23.04.1974
Sameinað þing: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3880 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

322. mál, vegáætlun 1974-1977

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla hér með nokkrum orðum að fjalla um þessa till. til vegáætlunar, en vil taka undir orð síðasta ræðumanns, að þessum málum verður ekki bjargað hér með löngum ræðum frá hendi hvers manns, þó að hann hafi varið hér allmiklum tíma í það, komið víða við og jafnvel vikið langt út fyrir veginn og varla komist upp á hann aftur.

Það, sem einkenndi framsöguræðu hæstv. ráðh., var það, að hann sagði, að vandamálið væri meira en nokkru sinni áður. Það er augljóst mál, að svo er. Þó að varla hafi gefist góður tími til að fjalla um þessi mál, þar sem þau eru rétt komin á borð okkar þm., þá er augljóst, að hér er úr miklum vanda að ráða vegna peningaskorts.

Auðvitað er það rétt, að alls staðar er þörf fyrir aukna vegi, betri samgöngur á Íslandi. Það er ekkert nýtt, og það mun alltaf verða svo. Spurningin verður um það, hversu hratt við getum farið til að fullnægja þessari þörf. Hæstv. ráðh. drap hér í 7 atriðum á meginþætti þess, sem við væri að etja núna, og þarf ég varla að taka þá upp. Mikilvægast er að afla tekna til þess að geta haldið í horfinu, og þó hrekkur það ekki til. Það þarf einnig að fresta veralega framkvæmdum, svo að nemur um 900 millj. kr. á þeim grundvelli, sem hér er miðað við, á yfirstandandi ári og á næsta ári tæpum 1300 millj. kr., svo allir sjá, að hér er um stórar tölur að ræða.

Fyrir hv. Nd. liggur frv., þskj. 607, 293. mál. um fjáröflun til vegagerðar, þar sem lagt er til. að hækkuð gjöld verði sett á umferðartækin til að tryggja Vegasjóði auknar tekjur. Þetta mál er nú í n. og ekki vitað, hvernig því reiðir af. En það, sem þar er lagt til, er veruleg hækkun gjalda, og persónulega tel ég, að þar sé stefnt of hátt, þrátt fyrir það að við vitum, að verðbólgan er mikil og þarfir Vegasjóðs geysilegar. En þenslan í þjóðfélaginu er á því stigi í dag, a.m.k. miðað við óbreyttar aðstæður og óbreyttar aðgerðir í efnahagsmálum, að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að hér verður að fara hægar í sakirnar, og þó að það sé leiðinlegt að þurfa að fresta framkvæmdum að sinni, þá er það ekkert nýtt á Íslandi, að til slíkra ráða hafi verið tekið.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að við höfum ákveðið fjármagn og við getum framkvæmt ákveðna kílómetralengd fyrir þær krónur. Það mun svo falla í hlut þm. hvers kjördæmis, hvernig þeir vilja ráðstafa því fé, svo að best megi að gagni koma á viðkomandi svæði. Um það hefur verið gott samstarf við vegamálastjóra og starfsmenn hans á undanförnum árum, og er það þakkarvert, hvað hann hefur verið fús og starfslið hans til að leiðbeina okkur og vinna með okkur í því efni. Það mun alltaf verða deiluatriði og var það líka hjá hæstv. viðreisnarstjórn að fara með auknar álögur inn í Alþingi. Það veit síðasti ræðumaður mætavel, sem þá var samgrh. En það er rétt hjá honum, að við, sem studdum þá ríkisstj., töldum ekki skynsamlegt að bera fram stórauknar álögur nema geta tryggt framkvæmdagetu nokkurn veginn í samræmi við það, en því miður er það ekki fyrir hendi í dag.

Það er einn liður í þessu áformi um auknar tekjur, sem hlýtur að valda hér miklum deilum, þ.e. vegaskatturinn. Ég vil taka undir þau orð síðasta ræðumanns, að hann er það lítill þáttur í heildartekjuöfluninni, að varla sé þess virði að efna hér til margra klukkutíma deilna á milli þm., sem fara ekki eftir flokkalínum, heldur eftir annarri aðstöðu og afstöðu um slíka tekjuöflun. Ég held, að við ættum að eyða tímanum heldur í að reyna að leysa hnútinn með öðru móti en að deila lengi um þennan þátt mála.

