06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

362. mál, bygging læknisbústaðar á Hólmavík

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir hvert einasta orð, sem síðasti hv. ræðumaður sagði um það mál, sem hér er fjallað um. Öll meðferð þessa máls er óhæfa. Það er ekki tími fyrir mig að rekja það frekar, en ég vil aðeins geta þess, að ég hef hér í höndum útdrátt úr 16 fundargerðum samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, þar sem rætt er um þetta mál. Það get ég sagt hv. þm., að þetta er fróðlegur lestur, og hann staðfestir allt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um málið.

Ég vil aðeins leyfa mér í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði, hvernig málum væri komið, með leyfi forseta, að lesa upp nokkrar línur úr tveim síðustu fundargerðunum. Það er 30. mars 1972:

„Lagt fram bréf heilbrrn., dags 23. mars s. l., um byggingu læknisbústaðarins. Meðfylgjandi var bréf byggingarnefndar hússins ásamt nýjum teikningum, gerðum af teiknistofu Húsnæðimálastofnunar ríkisins. Brúttóflatarmál hússins með bílskúr var 200 fermetrar, en það er veruleg minnkun frá fyrri teikningu. N. samþykkti eftir atvikum teikninguna, en benti á að kostnaðar- og greiðsluáætlun vantaði.“

Í fundargerð 25. maí 1973 segir:

„Skúli Guðmundsson greindi frá, að undirbúningi að teikningum væri mjög áfátt. Var Skúla falið að ýta á málið og aðstoða byggingarnefndina.“

Þetta er lokaorðið. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að þetta mál hefur allt kafnað í skriffinnsku og í kerfinu. En það er eitt, sem hv. þm. sagði ekki, að til þess að leysa þetta mál og það hefði verið einfalt — hefði þurft einfalda pólitíska ákvörðun. Ég vænti þess, að hv. 1. þm. Vestf. standi með mér og öðrum þm. Vestf. um það að knýja fram pólitíska ákvörðun í þessu máli.