06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

362. mál, bygging læknisbústaðar á Hólmavík

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Sumum hv. þm. kann að þykja undarlegt, að spurt skuli vera um það, hvað líði byggingu læknisbústaðar á Hólmavík, a. m. k. þeim hv. þm., sem minnast þess, að Alþ. hefur nú samþ. þrisvar sinnum fjárveitingu til þessa læknisbústaðar, og e. t. v. eru einhverjir, sem þykir þetta mál ekki það stórt, að þurfi að hreyfa því hér. Strandamenn eru hins vegar ekki sömu skoðunar. Þetta kemur m. a. fram í athugun, sem mþn. í byggðamálum hefur nýlega látið gera á byggðaröskun á Hólmavík og nágrenni. Þar var önnur eða þriðja hver fjölskylda spurð að því, hvað hún teldi alvarlegast í byggðamálum þar. 80% svöruðu, að læknismálin væru hin alvarlegustu, en þarna hefur annað slagið verið læknislaust upp á siðkastið, og er svo nú. Flogið er með lækni þangað norður annað slagið, en betur hefur ekki verið unnt að gera.

Á sama tíma og svo hefur verið ástatt, hefur ekki tekist að hrinda í framkvæmd byggingu læknisbústaðar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, fyrst á sumrinu 1971, síðan 1972 og 1973, og enn situr við hið sama. Ekki hefur verið tekin ein einasta skóflustunga að þessum læknisbústað. Það er því satt að segja alls ekki að ástæðulausu, að þessu máli er hreyft hér, og ég breyti því ekki síst í þeirri von, að fjórða sumarið þurfi ekki að líða, án þess að þessi bústaður risi. Spurningin er í þremur liðum:

„Hvað hefur tafið byggingu læknabústaðar á Hólmavík ?

Hvenær má gera ráð fyrir því, að bygging hefjist og henni ljúki?

Hver verður hlutur ríkissjóðs í kostnaði við byggingu þessa læknisbústaðar?“

Síðasta spurningin á að sjálfsögðu rætur sinar að rekja til þeirrar staðreyndar, að ný heilbrigðislöggjöf mun koma til framkvæmda um næstu áramót, þar sem hlutur ríkissjóðs er aukinn, og má segja, að verið sé að grennslast eftir því, hvort þarna sannist hið fornkveðna, að „fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott“.