23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3858 í B-deild Alþingistíðinda. (3390)

428. mál, viðskilnaður mannvirkja á Heiðarfjalli á Langanesi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e. er á þessa lund:

Hinn 1. maí 1970 fóru síðustu varnarliðsmennirnir frá radarstöðinni á Heiðarfjalli. Jón Ólafsson, sem starfað hafði sem túlkur hjá varnarliðinu, varð eftir fyrir norðan til þess að hafa eftirlit með dísilvélum, sem síðar voru fluttar til Hornafjarðar, þegar vegir leyfðu slíkan þungaflutning. Allt lauslegt, sem heitið gat, hafði þá verið flutt burt, en hinu komið fyrir í lokuðum húsum að sögn Ágústs Guðröðarsonar löggæslumanns, er eftirlit hafði með stöðinni fram í júnímánuð sama ár.

30. júní 1970 var undirritaður samningur í varnarmálanefnd, þar sem varnarliðið afsalaði sér öllu tilkalli til landssvæðis þess, sem afhent hafði verið sem varnarsvæði fyrir radarstöðina, svo og öllum mannvirkjum og ýmsum útbúnaði, sem við þau var tengdur. Jafnframt tók íslenska ríkið alla ábyrgð í þessum efnum. Ábyrgð þessi var svo falin Sölunefnd varnarliðseigna, er áður hafði fengið til vörslu stöðvarinnar þá Sigurð Jónsson hreppstjóra á Efra-Lóni Sauðaneshreppi og Jóhann Gunnlaugsson bónda á Eiði, sem var næsti byggði bær við stöðina sunnan Heiðarfjalls. Um miðjan maímánuð fór svo Sveinn Pálsson byggingarmeistari í Reykjavik norður til athugunar á munum þeim og húsum, sem síðan voru boðin upp og seld. Hinn 6. mars 1970 var samningum við landeigendur sagt upp, en samkv. ákvæðum samninganna var leiga greidd til 1. sept. 1971, og lauk þar með afnotum landssvæðisins á Heiðarfjalli.

Það er á ábyrgð Sölunefndar varnarliðseigna eða nú Sölu varnarliðseigna, þar sem nefndin hefur verið lögð niður, að ganga forsvaranlega frá landinu og kaupenda að koma eigum sínum burt, ef einhverjar eru. Viðskilnaður sumra kaupenda mun hafa verið þannig, að þeir hafa skilið eftir alls konar lausa muni, sem ýmist eru enn þá upp á fjallinu eða hafa fokið víðs vegar um. Þar sem nú mun orðið erfitt að koma fram ábyrgð á hendur hinum ýmsu kaupendum, er vísast, að Sala varnarliðseigna verði að taka málið í sínar hendur og ganga þannig frá málum, að hreinsað verði til, og verða ráðstafanir gerðar til þess.

Þegar varnarliðið hvarf á braut, lokaði póst- og símamálastjórnin símasambandsstöð, sem rekin var í húsi á fjallinu, að nokkru leyti vegna veru varnarliðsins þar. Póst- og símamálastjórnin hefur enn þá þetta hús til umráða, og eru áætlanir um að reka þar radíóþjónustu fyrir fiskiskip í framtíðinni.

Eina starfsemin, sem farið hefur fram á Heiðarfjalli, frá því að varnarliðið fór þaðan, er endurvarpsstöð sjónvarps, sem póst- og símamálastjórnin rekur á vegum Ríkisútvarpsins og hv. fyrirspyrjandi gat um.