06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

62. mál, nám í sjúkra- og iðjuþjálfun

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti Ég þakka svör hæstv. menntmrh., en því miður virðist þetta mál vera mjög örðugt viðfangs. Eftir því sem ég best veit, hefur formaður n. hætt störfum og enginn verið skipaður í hans stað, og allt virðist standa fast. Ástandið er þó þannig, að þetta er margra ára gamalt mál, sem þolir varla miklu lengri bið. Hér vantar um 50–60 sjúkraþjálfara. Fjölgun á undanförnum árum er einn á ári, og þá sjáum við, hvílíkan tíma það mundi taka að fullnægja þörfinni. Hér bíða að jafnaði sjúklingar mánuðum saman eftir því að komast í sjúkraþjálfun, og þeir skipta ekki tugum, heldur jafnvel hundruðum, sem þyrftu á sjúkraþjálfun að halda, en geta ekki fengið hana vegna skorts á þessu starfsfólki. Við eigum í raun og veru nóg húsnæði og nóg tæki, og það er ekkert annað, sem vantar til að geta fullnægt þessari þörf, heldur en þessa starfskrafta. Það hefur reyndar verið nokkuð deilt um það, hvort við höfum gert rangt í því að setja þetta nám á háskólastig. Ýmsir telja, að málið hefði gengið fyrr fyrir sig, ef við hefðum tekið það ráð, sem margar aðrar þjóðir hafa gert, að hafa þetta innan sjúkrahúsanna og undir þeirra stjórn. Hins vegar er því ekki að leyna, að Norðurlöndin, Bandaríkin og Kanada ýmist hafa eða eru að setja þetta nám á háskólastig, og þess vegna þótti rétt að fara þessa leið. Enda er það svo, að undirstöðufög þessa náms eru fög, sem kennd eru í læknadeildinni. Kennarar eru því þar fyrir hendi, og tæki eru þar fyrir hendi, og hlýtur að vera að mestu skipulagsatriði að koma þessu á laggirnar.