06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

62. mál, nám í sjúkra- og iðjuþjálfun

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti Á þskj. 66 hef ég leyft mér að flytja eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„Hvað líður undirbúningi að námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands?“ Sjúkraþjálfun er ört vaxandi starfsgrein innan heilbrigðisþjónustu og endurhæfingar. Þar kemur margt til, hækkandi tíðni slysa, hækkandi meðalaldur og vaxandi skilningur lækna á gildi sjúkraþjálfunar. Hver sæmilega búin heilbrigðisstofnun þarf á sjúkraþjálfara að halda, sömuleiðis elliheimill og dvalarheimili öryrkja. Við læknisfræðilega endurhæfingu eru þeir aðalstarfskraftur. Árum saman hefur heilbrigðisþjónusta okkar liðið vegna skorts á sjúkraþjálfurum, þrátt fyrir það að við höfum jafnan haft nokkra erlenda menn við störf. Þeim, sem sárast urðu fyrir barðinu á þessum skorti, var það snemma ljóst, að ekki mundi úr rætast, fyrr en þeir fengju skóla fyrir sjúkraþjálfara. Ákveðið var að leita eftir því við Háskóla Íslands, að stofnuð yrði námsbraut í sjúkraþjálfun við læknadeildina. Þetta var eðlilegt, þegar það er haft í huga, að flest undirstöðufög sjúkraþjálfunar eru kennd í læknadeildinni og þar eru því kennslukraftar og tæki fyrir hendi. Lengi höfðu menn áhyggjur af möguleikum á verklegri kennslu sjúkraþjálfara hér. Nú hefur þetta breyst. Fullkomnar endurhæfingarstöðvar, vel tækjum búnar, eru fyrir hendi, en vafalítið munu að vísu verða erfiðleikar með kennara, en þó ekki svo, að það afsaki þennan sífellda drátt á byrjunarstarfinu. Læknadeildin hefur ákveðið að hefja kennslu í sjúkraþjálfun. Sérfræðingur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem kom hingað til athugunar á málinu, hefur lagt til, að skólinn komist á fót. Vonast var til þess, að kennsla gæti hafist nú í haust, en málið virðist sitja fast í menntmrn., og því spyr ég, hvað undirbúningi liði.