24.04.1974
Efri deild: 106. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3895 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

320. mál, opinberar fjársafnanir

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Frv. það til l. um opinberar fjársafnanir, sem ég hef leyft mér að flytja hér, hef ég haft lengi í huga, að þörf væri á að flytja á einhvern hátt inn í Alþ. Aðalástæðan er persónuleg. Persónuleg reynsla mín af hvoru tveggja: aðila, sem að söfnun stendur, og aðila, sem leggur fram sitt frjálsa tillag. Ég hef æ ofan í æ staðið fyrir á mínum heimastað söfnunum af ýmsu tagi fyrir ýmsa aðila. Ég hef oft staðið með tugi þúsunda í höndum, skilað þeim af mér með skilagrein, svo sem mér var framast kostur, en án alls eftirlits og umsjónar í allt of mörgum tilfellum. Mér hefur ekki aðeins þótt þetta óviðkunnanlegt, heldur blátt áfram óviðunandi með öllu, og í dag mundi ég ekki taka neina slíka söfnun að mér, án þess að ég gæti í lokin sýnt allt á hreinu og sannað með einhverjum hætti, að ég skilaði hverri krónu á réttan stað, sem ég tók víð. Sömuleiðis hef ég oftlega, eins og við öll, lagt fram peninga í ýmsu skyni, nær alltaf í góðum tilgangi, en í raun oft lítið vitað um hvort tveggja, niðurstöðu söfnunar, skilagrein og ráðstöfun, nema almennt yfirlit í fréttatilkynningu og stundum ekki einu sinni það.

Nú skal ég taka það skýrt fram, að ég er mjög jákvæður gagnvart mörgum slíkum fjársöfnunum og met mikils það oft mikla sjálfboðaliðsstarf, sem að baki liggur, og þann góða hug, sem því fylgir, að ekki sé nú rætt um þann ágæta tilgang, sem söfnunin ber oft með sér.

Hins vegar held ég, að hér vanti ákvæði í lögum, sem ég tel jafnnauðsynleg safnendum sem gefendum. Ég vil því taka skýrt fram að gefnu tilefni utan þings, að frv. er ekki sett fram til höfuðs heilbrigðum og eðlilegum fjársöfnunum, miklu fremur undirstrikun á tilvist þeirra og réttmæti. Ég vil aðeins með þessu máli hafa skýr lagaákvæði, svipuð og eru í lögum víða erlendis. Ég hef fengið til liðs við mig ágætan lögfræðing, Arnmund Bachman, sem hefur kynnt sér lög erlendis þessi mál varðandi og sniðið frv. þetta eftir dönskum l., sem mér er tjáð, að hafi reynst þar vel og safnendur þar séu mjög ánægðir með og þyki sinn hlutur með slíkum lögum betur tryggður í hvívetna, einkum gagnvart óeðlilegri tortryggni og gagnrýni á safnanir og skil þeirra til málefnanna, sem að er unnið.

Við lagasetningu sem þessa, sem hér er lögð til, hljóta að vakna ýmsar spurningar um aðferðir og takmarkanir og því, hvernig markmiðinu megi ná. Þá er rétt að taka það hér fram af minni hálfu, að þetta frv. er enginn algildur mælikvarði á það rétta, nánast till. eða rammi, sem sjálfsagt er að athuga nákvæmlega og sjálfsagt og velkomið frá minni hálfu að færa á ýmsan annan og skynsamlegri veg, ef mönnum svo sýnist.

Ég skal nú stuttlega rekja efni greinanna og skýra tilgang hverrar um sig:

Í 1. gr. er fjársöfnun heimiluð, en jafnframt tekið fram, að minnst 3 menn beri þar á fulla ábyrgð, enda hlýtur það að teljast sjálfsagt.

Í 2. gr. eru skýr ákvæði um það, að lög þessi taki ekki til safnana innan ákveðinna félaga eða samtaka, enda greiður aðgangur allra þeirra, sem innan vébanda félaganna eru, að öllum upplýsingum um söfnunina og sjálfsagt, að hver einstakur félagsskapur hafi fullt frelsi til þess að gangast fyrir hvers konar söfnunum innan síns félags.

Í 3. gr. er kveðið á um tilkynningarskyldu aðila til lögreglustjóra, en þar sem hann er ekki til staðar til viðkomandi yfirvalds á staðnum, og fylgir nánari skilgreining á þeim sjálfsögðu atriðum, sem tilkynningin á að bera með sér. Held ég, að öll þau atriði og meðferð þeirra hljóti í hvívetna að teljast eðlileg frá þeirra hálfu, er fyrir slíkum söfnunum standa, en atriðin, sem í tilkynningunni skulu standa eru: hver standi fyrir fjársöfnuninni, hvenær fjársöfnun skuli fara fram, hvar fjársöfnunin skuli fara fram, hvernig fjársöfnunin skuli fara fram og í hvaða tilgangi fjársöfnunin fer fram.

4. gr. fjallar um leyfi dómsmrn, til opinberra fjársafnana á götum eða í húsum, og einnig er tekið fyrir alla fjársöfnun með keðjubréfum. Mætti raunar taka það til athugunar, hvort keðjubréf ætti ekki að banna með öllu, svo ógeðfelld plága sem þau eru. En það heyrir ekki beint undir þessi lög, ef sett yrðu. Hins vegar mundi það án efa gleðja hjörtu margra, ef slíkt bann væri sett á.

