24.04.1974
Efri deild: 106. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3897 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

325. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt og er hér til umr., gæti reyndar alveg eins heitið frv. til l. um húf- og ábyrgðartryggingu gegn skemmdum af völdum brennivíns. Það, sem hér er um að ræða, er það, að hver sá, sem sterkt vín kaupir, greiðir nokkuð gjald í sjóð, sem ætlað er að koma til hjálpar þeim, er verða fyrir áföllum vegna brennivínsdrykkju. Þannig kaupir sá, er gjaldið greiðir, ekki einungis kaskótryggingu fyrir skemmdir á sjálfum sér, heldur einnig ábyrgðartryggingu fyrir þá, sem hann kynni að skemma með því að veita þeim vín af innkaupunum.

Nú má til sanns vegar færa, að það sé vafasamt að vera að leggja til hækkun á vöruverði á þessum síðustu verðhækkunartímum. En því er til að svara, að allir geta verið án þessarar vöru, og athyglisverðast er, að því fleiri sem guggna á því að kaupa, því betra, bæði fyrir þá sjálfa, fyrir aðstandendur þeirra, fyrir atvinnurekendur þeirra og fyrir þjóðfélagið í heild. Ef þeir hins vegar, þrátt fyrir hið háa verð, ganga samt til kaupanna, þá eru þeir um leið að skapa möguleika til árangursríkari aðgerða gegn þeim vanda, sem áfengisneysla skapar. Annars er það vafasamt að tala um hátt verð á sterku víni. Sannleikurinn er sá, að 1937, þegar tímakaupið var kr. 1.45 og brennivínið kostaði kr. 8.50, tók það ekki færri klukkutíma að vinna fyrir brennivínsflöskunni en það mun gera eftir þessa hækkun, ef úr verður.

Varla þarf að lýsa þeim geigvænlega vanda, sem brennivínsdrykkja veldur hér á landi. Um það hafa verið haldnar margar slyngar ræður hér á hinu háa Alþingi. Það ískyggilegasta er þó, að brennivínsdrykkja virðist stöðugt fara vaxandi. Mun þar um vafalaust valda nokkru hin stóraukna velgegni síðustu áratuga og þá ekki síst aukin fjárráð unglinga. Nýlegar athuganir virðast leiða í ljós, að ógift fólk drekkur um 50% meira en hjón og að fráskildir drekka um 100% meira. Þetta á við um aldursflokkinn 20–49 ára. Þannig virðast félags- og fjölskylduástæður ráða allmiklu um drykkjusiði. Háskólamenntaðir nota minna magn af áfengi á áðurnefndu aldursskeiði en þeir, sem aðeins hafa lokið skyldunámi, en þó er það svo, að meðal langskólagenginna virðast vera aðeins fleiri drykkjusjúklingar en meðal þeirra, sem stutta skólagöngu hafa. Þetta bendir til þess, að drykkjusiðir þeirra langskólagegnu séu á annan veg, þannig að þeir drekki oftar, en minna magn í einu. Talið er, að á aldursskeiðinu 24–49 ára hafi 9% karla einkenni um drykkjusýki og 3.1% kvenna. Það, sem kemur þó e.t.v. mest á óvart, er það, að í aldursflokknum 20–49 ára eru 13% bindindisfólk, 8% af karlmönnum og 17% af konum. Talið er, að gáfur megi sín lítils í þessu efni. Fólk virðist drekka nokkuð jafnt í heimahúsum og á vinnustöðum, en minna en 1/2% drekkur áfengi á vinnustað. Við könnun kemur í ljós, að miklar fjarvistir eru frá vinnu vegna áfengisneyslu.

Í raun og veru höfum við aldrei drukkið mikið heildarmagn af áfengi miðað við nágrannaþjóðir okkar. Þar stöndum við eins og í fleiru vafalaust í þakkarskuld við okkar konur. Þær hafa fram undir það síðasta drukkið mjög lítið, enda lifa þær að meðaltali 5–6 árum lengur en við karlarnir. Nú er því miður að verða á þessu veruleg breyting til hins verra. Drykkja kvenna fer nú vaxandi árlega. Annars er fróðlegt að kynna sér drykkju Íslendinga. Um hana liggja fyrir skýrslur allt frá 1881, þá drukku Íslendingar 2.38 lítra af 100% áfengi á ári. Þetta fór svo minnkandi. Á árunum 1911–1940 fór drykkjan aldrei fram úr 0.9 lítrum á mann á ári. Á árunum 1960–1964 var magnið frá 1.71 lítra og upp í 1.97 á ári, allt miðað við 100% áfengi, 1965 fór það yfir 2 lítra, í 2.07 lítra, og upp í 2.38 lítra 1967. Á erfiðleikaárunum 1967 og 1968 minnkar drykkjuskapur aftur niður í 2.11 lítra og 2.17. Það þýðir, að á erfiðleikaárunum 1968 og 1969 minnkar áfengisneysla um á milli 10 og 20%, en árið 1971, þegar farið er að rétta við, þá er hún um 20–30% meiri en 1968. 1973 er svo metár í drykkjunni, þá drukkum við 2.54 lítra af sterku víni og 0.34 lítra af léttum vinum, samtals 2.80 lítra. Alls drukkum við því á þessu herrans ári 1973 1 287 763 lítra af sterku víni og greiddum fyrir áfengi 2 056 791 720 kr. Neysluaukning á síðasta ári varð 2.5%.

