23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3860 í B-deild Alþingistíðinda. (3393)

426. mál, kaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum iðnaðarins

Ein umr. Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Endurkaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum er þýðingarmikill þáttur í að stuðla að því, að höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar hafi nægilegt rekstrarfé á hverjum tíma. Ég hef hér í höndum merkilegar upplýsingar um þessi mál frá Seðlabankanum um endurkaupin. Þær upplýsingar gefa tilefni til nokkurra hugleiðinga. Ég skal ekki fara út í það, en aðeins benda á það, sem kemur fram og mér þykir athyglisvert.

Það er í sambandi við endurkaup á síðasta ári, árinu 1973. Samkv. þessum upplýsingum hafa endurkaup Seðlabankans aukist um 1 milljarð 289 millj. kr. Þetta skiptist á milli höfuðatvinnuveganna þannig, að í hlut landbúnaðarins hafa fallið 531 millj., í hlut sjávarútvegsins 500 millj., í hlut iðnaðarins 171 millj., og önnur endurkaup nema 86 millj. Þetta er það, sem skeður á síðasta ári.

En staðan í árslok 1973 er einnig athyglisverð. Þá standa þessi mál þannig, að endurkeyptir víxlar eru að upphæð 3 milljarðar 979 millj. kr. Hjá landbúnaðinum er 1 milljarður 891 millj., hjá sjávarútveginum 1 milljarður 502 millj., hjá iðnaðinum 421 millj. og hjá öðrum aðilum 164 millj. Þetta vekur mjög til umhugsunar. Það, sem ég á við, er sérstaklega, hve hlutur iðnaðarins er lítill. Ef þessar upplýsingar Seðlabankans eru nánar athugaðar, kemur í ljós, að þegar skipt er milli bankanna, ríkisbankanna, þá er staðan sú, að það hefur verið endurkeypt af rekstrarvíxlum iðnaðarins frá Landsbankanum, sem nemur 314 millj., frá Útvegsbankanum 38 millj., frá Búnaðarbankanum 41 millj., en frá banka iðnaðarins 19 millj. Allt þetta kemur mér til þess að álykta sem svo, að þess sé þörf að fá skýringar á þessum málum með sérstöku tilliti til iðnaðarins.

Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 720 að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um endurkaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum iðnaðarins. Það er spurt: „Hvernig skiptast endurkaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum iðnaðarins milli a) ríkisfyrirtækja, b) samvinnufélaga, c) einkafyrirtækja á hverju ári tímabilið 1971–1973?“