Í frv., sem ég gat um áðan og liggur fyrir Nd., er lögð til nokkur kerfisbreyting á tekjuöflun ríkissjóðs, og er það vel. En ég víl aðeins minna á eina breytingu, sem við höfum rætt í fjvn., og það er að koma á fót nýju skráningarkerfi á bifreiðar, sem mundi örugglega spara mikið umstang og mikla skriffinnsku, en það er, að bifreiðin sé einu sinni skráð á ákveðið númer og síðan verði því ekki breytt, meðan hún er í notkun á landinu. Ef við viljum á annað borð endurskipuleggja þætti okkar í vegakerfinu og í allri umsýslu þessara mála, þá er þetta einn þáttur, sem á að hugleiða í því sambandi. Einnig man ég eftir því, að ég sá í skýrslu hæstv. ráðh. um framkvæmd vegáætlunar 1973, á bls. 77, greint frá tækjakaupum. Þar var fjárveiting 18 millj. en tæki voru keypt fyrir 40.9 millj. Ég er einn þeirra manna, sem hafa talið það skynsamlegt, að ríkissjóður ætti allgóð tæki til vegaframkvæmda og reyndi að nýta þau eins og best væri á kosið. Það kemur ekki nægilega fram, hversu mikið Vegasjóður á, en hitt veit ég, að margir hverjir hafa hagnast mjög vel á að bjóða í vegi, keypt stór tæki og orðið gildir af, og það fjármagn, sem í slík tæki fer til einstaklinga, hefði alveg eins mátt vera geymt í góðum tækjum á vegum Vegasjóðs, einmitt þegar harðnar í ári og hann þarf að nýta sitt fjármagn sem allra best. Hér þarf auðvitað að meta og vega eftir aðstæðum. Það er alveg útilokað og er ekki ætlun mín að halda því fram, að Vegasjóður geti framkvæmt allt á eigin spýtur. Það er sjálfsagt að bjóða út stór og viss verk. Engu að síður verður hann að hafa yfir að ráða lágmarkstækjakosti og það allmiklum, svo að jöfnun framkvæmda geti verið eðlileg, því að á tímum, þegar allir vilja flýta sér, verður erfiðara að ná í tæki hjá einstaklingum vegna eftirspurnar eftir þessum tækjum, og verður þá ríkið eða Vegasjóður sjálfur að greiða hærra gjald en ella undir slíkum kringumstæðum eins og ríkt hafa a.m.k. tvö s.l. ár og sjáanlegt er, að verða á þessu ári. Þetta meira að segja gildir um fleiri stofnanir en Vegasjóð. Þetta sama gildir nú um hafnargerðir. Þar eru miklir erfiðleikar að fá vissar framkvæmdir gerðar vegna geysilegrar eftirspurnar eftir vinnu og tækjum, sem eru til þess fallin, bæði skurðgröfum og jarðýtum og mörgu fleira, sem þarf að nota við svo mikla mannvirkjagerð.

Það er gömul saga, að bifreiðaeigendur — og reyndar alþm. líka, þá í stjórnarandstöðu jafnan, telja, að ríkissjóður hagnist um of á gjöldum af umferðinni. Það hefur verið vel tíundað hér af síðasta ræðumanni, og þarf ég varla að taka það fram. Hins vegar er það með réttu sagt af hendi bifreiðaeigenda, að sanngjarnt sé, þegar svo miklar álögur sem raun ber vitni um eru á umferðartækjunum, að þeim sé að mestu skilað í þágu umferðarinnar sjálfrar. Það er nauðsynlegt, að svo verði áfram. Og ég tel óeðlilegt, að svo verði ekki áfram. Ég tel óeðlilegt, að ríkissjóður geti skóflað inn til sín mörg hundruð millj. kr. í aukinni verðbólgu og verðhækkun á bensíni og auknum kostnaði við rekstur bifreiða. Það er nú einu sinni svo, að bifreiðin er okkar samgöngutæki á Íslandi í almenningsþágu, og meðan svo er, á bifreiðin að vera sjálf eins ódýr og framast er unnt, en taka þá meira með bensíngjöldum og öðrum smágjöldum og ráðstafa því í vegina.

