23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (3379)

314. mál, aðstaða bæklaðra

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi, hve margir bíði nú skurðaðgerðar á bæklunardeild Landsspítalans. Skv. upplýsingum, sem fengist hafa frá bæklunarsjúkdómadeild Landsspítalans, voru þar 679 manns á biðlista í marslok, en hve margir þeirra biðu skurðaðgerða á deildinni, er ekki hægt að svara. Sennilegt er þó, að meginhluti þeirra hafi átt að ganga undir skurðaðgerð. Ástæðan fyrir þessum langa lista er sem kunnugt er sú, að á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á sviði læknavísinda, sem hafa gert kleift að gera skurðaðgerðir við sjúkdómum, sem áður voru taldir ólæknandi og taldir hrörnunar- og ellisjúkdómar, sem ekki væri neitt hægt við að gera. Eftir að þessi nýja tækni kom upp, hefur að sjálfsögðu vaknað áhugi hjá fólki, sem hefur átt við slíka erfiðleika að etja, um að fá nokkra bót meina sinna, og þess vegna hefur komið upp þessi langi listi. Hin sama hefur þróunin orðið í ýmsum nálægum löndum og er afleiðing af þeim framförum, sem þarna hafa orðið á sviði læknavísinda og ekki hefur tekist enn þá að koma til móts við.

Hv. þm. spyr í öðru lagi, hvaða aldurflokkar séu fjölmennastir á biðlistanum. Biðlistinn hefur ekki verið flokkaður eftir aldri nema að litlu leyti, og það hefur ekki verið gerð könnun á aldurflokkaskiptingunni nema í stórum dráttum. Hún sýnir hins vegar, að fjölmennasti flokkurinn er fólk 67 ára og eldra, en í þeim hópi eru 156 manns. Meginhluti þessa fólks er á biðlista vegna hugsanlegrar skurðaðgerðar á mjaðmaliðum. Sá aldursflokkur, sem styst þarf að bíða, eru þeir, sem liggja ú vegum bæklunarlækningadeildar og á barnadeild, en það eru þeir, sem eru 12 ára og yngri að jafnaði, en þeir voru 31. mars 14 á þeim biðlista.

þriðja lagi spyr hv. þm., hvort vænta megi úrbóta á þessu sviði. Bæklunarlækningadeild Landsspítalans er sem kunnugt er ung. Hún tók til starfa 7. febrúar 1972. Þá lágu fyrir inntökubeiðnir fyrir 236 sjúklinga, þ.e.a.s. inntökubeiðnir, sem lagðar hafa verið inn vegna bæklunarsjúkdóma á handlækningadeild Landsspítalans. Rúmafjöldi bæklunarlækningadeildar var í upphafi 23 rúm, en á síðasta ári, þegar séð var, hve biðlisti deildarinnar jókst hratt, var tekið það ráð að leggja undir deildina einnig 10 rúm af áður fyrirhugaðri endurhæfingardeild spítalans, enda hafði starfslið ekki fengist til starfa á þeirri deild. Bæklunarlækningadeildin hefur því nú um eins árs bil verið rekin með 33 rúm. Á síðasta hausti, nánar tiltekið 8. okt., ritaði heilbrrn. þáv, formanni stjórnarnefndar ríkisspítalanna Sigurði Sigurðssyni fyrrv. landlækni og benti á, að rn. teldi rétt að taka fyrst um sinn alla þá deild, sem ætluð væri endurhæfingarsjúklingum, fyrir bæklunarlækningadeildina, þannig að deildin fengi samtals 46 sjúkrarúm. Jafnframt var óskað eftir því, að stjórnarmenn tækin upp viðræður við forstöðumenn á Reykjalundi um samstarf þessara spítala að endurhæfingarmálum. Þessi breyting, sem rn. lagði til við stjórnarnefnd á síðasta hausti, hefur ekki gengið fram, og kom fljótlega í ljós, að mjög mikil andstaða var bæði hjá læknaráði Landsspítalans og því starfsliði, sem vinnur endurhæfingarstörf á Landsspítala, gegn þessari breytingu. Núv, stjórnarnefnd hefur enn ekki tekið málið til afgreiðslu, en hefur stuðlað að því, að þær umr., sem fyrirhugaðar voru um samvinnu Landsspítala og Reykjalundar, hafa farið fram, og hafa yfirlæknarnir Jón þorsteinsson og Stefán Haraldsson á Landsspítala og Haukur Þórðarson á Reykjalundi tekið þátt í þeim viðræðum. Gert er ráð fyrir því, að stjórnarnefnd ríkisspítalanna fái niðurstöður og till. frá þessum aðilum innan skamms.

Hvað því viðvíkur að gefa bæklunarsjúkdómadeild aukið svigrúm á Landsspítala, þá mun stjórnarnefnd hafa það til athugunar og einkum gera samanburð á því, hvernig biðlistar hinna ýmsu deilda eru samansettir, og taka þá afstöðu til þess, hvort breyta þurfi stærðum deilda á Landsspítala í samræmi við þær niðurstöður, er af því fást. Kann þá að vera, að sú athugun leiði í ljós, að ósamræmið á milli þessa langa biðlista annars vegar og sjúkrarúma, sem hv. þm. minntist á hins vegar, kunni að vera öllu minna en virðist við fyrstu sýn.