Í 5. gr. eru ákvæði um sérstakan reikning, sem stofnaður er í hverju sérstöku tilefni, og um leið ákvarðað, að óheimilt sé að nota féð í öðrum tilgangi en dómsmrn, hefur veitt leyfi til. Þetta tel ég raunar sjálfsagt, Í hverju félagi eða samtökum er nauðsyn að blanda á engan hátt fé, sem fæst við fjársöfnun í ákveðnum tilgangi, saman við aðra fjármuni félagsins, og besta trygging þessa er að leggja þetta fé inn á sérstakan banka- eða gíróreikning. Engir erfiðleikar ættu að vera á þessu fyrirkomulagi.

6. gr. fjallar um reikningshald yfir söfnunarfé og öll útgjöld við fjársöfnun ásamt ákvæðum um endurskoðun þess. Þetta ákvæði kann að þykja strangt, en þess ber að gæta, að hér geta verið um hundruð þúsunda kr. eða jafnvel millj. að ræða. Mér dettur t.d. í hug rauða fjöðrin hér á árunum, sem skilaði gífurlegu fé, sem ég efa ekki, að hafi á allan hátt skilað sér og sannarlega var varið til góðs málefnis. Hins vegar tel ég, að reikningshald og yfirlit þess eðlis eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. hefði verið sjálfsagt gagnvart svo mikilli fjársöfnun og aðeins verið aðstandendum til halds og trausts í hvívetna. Ég nefni þetta dæmi af fullkomnu handahófi, en einnig af því, að ég heyrði svo sannarlega leiðinlega tortryggnisrödd gagnvart þessari söfnun og skilum hennar, — tortryggnisrödd, sem ég er sannfærður um, að var óverðskulduð með öllu, en hefði verið kveðin rækilega niður með því fyrirkomulagi, sem hér er lagt til.

Að þessu sjálfsagða öryggi og upplýsingum, jafnt fyrir safnendur sem gefendur, lýtur 7. gr. um birtingu reikningsyfirlits á einhvern þann hátt, sem þar er til greint. Þó eru vægari ákvæði um þessa birtingarskyldu sé söfnunarfé innan við 100 þús. kr., enda verður það að teljast eðlilegt, þegar um svo smáar upphæðir er að ræða. Einnig er minnt á tilkynningu um hið sama til viðkomandi yfirvalds, sem leyfið hefur gefið.

Undantekningar eru svo nánar skilgreindar í 8. gr. Ég hygg, að þessar 3 undantekningar teljist allar svo sjálfsagðar, að þær þarfnist varla skýringa. Allt er þetta a.m.k. í samræmi við dönsku löggjöfina, sem frv. þetta er samið eftir. 1. liðurinn er reyndar þess eðlis, að um hann þyrfti e.t.v. ekki að setja neinar reglur eða ákvæði. 2. liðurinn kveður á um skyldu dagblaðs til að birta viðurkenningu þess, sem fær fé það í hendur, er safnast hefur, og birt sé skrá allra gefenda, svo að öll nánari fyrirmæli ættu að vera óþörf. Hvað 3. liðinn snertir, þá verður að ætla þjónum drottins hér á jörð trygga varðveislu og skil veraldlegra fjármuna, ekki síður en þeirra andlegu verðmæta, sem þeim eru fólgin til varðveislu og útlistunar.

Í 9, gr. er fram tekið; að dómsmrn. geti sett nánari reglur um framkvæmd l., og 10. gr. fjallar um sektarákvæði, sem hljóta að teljast jafneðlileg hér sem annars staðar.

Frekari skýringar á frv. þessu tel ég óþarfar. Hitt ætti að vera fullljóst öllum af mínum orðum hér að framan, að ástæður flutningsins eru þær tvær helstar: að fá hér einhverja löggjöf sem líkasta því, er gildir í okkar nágrannalöndum, og tryggja, að fjársafnanir lúti eðlilegu og heilbrigðu eftirliti, en séu jafnframt í raun lögverndaðar.

Ég sagði áðan, að frv. mætti eflaust á ýmsan veg breyta, draga úr eða auka við hin ýmsu ákvæði þess. En að lokum vil ég enn taka skýrt fram, að þó að ég persónulega sé ekki hrifinn af öllum þeim söfnunum; sem yfir fólk dynja, og áliti, að samfélagið, ríkisvaldið eigi sem best að tryggja það, að þær séu óþarfar, einkanlega þær, sem bestar eru og hafa göfugastan tilgang, þá hygg ég, að fólk yfirleitt telji þær sjálfsagðar og oft fljótvirkustu leiðina til að ná ákveðnu settu markmiði og því eigi að gera hvort tveggja, lögvernda þær, en tryggja jafnframt eins og best verður á kosið örugga framkvæmd og örugg skil.

Ég tel því frv. vera jákvætt fyrir slíka starfsemi. Það er flutt í þá veru, og ég hygg, að mörgum safnendum muni reynast lög af þessu tagi góð stoð síðar meir, ef frv. þetta nær fram að ganga.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að óska, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og allshn.