Hildigunnur Ólafsdóttir cand. polyt gerði könnun áfengisneyslu unglinga í Reykjavík árið 1972. Sú könnun leiðir margt athyglisvert í ljós. Hún var mjög vel og nákvæmlega framkvæmd, langur og mikill spurningalisti lagður fram og síðan talað við fólkið. Af 13–17 ára unglingum höfðu 63.1% neytt áfengis. Fleiri stúlkur en piltar, eða 64.5% af stúlkum, en 61.5% af piltum. Þeim mun eldri sem unglingarnir voru, þeim mun meiri líkur voru fyrir því, að þeir hefðu neytt áfengis. Rúmlega þriðjungur 13 ára unglinga hefur neytt áfengis. Við 14 ára aldur hafa um það bil 40% pilta og rúmlega 50% stúlkna neytt áfengis og við 15 ára aldur 67% pilta og og 75% stúlkna. Aftur á móti við 17 ára aldurinn taka. piltarnir forustuna, þá hafa 93.9% pilta neytt áfengis, en aðeins 72.2% 17 ára stúlkna. Það er athyglisvert, að fleiri 15 og 16 ára stúlkur hafa neytt áfengis en 17 ára stúlkur. Kann það að byggjast á því, að það sé algengara nú en var fyrir 2–3 árum, að stúlkur drekki. Könnun, sem gerð var 1970, sýndi, að 38.5% 15 ára pilta og 24.2% 15 ára stúlkna höfðu neytt áfengis. Hildigunnur segir, að það sé sérstök ástæða til þess að vekja athygli á því, að það er algengara 1972 en 1970, að stúlkur neyti áfengis.

Sú tilgáta er talin sennileg, þótt hún verði ekki sönnuð, að verulegar breytingar hafi orðið á undanförnum áratugum á áfengisneyslu og áfengisvenjum kvenna. Líta verður svo á, að viss áfengisneysla fylgi ekki lengur hlutverki karla eingöngu, heldur sé hluti af hlutverki konunnar. Staða konunnar í þjóðfélaginu og kvenhlutverkíð hefur breyst, og er breyting á áfengisvenjum aðeins hluti af þeirri breytingu. Ef þetta er haft í huga, verður að teljast sennilegt, að stúlkur byrji fyrr að neyta áfengis, því að þær þroskast fyrr en piltar.

Margt fleira athyglisvert kemur í ljós og kemur fram í rannsókn Hildigunnar, svo sem um tíðni drykkju, um magn drykkju, um áfengisdauða unglinga, um drykkjusvæði og kyn, um vitneskju foreldra, um útvegun áfengis, um borgunaraðila, um útvegun jafnaldra og um viðhorfin til áfengisneyslu. Varðandi viðhorfin virðist svo, að meirihluti þeirra unglinga, sem drekka, séu í raun og veru andvígir áfengisneyslu, þó síður stúlkur en piltar.

Segja má, að verulegur hluti drekki áfengi til að fylgjast með félögum sínum og til þess, eins og talið er, að verða sér ekki til skammar, vera ekki öðruvísi en aðrir.

Þessar kannanir, sem farið hafa fram upp á síðkastið, benda eindregið til þess, að vasandi hluti okkar fólks á starfsaldri og yfir hafi nokkuð greinileg merki um drykkjusýki. Eins og kom fram áðan, er það samkv. nýrri könnun, að á aldursskeiðinu 20–49 ára eru það 9% af körlum og um 3.1% af konum og fyllilega má búast við því, að %-talan, einkum hjá konum, eigi eftir að hækka á næstu árum, Í tilefni þess, hve hér er um alvarlegt heilbrigðis- og félagslegt vandamál að ræða, hef ég borið fram frv., sem hér um ræðir, og 1. gr. þess hljóðar svo:

„Af hverri þriggja pela flösku af sterku víni, sem Áfengisverslun ríkisins selur, skal í næstu 10 ár greiða gjald að upphæð 100 kr. og hlutfallslega af öðrum flöskustærðum. Gjald þetta skal renna í sérstakan sjóð til varnar gegn drykkjusýki. Sjóðurinn skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins.“

Eins og ég hef áður getið um, er hér aðeins tekið gjald af þeim, sem kaupa vín, og er það gert til þess að bæta úr því slæma ástandi, sem nú er í aðbúð og lækningaaðstöðu gegn drykkjusýki og enn fremur slæmum fjárhagsaðstæðum þeirra, sem vinna að áfengisvörnum. Öllum hefur verið á undanförnum árum ljóst, að hér þyrfti um að bæta, en það er nú svo, að tiltæk ráð hafa ekki komið enn. Þetta er hvarvetna um heiminn mikið vandamál. Drykkjusýkin er erfið lækningar, og yfirleitt er baráttan erfið, torsótt og þarf mikið þolgæði til þess að vinna að málum drykkjusjúkra.

