni á þjóðfélagi okkar. En því miður hefur þessi spilling verið að grafa ákaflega mikið um sig að undanförnu, og einmitt þess vegna er nauðsynlegt, að um þetta verði settar skýlausar reglur.

Mér er kunnugt um, að það er fullkomlega rétt, sem hv. þm. Stefán Gunnlaugsson sagði, að hugmyndir þeirra, sem land eiga á Suðurnesjum, virðast vera það háar, að þær geta jafngilt ákaflega mikilli skattheimtu, t.a.m. á þær byggðir á Reykjanesi, sem hafa hug á því að leggja til sín hitaveitu. Það er í senn ákaflega mikil þjóðhagsleg nauðsyn, og ég tel ekki, að löggjafarsamkoman geti á það fallist, að menn, sem tekið hafa þetta land í arf og ekkert hafa gert sjálfir til að gera það verðmætt, ekki hafa lagt í neinn kostnað til þess að ná í þá orku, sem er í iðrum jarðar, og ekki hafa nein tök á að gera það heldur, eigi að hirða kannske hundruð millj. kr. af almannafé í þessu skyni.

Þarna er um að ræða ágreining um grundvallaratriði á milli ríkisstj., sem flytur þetta frv., og hv. þm. Ingólfs Jónssonar, sem vill að lögmál hins skefjalausa einkaeignarréttar eigi að gilda og að einstaklingar eigi þannig að geta skattlagt alþýðu manna um land allt í sína einkaþágu, ef svo hittist á, að í landi, sem þeir hafa erft, finnst háhiti.

Það er rakið í grg. frv., að sá hugmynd, sem í því felst, er á engan hátt ný. Okkar ágætustu fræðimenn hafa talið, að einmitt þannig sé eðlilegt að setja einkaeignarréttinum almenn takmörk, þar sem um er að ræða hugsanlegan árekstur á milli hans og almenningsheilla. Það er vitnað í prófessor Ólaf Lárusson, Bjarna heitinn Benediktsson, Ólaf Jóhannesson núv.forsrh. í þessu sambandi, og þetta hefur verið, eins og ég sagði áðan, að minni hyggju almennt viðhorf á Íslandi alveg þangað til á seinustu árum. Einmitt þess vegna legg ég á það mjög þunga áherslu, að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi. Það þarf að liggja fyrir nú þegar, hvert mat Alþ. er á þessu vandamáli. Það þarf að vita um það, því að ef kemur í ljós, að Alþ. vill ekki tryggja almannaheill á þann hátt, sem þarna er gert ráð fyrir, leiðir af því ákaflega miklar breyt, á öllum áformum okkar um nýtingu orkugjafa á Íslandi.

Að því er varðar brtt. hv. þm. Stefáns Gunnlaugssonar, þá finnst mér hún vera byggð á nokkrum misskilningi. Ég lét breyta frv. frá síðasta þingi til þess að koma til móts við þau sjónarmið, sem hann var með, og n. hefur gengið þar enn þá lengra á móti með því að setja tímafrest 15 ár. Hv. þm. Stefán Gunnlaugsson sagði áðan, að sér fyndist óeðlilegt, ef taka ætti af sveitarfélögum óhemjuleg verðmæti, sem nú væru í þeirra eign. Þarna virðist mér, að hann hugsi út frá sveitarfélögunum á sama hátt og einstaklingarnir hugsa út frá sér. Með þessu frv. er aðeins verið að lýsa þennan mikla varma í jörðu almenningseign, og það á ekki að bitna á neinn hátt á sveitarfélögum.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að til vinnslu jarðhita með borunum á háhitasvæðum þurfi leyfi Alþ. Það verður sem sagt flutt frv. í hverju einstöku tilviki og það samþykkt, alveg eins og frv. um vatnsaflsvirkjanir, og ég hef enga trú á því, að hér á Alþ. geti nokkurn tíma komið upp andstaða gegn því, að sveitarfélag nýti jarðhita á slíkan hátt í sína þágu. Hitt teldi ég algerlega óeðlilegt, ef svo stæði á, að sveitarfélag hefði jarðhitaréttindi og Alþ. teldi rétt að nýta þessi réttindi til einhverra annarra hluta en í þágu sveitarfélagsins, ef sveitarfélagið væri ekki með nein áform um að nýta þetta sjálft, að sveitarfélagið gæti þá verðlagt þessi réttindi til fjár. Ég teldi það algerlega óeðlilegt, alveg á sama hátt og um einstaklinga. Ég tel, að þarna verði almannaeignarsjónarmiðið að vera gildandi. Í þessu er ekki af minni hálfu fólgin sú hugmynd á einn eða neinn hátt að torvelda sveitarfélögunum, að þau nýti jarðhita og það þó sérstaklega til hitaveituframkvæmda. Þvert á móti, ég vil, eins og hv. þm. vita, stuðla að því, að þeim verði gert það sem allra auðveldast.

Þetta eru þær aths., sem ég vildi koma fram með, en ég legg á það ákaflega þunga áherslu, að þetta frv. verður að fá afgreiðslu á þingi. Það verður að skera úr þessu annaðhvort af eða á.