24.04.1974
Efri deild: 106. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3901 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

325. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu vera aðeins örfá orð. Ég vil alveg sérstaklega þakka flm. þessa frv., hv. þm. Oddi Ólafssyni, fyrir þær stórfróðlegu upplýsingar, sem hann veitti hér áðan um ýmislegt, sem varðar okkar áfengismál, og sumt af því, sem mér var reyndar ekki kunnugt áður, sérstaklega um samanburð þann ýmsan, sem hann rakti vel og rækilega. Ég vil einnig þakka honum fyrir þann áhuga, sem ég veit, að hann hefur á þessum málum, einmitt sérstaklega varðandi þetta frv., sem hann hefur hér flutt, um stofnun sjóðs til aðstoðar við drykkjusjúka.

Ég get aldrei stillt mig um það, þegar áfengismál bera á góma, að segja örfá orð um þau. Þau verða aldrei ofrædd. En umr. gera vitanlega lítið gagn. Það eina jákvæða í því eru aðgerðir, raunhæfar aðgerðir, Þær aðgerðir getum við nú víst varla komið okkur saman um hér á Alþingi, a.m.k. ekki þær aðgerðir, sem ég er í raun og veru farinn að halda, að einar dugi og geti einar gert eitthvert gagn, þ.e.a.s. nógu róttækar og fyrirbyggjandi aðgerðir.

Hvað eina, sem jákvætt er gert í þessum málum, styð ég vitanlega eindregið. Það ber svo sannarlega að styrkja þetta fólk, sem þarna er um að ræða, sjúklinga, sem hafa orðið fyrir þessu mikla böli.

En vitanlega er það, sem gildir, hinar fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er það, sem þarf að gera til þess að koma í veg fyrir, að þetta fólk verði drykkjusjúkt, til að koma í veg fyrir þann gegndarlausa drykkjuskap, sem hér á landi er. því er það, að ég fagna því alveg sérstaklega í þessu frv., sem stendur í 2, gr. þess, um það, að fé, sem rennur í þennan sjóð, skuli varið til lán- og styrkveitinga til félagasamtaka og einstaklinga, sem vinna að því að hamla gegn skaðlegum áhrifum áfengis, og einnig heimild til þess að verja ákveðnum hundraðshluta af árstekjum sjóðsins til styrktar þeim, er reka áróður gegn áfengisneyslu.

Ég vil sem sagt taka undir þetta frv. Hvað eina, sem reynt er að gera í því efni, bæði að styðja þetta fólk og þá að vekja aðra til umhugsunar um vanda þess, hlýtur að vera jákvætt, en hitt er svo annað og verður aldrei of oft sagt, að það, sem okkur vantar í þessum efnum, eru raunhæfar fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir þann gegndarlausa drykkjuskap, sem þjáir okkar þjóðfélag.