24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3908 í B-deild Alþingistíðinda. (3450)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Guðlaugur Gíslason:

Herra Forseti. Eins og ég lét koma fram við 1. umr. um þetta mál, er ég fylgjandi aðalefni þess. Ég tel enda sjálfsagt og Alþingi skylt að setja reglur um úthlutun á því fé — þeim skatti, sem samþ. hefur verið að leggja á til niðurgreiðslu á olíu.

Ég er hins vegar mjög ósammála þeim ákvæðum 2. gr., sem gera ráð fyrir, hvernig niðurgreiðslum skuli hagað. Ég verð að segja, að ég var nokkuð undrandi yfir því, að ekki skyldi geta náðst samstaða um það í þessari d. að hafa við þetta eins einfalt form og hægt er að gera og auðsjáanlega liggur alveg ljóst fyrir, að hægt er að framkvæma miðað við þá aðstöðu, sem nú er, og þann afgreiðslumáta, sem er hjá olíufélögunum á olíu bæði til húshitunar og annarra þarfa.

Síðan 1. umr. fór hér fram hef ég haft aðstöðu til að kynna mér nokkuð nánar þetta mái hjá umboði eins olíufélags í heimabyggð minni, og kemur í ljós, að í dag er ferns konar verð á þeirri ollu, sem seld er:

Það er í fyrsta lagi olía, sem seld er til fiskiskipa, sem er, eins og allir vita, niðurgreidd. Hún er seld á 5.80 kr. lítrinn.

Olía til húshitunar, sem ekki er söluskattsskyld, er seld á 11.50 kr. lítrinn.

Olía til iðnaðar og tækja, þar með að sjálfsögðu dísilbifreiða og annarra tækja, sem dísilolíu nota, er seld á 13.45 kr. og er söluskattsskyld.

Og fjórði flokkurinn er olía til erlendra skipa, 14.51 kr.

Því hagar svo til nú samkv. fyrirmælum viðskrn., að olíufélögin verða að halda öllum þessum flokkum aðskildum og gefa um þá sérstakar skýrslur mánaðarlega til rn. Það verður að gefa um það sérstakar skýrslur, þar sem tilgreindir eru allir þeir aðilar, sem kaupa olíu til fiskiskipa og hafa til þess rétt að fá hana niðurgreidda. Það verður einnig að gefa skýrslu um sölu til húshitumar, þar sem sú olía er seld á lægra verði en olía til iðnaðar og tækja, og hafa um það einnig sundurliðaða skýrslu, sem send er rn. Og það verður einnig að hafa um 3. og 4. flokkinn, olíu til iðnaðar og olíu til erlendra aðila, sundurliðaðar skýrslur. Liggur alveg beint við að greiða niður olíuna. Það er engin fyrirhöfn fyrir olíufélögin að gera það, þar sem þau verða að halda sérstakar skýrslur fyrir alla þessa 4 verðflokka, sem olían er seld eftir nú í dag. Ég verð því að segja, að ég á mjög örðugt með að skilja, þar sem þetta liggur fyrir, ef hv. fjhn. hefur kynnt sér málið og veit raunverulega, hvernig þessum málum er hagað, hvers vegna hún leggur til, að hér skuli verða sett upp mjög flókið kerfi, endurgreiðslukerfi á olíu, í sambandi við niðurgreiðsluna. Ég er alveg sannfærður um, að það kemur í ljós, þegar þetta kerfi kemur í framkvæmd, ef till. meiri hl. fjhn. verður samþ., að það verða þús. manna, sem koma fram á endurgreiðsluskýrslunum, sem aldrei hafa greitt einn eyri fyrir olíu, en fá í gegnum sitt sveitarfélag svo og svo margar þús. kr. í endurgreiðslu á olíu. Ég tel, að þetta sé slíkt fyrirkomulag, að það sé ekki sæmandi fyrir Alþ. að koma því á, ef til er önnur leið út úr þessu máli og til að gera þetta mál einfaldara og hverfa burt frá þessu flókna kerfi, sem nú er verið að reyna að koma á.

Það er eðlilegt, að það sé um það spurt, hvað það mundi kosta, ef farið yrði eftir þeirri till., sem ég hef hér leyft mér að leggja fram, að verð á olíu yrði fært til samræmis við verð á olíu, eins og það var í nóv. Ég orða till. viljandi þannig, vegna þess að þetta var gert, þegar ákveðin var niðurfærsla á olíu til fiskiskipa. Þá var verðið fært til samræmis við það verðlag, sem var á olíu í nóv., en það voru 5.80 kr. lítrinn.

Samkv. upplýsingum, sem koma fram í grg. með frv. til l. um álagningu sérstaks gjalds vegna olíuniðurgreiðslunnar, mundi þetta kosta 755 millj. kr., ef tekið væri tillit til niðurgreiðslna á ollu til raforkustöðva, sem rafmagn selja til húsahitunar. Má vel vera, að það sé ekki miðað við nóv.- verð þarna, því að mér sýnist, að þetta muni verða aðeins hærri upphæð en þar er gengið út frá. Það hefur komið hér fram, að olía til húsahitunar muni vera um 155 millj. lítrar. Verðmismunur á olíu í nóv. og aftur í dag, 5.80 annars vegar og 11.50 hins vegar, er 5.70 kr. á lítra. Þetta mundi gera 883 millj. miðað við 155 millj. lítra sölu á olíu til húsahitunar, og ef væri reiknað með því, að 25–50 millj. færu til rafveitna, þá er þarna um að ræða röskar 900 millj.

Nú hefur á það verið bent hér í umr. og það mun reynast rétt, að hvert vísitölustig mun ekki verða S00 millj., eins og lengi vel hefur verið talað um, heldur held ég, að þeir, sem best fylgjast með þessum málum, séu komnir að þeirri niðurstöðu, að það muni frekar verða 900–1000 millj. hvert vísitölustig, Það ætti því að liggja ljóst fyrir, að þetta eina söluskattsstig, sem samþ. hefur verið, að ganga skuli til niðurgreiðslu til olíu, ætti að nægja til þess að færa olíuverðið til húsahitunar og til rafveitna að því marki, sem gert hefur verið ráð fyrir, þá ætti það að nægja til að færa olíuna niður í það verðlag, sem á henni var í nóv.- mánuði s.l. Ég verð því að biðja hv. þm. að skoða það vel að fara ekki að búa til flókið endurgreiðslukerfi eða styrkjakerfi, ef hægt er að gera þetta á einfaldan máta, eins og ég held fram, að hægt sé að gera, miðað við þá aðstöðu, sem er í dag og miðað við þær kröfur, sem stjórnin gerir nú til olíufélaganna um að halda hverjum verðflokki fyrir sig sundurliðuðum í skýrslum sínum til rn.

Ég leyfi mér því að vænta þess, að hv. þm. geti fallist á till. mína, sem fram er borin á þskj. 698.