23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

314. mál, aðstaða bæklaðra

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina til hæstv. heilbrrh. eftirfarandi spurningu:

1. Hve margir bíða nú skurðaðgerðar á bæklunardeild Landsspítalans?

2. Hvaða aldursflokkar eru fjölmennastir á biðlistanum?

3. Má vænta úrbóta á þessu sviði?

Fsp. eru fram komnar vegna þess, að á undanförnum mánuðum hefur nokkuð verið rætt og ritað um hinn óhugnanlega langa biðlista deildarinnar. Því er ekki að neita, að þessi óvanalega langi biðlisti kemur nokkuð á óvart, ekki síst vegna þess, að á síðasta ári birti heilbr: og trmrh. allmikið rit um vistunarrýmisþörf heilbrigðisstofnana. Þar segir í niðurlagsorðum, með leyfi forseta:

„Að því er varðar sjúkrahús fyrir bráðan líkamssjúkdóm er áætluð þörf svipuð og tiltækt rými og því ekki skortur á vistunarrými á því sviði. Sama gildir um höfuðborgarsvæðið varðandi vistunarrými á sjúkrahúsum fyrir bráða líkamssjúkdóma og á almennum hjúkrunarheimilum. Sé litið á hin almennu sjúkrahús víðs vegar um landið, sem sinna fæðingarhjálp og hlutverki almennra hjúkrunarheimila auk þess að vera sjúkrahús fyrir bráða líkamssjúkdóma, verður heldur ekki talið, að í heild sé um verulega þörf að ræða umfram tiltækt rými, Þótt nokkurt frávik sé til beggja handa á hinum ýmsu svæðum, ef borin er þannig saman áætluð þörf og tiltækt vistunarrými á öllu landinu á sjúkrahúsum fyrir bráða líkamssjúkdóma, fæðingardeildum og almennum hjúkrunarheimilum, eru hin tiltæku rými 3% fleiri en áætluð þörf.“

Í þessu riti, sem gefið er út á síðasta ári, er talið, að vistunarrými sé um 3% meira en þörfin á þessum sviðum. Hins vegar er um svipað leyti að myndast langur biðlisti á bæklunardeildinni. Vitað er, að til þess eru ýmsar ástæður, og því spyr ég um það, hverjar ástæður liggi til þess og hvaða úrbætur séu væntanlegar.