Það er hér gerð grein fyrir því, hvers vegna ákveðinn skattur er hugsaður í veggjald, og er talað um, að það megi miða við þriðjung þessa sparnaðar, sem vegfarendur njóta, er keyra á góðum vegum, miðað við malarveg, og á þessum forsendum er lagt til. að við höfum veggjaldið. Það er alveg rétt, það sparast mikið í viðhaldi. Það sparast líka tími. Hvað þetta skal metið til tekna er matsatriði. Hitt vitum við, sem höfum notið góðra vega, að það er mikill ávinningur að hafa slíka vegi til notkunar. En fólkið, sem greiðir há gjöld úti um allt land og þarf að fara langar vegalengdir, á líka með réttu að eiga þess kost, að sá skattur, sem greiddur er af bifreiðinni, renni fyrst og fremst í vegakerfið og þess vegna sé mögulegt sem allra fyrst að mæta óskum þess um betri vegi, upphleypta og góða og nothæfa mestan hluta ársins eða allt árið.

Ég sé hér á einni síðu, að greint er frá því, sem ég vil þakka fyrir, að Vegagerðin hefur fylgst mjög vel með því, að misnotkun á þunga sé ekki framkvæmd í stórum stíl a.m.k. Hér þarf að undirstrika gildi þess að koma í veg fyrir, að stórir og of þungir vöruflutningabílar fletji út vegina á vorin, þegar klaki er að fara úr jörðu, og kosti ríkissjóð eða Vegasjóð með því móti óeðlilegar fjárupphæðir. Þessir bílar eru mjög dýrir í rekstri fyrir Vegasjóð á vissum árstímum, og það þýðir ekkert að vera hikandi við að setja vegatálmanir eða vegabann fyrir þessa bíla og fylgjast vel með því, að þungi þeirra sé ekki í ósamræmi við settar reglur hverju sinni. Ég tel það vel og rétt, að Vegamálaskrifstofan fylgist mjög ákveðið með þessu, vegna þess að ella færu margir þessir vegir, sem þessir stóru bílar nota út um landið, mjög illa, einkum á vorin.

Því miður er staða Vegasjóðs þannig, að það er hægt að segja, að málið sé í alvarlegri sjálfheldu. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að vandlega yfirlögðu ráði, hvað við ætlum að leggja á almenning í þessu skyni, svo að við getum stefnt að þeim hraða í framkvæmdum, sem var gert ráð fyrir í þeirri vegáætlun, sem við erum nú að fjalla um hér til endurskoðunar. Ég tel óhjákvæmilegt að fresta framkvæmdum, eins og atvik liggja til í dag. Það er blekking að ímynda sér, að eitthvað slíkt geti skeð núna á næstu vikum, sem réttlæti það, að við getum haldið vegáætlun nokkurn veginn óbreyttri, eins og við gerðum ráð fyrir á sínum tíma, þegar við samþykktum vegáætlunina hér áður. Svo gerbreyttar aðstæður ríkja í öllum kostnaðarliðum og í eftirspurn eftir þjónustu í þjóðfélaginu, að það er alveg óraunhæft að reikna með slíku. Valið verður þá um það, hversu mjög á að skattleggja til þess að fullnægja þessari áætlun, og tel ég, að heldur eigi að fara varlega að sinni, en þó geti verið rétt, eins og gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, að hafa heimild til handa ráðh. að hækka álögur í hlutfalli við annan kostnað í þjóðfélaginu, og er lagt til í frv., að miðað sé við byggingavísitölu. Hvort það er rétta viðmiðunin eða eitthvað annað, skal ég láta ósagt, en sennilega er byggingavísitalan þannig útreiknuð, að nota megi við framkvæmd vegamála einnig og álögur handa Vegasjóði í því sambandi.

Það er ótrúlegt, að okkur skuli vera sýnt það, að fjármagnsþörf Vegasjóðs hafi hækkað um nær 100% á tveggja ára tímabili, það er alveg ótrúlegt, og hrekkur þó hvergi nærri til. Þegar gerð er grein fyrir hækkuninni í skýrslunni, kemur í ljós, að hún er svo geigvænleg, að útilokað er að ætla að fylgja eftir áætlun óbreyttri og hækka álögur á almenning og láta hana standa þannig eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Ég tel það alveg útilokað, gersamlega útilokað. Ef við viljum stefna svo hátt með álögur, verðum við að gera þá kröfu, að ríkissjóður skili þessum álögum að fullu. Það er útilokað annað en að ríkissjóður geri sér þá grein fyrir því, að hann verði að afhenda þessar álögur frá sér yfir í Vegasjóð. Að vísu er gert ráð fyrir núna, að um 100 millj. kr. meira komi úr ríkissjóði í þessa áætlun en verið hafði, en það hrekkur hvergi nærri til. Vitað er, að 300 millj. kr. komu inn óvænt á s.l. ári. Hvað kemur inn á þessu ári vegna aukins söluskatts og hækkunar á bensíni, veit ég ekki enn þá og liggur ekki fyrir, en þetta fé á auðvitað að renna til Vegasjóðs og koma í framkvæmdirnar. Það er ekki réttlætanlegt, að ríkissjóður hagnist á verðbólgu með þessum hætti, og það er rétt hjá síðasta ræðumanni, að í því mikla góðæri, sem ríkt hefur til lands og sjávar, væri það napurt að þurfa að draga úr framkvæmdum. En það eru önnur atvik, sem hafa stuðlað að því, að við verðum neyddir til þess að fara okkur hægar að sinni.

