06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

362. mál, bygging læknisbústaðar á Hólmavík

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr fyrst, hvað tafið hafi byggingu læknisbústaðar á Hólmavík, og verð ég þá að rekja heldur óskemmtilega sögu.

Hólmavíkurlæknishérað samþykkti í júlí 1970 byggingu nýs héraðslæknisbústaðar. Meðmæli landlæknis fengust að þessari ákvörðun, og var leyfi rn. veitt hinn 5. ágúst 1970 til þess að undirbúningur byggingarinnar hæfist. Ekkert fé var á fjárl. ársins 1970 til þessara framkvæmda. Í marsmánuði voru send til rn. gögn varðandi byggingu læknisbústaðarins, og framsendi rn. þau til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem fór yfir gögnin og samþykkti þau í maí 1971. Eftir það var unnið að næsta hluta framkvæmdarinnar, þ. e. a. s. áætlunargerð, og var því verki lokið sumarið 1971, og útboð fór fram á vegum framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins síðsumars. Aðeins eitt tilboð kom í þann byggingaráfanga, sem boðinn var út, og var tilboðið talið mjög óhagstætt og eindregið ráðið frá að taka því.

Í sambandi við umr., sem fóru fram á þessu stigi málsins, kom mjög ákveðið fram frá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, að fyrirhugaður bústaður væri allt of stór og yrði að gera ráðstafanir til að endurteikna bústaðinn og minnka hann. En ekkert var gert í málinu að sinni. Heimamenn óskuðu eindregið eftir að byggja bústaðinn eftir þeim teikningum, sem gerðar höfðu verið, en útboð var ekki reiknað að nýju, þar eð framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins áleit, að slíkt væri tilgangslaust.

Miklar viðræður og bréfaskriftir fóru fram milli byggingarnefndar læknisbústaðar á Hólmavík og heilbrrn. annars vegar og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar hins vegar haustið 1972, og leiddu þær viðræður til ákvörðunar fjmrh. og heilbrrh. um, að í framtíð skyldi miða hönnun læknisbústaða við, að þeir væru 200 fermetrar brúttó, þ. e. a. s. íbúð, bílskúr og geymslur, og að í læknisbústöðum skyldi ekki vera annað húsrými en það, sem fyrr er talið.

Að fenginni þessari ákvörðun skrifaði rn. formanni byggingarnefndar læknisbústaðar á Hólmavik 5. febr. á þessu ári og skýrði frá þessum ákvörðunum og óskaði eftir, að byggingarnefnd tæki málið upp að nýju og hefði samráð við arkitekt, sem teiknaði læknisbústaðinn, og óskaði eftir því, að nýjar teikningar yrðu gerðar þannig, að bústaðurinn yrði innan fyrrgreindra marka, og því hraðað og ný frumathugun send rn. Með bréfi formanns byggingarnefndar 13. mars á þessu ári tilkynnti byggingarnefndin, að hún hefði orðið sammála um að notfæra sér teikningar Húsnæðismálastofnunar ríkisins og byggja eftir þeim væntanlegan læknisbústað, og taldi, að með þessu móti mætti flýta undirbúningi verksins. Rn. sendi þessar till. byggingarnefndar inn sem frumathugun til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar 23. mars í ár og mælti með því, að sú leið yrði farin, sem byggingarnefndin hafði ákveðið, og óskaði eftir staðfestingu hagsýslustofnunar á frumathuguninni. Með bréfi 5. apríl 1973 samþykkti Fjárlaga- og hagsýslustofnunin þessa ákvörðun og féllst á, að undirbúningi yrði haldið áfram á þeim grundvelli, sem hafði verið markaður. Þetta tilkynnti rn. formanni byggingarnefndar með bréfi 12. apríl á þessu ári og óskaði eftir, að byggingarnefndin legði fyrir rn. hið fyrsta fullnaðarteikningar ásamt kostnaðar- og greiðsluáætlun vegna þessara framkvæmda. Þessu síðasta bréfi rn. frá 12. apríl á þessu ári, þar sem ásakað er eftir, að fullgengið verði frá teikningum, þannig að útboð geti farið fram, hefur byggingarnefndin ekki svarað, og þrátt fyrir eftirgrennslun liggur ekki ljóst fyrir nú, á hverju áframhaldandi undirbúningsvinna stendur. Það liggur hins vegar fyrir, að rn. hefur ekki fengið frá byggingarnefndinni gögn til þess að senda sem fullnaðargögn til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, þannig að til nýs útboðs hefur ekki komið, og án þessara gagna getur rn. ekki gert þetta.

Önnur spurning er um það, hvenær gera megi ráð fyrir, að bygging hefjist og henni ljúki. Með vísun til þess, sem nú hefur verið sagt, er ekki hægt að svara því, hvenær bygging hefjist eða hvenær henni ljúki. Rn. hafði sannarlega vonast til þess, að undirbúningi yrði lokið það snemma, að byggingin yrði boðin út á þessu sumri, og slíkt hefði að sjálfsögðu verið hægt, ef byggingarnefndin hefði getað lokið sínum verkefnum á s. l. vori og komið þeim á lokaundirbúningsstig.

Þriðja spurningin er sú, hver verði hlutur ríkissjóðs í kostnaði við byggingu þessa læknisbústaðar. Til þessa bústaðar hafa verið veittar úr ríkissjóði 3.2 millj. kr., þannig að heildarframlag ríkis og sveitarfélags ætti nú að nema 4.8 millj. kr. Af þeirri upphæð hafa verið greiddar um 200 þús. kr. vegna undirbúnings, svo að nú ætti að vera til framlag ríkis og sveitarfélags að upphæð um 4.6 millj. kr. Hefjist bygging bústaðar á næsta ári, tel ég, að gera verði ráð fyrir þessari upphæð sem sameiginlegu framlagi ríkis og sveitarfélags, en mismunur þess og heildarkostnaður verði síðan greiddur samkv. lögum sem taka gildi 1. jan. n. k., þ. e. a. s. að ríkið greiði 85 %, en sveitarfélagið 15%