23.04.1974
Sameinað þing: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3863 í B-deild Alþingistíðinda. (3398)

426. mál, kaup Seðlabankans á rekstrarvíxlum iðnaðarins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. — Ég get því miður ekki svarað því, sem um var spurt um þær reglur, sem gilda um þessi endurkaup. Þetta eru nokkuð flóknar reglur. Ég get hins vegar sagt það, að þær eru ekki bundnar eingöngu við endurkaup vegna útfluttra iðnaðarvara. Hér er einnig um það að ræða, að aðilar geti orðið aðnjótandi þessara lána, þar sem er um greinilega samkeppni við innfluttar vörur að ræða og um meiri háttar framleiðslu.

En það, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á í þessu sambandi, er, að það verður að gæta vel að því, að hér er verið að byggja upp nýtt lánaform. Iðnaðurinn hefur hingað til fengið lán með öðrum hætti, og tölur, sem hér voru ekki alls kostar réttar í þeim efnum. Fyrirspyrjandi minnist á það, hvernig lán úr bankakerfinu eða innlánakerfinu hefðu skipst á milli nokkurra atvinnugreina okkar í árslok 1973, og sagði þá, að iðnaðurinn hefði m.a. haft sem heildarlán 4201 millj., samanborið við landbúnað 3337 millj. og sjávarútveg 5047 millj. Þetta er rétt og hefði þó mátt bæta versluninni við, sem hafði mest lán eða 6233 millj., og þó samvinnuverslunin er þar fyrir utan með rúmlega tvo milljarða. En við þessa heildarupphæð iðnaðarins má í rauninni bæta við öðrum liðum, sem eru lán til sérstakra byggingarverktaka og í sambandi við aðrar sérstakar byggingar, sem líka tilheyra í rauninni alveg iðnaðinum. Þær eru þarna fyrir utan.

Hreyfingin á árinu 1973 var ekki sú, sem hér var greint frá, heldur var hún miklu mun meiri iðnaðinum í hag, því að á þessu ári hækkuðu útlán bankakerfisins til iðnaðarins samtals um 1291 millj., eða það, sem fært er beint undir iðnaðinn, um 1120 millj., og auk þess sérstakar lánveitingar til byggingarverktaka. En sem sagt hækkanirnar eftir þessari leið voru 1291 millj., sem var mun meira en til landbúnaðarins á árinu, en aðeins minna en til sjávarútvegs og mjög svipað og til verslunar.

Það verður svo að hafa í huga, að fram til þessa hefur iðnaðurinn fengið sín rekstrarlán með öðrum hætti úr bankakerfinu. Nú er verið að byggja hér upp eftir ákvörðun Alþingis endurkaupalánakerfi hjá iðnaðinum, og það þýðir, að lánveitingar hljóta að einhverju leyti að færast til. Ég get tekið undir það með þeim, sem það hafa sagt hér, að vissulega væri æskilegt, að það væri unnið að þessu af meiri krafti en verið hefur. En það vill nú verða svona og hefur verið hjá hinum atvinnuvegunum líka, að þegar breytt er um lánaform, þá vill taka nokkurn tíma að byggja upp nýtt form. Ég efast um það, þó að þar gæti kannske tregðu hjá þeim, sem hafa með framkvæmdina að gera, að þeir eigi þar alla sök, a.m.k. veit ég um það í æðimörgum tilfellum, að það hefur hreinlega staðið upp á iðnaðinn sjálfan í landinu að gera þau skil, sem hann þarf að gera í sambandi við slíkt nýtt lánakerfi.