Vonbrigði manna verða auðvitað mikil úti um landið að verða að viðurkenna þá staðreynd, að ekki er hægt að framfylgja þeirri áætlun, sem allir voru sammála um, að lögð skyldi til grundvallar á fjögurra ára tímabili frá 1972. En ég held, að menn átti sig á því, að það er svo breytt forsenda í dag, að ekki er skynsamlegt að leggja slíkar álögur á tækjaeigendur, að hægt sé að framfylgja fyrri samþykkt í þessu efni, og til þess er vegáætlunin einmitt í endurskoðun, að við gerum okkur grein fyrir því að vel yfirveguðu máli, hvað við ætlumst til að við getum staðið í miklum framkvæmdum næstu tvö árin.

Sumir kunna að segja, að þeir, sem notið hafa þeirra forréttinda undanfarin 3–4 ár að eignast góða vegi, séu ekki miklar kempur við að teygja þetta vegakerfi lengra um landið. En það er ekki svo. Við viljum auðvitað allir, að sem flestir njóti góðra vega sem fyrst. Dæmið snýst ekki um það. Dæmið snýst einfaldlega um það, hversu háa skattabyrði við megum leggja á tækjaeigendur, á umferðina og tryggja einnig framkvæmdir fyrir það fé, sem við náum inn. Það er blóðugt að sjá það, að framkvæmdageta skuli rýrna á einu ári um 30–40% og þess vegna séu málin komin í hálfgerða sjálfheldu, eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi og rækilega var undirstrikað af 1. þm. Sunnl.

Ef ríkissjóður fær rúmlega 2 milljarða af umferðinni, er það engin lausn, eins og 1. þm. Sunnl. talaði um, að ríkissjóður láti af hendi 800 millj. kr. Það er engin rausn í því eða reisu yfir slíkri skilamennsku. Það er fullsanngjörn krafa frá hendi þeirra, er inna þennan skatt af höndum, að þessi upphæð sé helmingi hærri a.m.k. og með því móti sé dregið úr nauðsyn þess að fresta framkvæmdum og einnig nauðsyn þess, að álögur séu hækkaðar. Ef við reiknum með, að vísitala muni hækka verulega á komandi mánuðum og ef ekkert sérstakt verður að gert 1. júní, held ég, að ég fari rétt með það, að hún muni hækka um 14 eða 15 stig, og sjá þá allir, hversu fjármagnsþörfin verður gífurleg, ef svo heldur áfram út árið og enn komi til hækkun 1. september. Ég held, að allar bollaleggingatölur á þessu stigi verði þá óraunhæfar og það sé meira og minna út í loftið að vera að karpa hér lengi um, hvað sé hægt að gera. Við verðum að hafa það sem ákveðna forsendu, að verðbólgan sé stöðvuð eða a.m.k. sett í fyrsta gír, en geysist ekki áfram, eins og verið hefur, og við getum með sanni haft hemil á henni og stjórn efnahagsmála í landinu. Auðvitað eru ákveðnir vegir hér, sem við verðum að standa að fyllilega, þar hafa framkvæmdir verið boðnar út, og verður að standa við slíkt. Svo koma önnur áform, sem hægt er að draga úr og meta og vega, og eins og ég sagði áðan, hefur vegamálastjóri og skrifstofa hans jafnan gert það í samvinnu við þm. og leyst það með skilningi, annað væri óeðlilegt. Þetta er viðkvæmt mál. og ég tel heppilegast, að þm. viðkomandi kjördæmis fjalli um það, eins og reynslan sýnir að hafi verið gert.