2. gr. frv. fjallar um, hvað skuli gert við sjóðinn.

„Fé því, sem rennur í sjóð til varnar gegn drykkjusýki samkv. 1. gr., skal varið til lána og styrkveitinga til félagasamtaka og einstaklinga, er vinna að því að hamla gegn skaðlegum áhrifum áfengis. Veita má lán og styrki til þess að koma á fót og reka afvötnunar- og ráðleggingarstöðvar fyrir drykkjusjúka, svo og vinnu- og endurhæfingarstöðvar. Þá er og heimilt að verja allt að 10% árstekjum sjóðsins til styrktar þeim, er reka áróður gegn áfengisneyslu. Lán og styrkir úr sjóðnum til stofnana mega nema allt að 75% af stofnkostnaði.“

Á undanförnum árum hefur hið opinbera gengist fyrir stofnun drykkjuhæla. Verið er nú að reisa hæli fyrir drykkjusjúka. En það vantar bæði framan við og aftan við, það vantar eins konar slysavarðstofu, þar sem hægt er að taka inn fulla einstaklinga, láta renna af þeim, rannsaka þá og veita þeim ráðleggingar, láta þá gangast undir athugun hjá félags- og sálfræðiráðgjöfum og á þann hátt reyna að hafa áhrif bæði á einstaklingana og heimili þeirra. Þetta er talið mjög nauðsynlegt, og er í raun og veru ósköp einkennilegt, að við skulum ekki þegar hafa þessa aðstöðu fyrir hendi. En það er ekki sýnileg lausn á þessu vandamáli í náinni framtíð, og þess vegna lít ég svo á, að stofnun slíks sjóðs sem þessa gæti kippt þessu máli í lag á tiltölulega stuttum tíma.

Enn fremur er það mikið vandamál, hvað við tekur, þegar drykkjusjúkir koma af hælum. Þá er vitað, að það eru oft vandkvæði fyrir þá að fá starf við sitt hæfi. Það eru vandkvæði að vita, til hvers þeir eru hæfir eftir þau áföll, sem þeir hafa fengið. Til þess eru vinnu- og endurhæfingarstöðvar, og lagt til, að hluti af sjóðnum geti runnið til byggingar og rekstrar slíkra stöðva.

Í 3. gr. segir:

„Heilbrrh, tekur ákvarðanir um lán- og styrkveitingar úr sjóðnum að fengnum till. Tryggingaráðs. Tryggingastofnun ríkisins setur reglugerð um lánakjör sjóðsins og hlutfall milli lána og styrkja. Einnig skal hún samþ. starfsreglur þeirra aðila, er aðstoðar njóta.“

Tryggingaráð hefur í sinni vörslu fjölda sjóða. Tryggingaráð er þingkjörin n, og er fyllilega trúandi til þess að gera það besta, sem unnt er í þessum málum, og er nauðsynlegur aðili til að hafa „kontroll“ með, hverjir fá aðstoð og hvernig aðstaða þeirra er, sem fá aðstoð úr sjóðnum, hvort þeir geti tryggt, að féð, sem varið er til starfsemi þeirra, komi að notum. Sjálfsagt þykir, að þetta heyri undir heilbrrh., þar sem hann hefur með þessi mál að gera.

4. gr. hljóðar svo:

„Áfengisverslun ríkisins er heimilt að hækka verð á sterkum drykkjum um sömu upphæð og nemur framlagi til sjóðsins. Hækkunin skal ekki hafa áhrif á k-vísitölu.“

Þetta hef ég getið um áður. Verðhækkana gjalda eingöngu þeir, sem vínið kaupa, og ef eitthvað minnkar um innkaup, þá er það aðeins til hagsbóta fyrir almenning í landinu og reyndar fyrir ríkissjóðinn ekki síður en aðra. Að þetta hafi ekki áhrif á vísitölu, er margrætt mál og má heita sjálfsagt.

5, gr. hljóðar svo:

„Sjóðnum er ekki ætlað að veita lán eða styrk til þeirra stofnana, sem ríkið rekur til hjálpar drykkjusjúkum, heldur stuðla að viðbót við þær aðgerðir.“

Eins og ég hef áður getið um, er ríkið að byggja drykkjumannahæll, og það rekur drykkjumannahæli. Það, sem vantar, er bæði framan og aftan við, og sjóðurinn á fyrst og fremst að bæta úr þeirri vöntun, sem fyrir hendi er, en ekki minnka framlag ríkisins, sem nú er, til byggingar hæla og annarrar starfsemi fyrir drykkjusjúka.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að loknum umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.