Hallann, sem hefur nú myndast á vegáætlun og er um 267 millj., á að jafna út í þremur áföngum, og með þeirri fjármagnsþörf, sem fram undan er til þess, þrátt fyrir mikla frestun, þá vantar enn um 900 millj. á fyrra árinu og nærri 1300 millj. á því síðara. Við verðum því að gera okkur grein fyrir því, að um tvo kosti er að ræða: að ríkissjóður afhendi mun meira frá sér af innheimtum tekjum eða að standa að verulega auknum álögum og láta þá hlut ríkissjóðs vera óbreyttan, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Nú er endurskoðun stöðu ríkissjóðs það mikið í sviðsljósinu, að rétt er að hafa þessa þörf Vegasjóðs einnig í þeirri endurskoðun. Ef ríkissjóður dregur saman seglin, sem nemur mikið á 2. milljarð, eins og virðist vera vilji hér á hv. Alþingi, að hann geri, þá tel ég vel mögulegt, að ríkissjóður geti einnig látið af hendi eitthvað til Vegasjóðs, a.m.k. renni þær óvæntu tekjur sem hafa komið inn af hækkun á bensíni og söluskatti, óskiptar í umferðina. Við getum þá ráðstafað þeim og þar með minnkað frestun á framkvæmdum eða við drögum úr áætluðum gjaldstofnum. Þetta munum við geta athugað nánar í fjvn., þegar við fáum málið til okkar. Þó binst þetta saman við afgreiðslu á frv. um fjáröflun til vegagerðar, og meðan það er ekki afgr. úr hv. Nd., er dálítið erfitt að taka afstöðu til samgönguáætlunarinnar sem slíkrar. Ef frv. fellur, er staða mjög breytt frá því, sem vegáætlunin gerir ráð fyrir, og raunveruleg forsenda brostin fyrir uppbyggingu hennar, ef ég hef skilið málið rétt.

Ég veit ekki, á hvaða stigi nefnt frv. er í athugun í Nd., en sjálfsagt munum við í fjvn. geta fengið um það upplýsingar og einnig um afstöðu þm. í n. til þess. Endanleg afstaða mun ekki koma fram fyrr en við afgreiðslu í d. Mér skilst, að þetta frv. hafi sætt allmikilli gagnrýni og jafnvel sé hætta á því, að það falli eða nái ekki fram að ganga. Hafandi þessa staðreynd í huga verðum við að meta og vega það, hvað við leggjum til í fjvn. í sambandi við tekjuöflun í sjálfri þáltill., en ég tel. að númer eitt verði, að ríkissjóður skili sem mestu af óvæntum tekjum, sem honum hafa áskotnast vegna hækkunar á bensíni á s.l. ári og á yfirstandandi ári, og þá einnig, að frestun framkvæmda verði endurmetin, og ef til vill þarf hún að vera meiri, þrátt fyrir að hér sé gengið út frá, að hún sé veruleg, ef ekki verður samstaða um að leggja auknar álögur á umferðina og að bensingjald hækki verulega.

Hæstv. ráðh. talaði um, að enginn þyrfti að hrökkva við, þótt hækkun á bensíni kæmi til. Einhvers staðar liggja takmörkin í allri hækkun Einhvern tíma kemur að því, að fólk segir: hingað og ekki lengra. Og þrátt fyrir það, að bíllinn sé slíkt nauðsynjatæki eins og ég drap á hér áðan, þá hlýtur að koma að því, að menn segi, að mælirinn sé fullur í auknum álögum á þetta samgöngutæki, nema þeirri forsendu sé fylgt, að meginþungi þeirra skattbyrða, sem á þessum tækjum hvílir, renni til vegaframkvæmda. Þá mundu sennilega flestir sætta sig við auknar álögur þegjandi og hljóðalaust.

Þessi þáltill. um vegáætlun er borin fram við mjög sérstæð og erfið skilyrði, eins og hæstv. ráðh. drap á, og hún mun þurfa gaumgæfilega athugun. Ég hef hér í nokkrum orðum gert grein fyrir afstöðu minni og að ég tel í heild þingflokks Alþfl. Við teljum, að hvort tveggja verði að meta gaumgæfilega vegna ríkjandi aðstæðna í þjóðfélaginu,að leggja varlega á aukna tekjuskatta eða bensínskatta fyrir Vegasjóð, og einnig sé óhjákvæmilegt að horfast í augu við þá staðreynd, að frestun framkvæmda verður að vera veruleg, enda gengur till. út frá því, að svo sé. Þess vegna verðum við að meta og vega það fyrst og fremst, hversu miklar álögur við viljum leggja á umferðina, svo að þessi till. nái fram að ganga.