24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3910 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt að ráði, en ég verð að lýsa undrun minni yfir þeirri stífni, sem mér sýnist vera komin í þetta mál frá hendi frsm. hv. fjhn. Hann talar um, að það mundi verða flóknara kerfi, ef till. mín yrði samþ., þar sem nú sé þegar fyrir hendi ferns konar verð á olíu. Ég er að leggja til, að verðflokkunum fækki um einn, að það verði sama verð á olíu til húshitunar og nú er til fiskiskipa, og þar af leiðandi yrðu eftirleiðis ekki nema 3 verðflokkar á olíu, þannig að ég er að reyna að gera málið einfaldara en það er í dag, — fækka sem sagt um einn verðflokk, úr 4 verðflokkum niður í 3. Þetta er það, sem till. mín hljóðar um.

Ég er alveg undrandi yfir því, að menn skuli ekki gera sér alveg ljóst fyrir fram, að hér er verið að búa til mjög flókið styrkjakerfi með till. eða reglunum, eins og þær er að finna í 2. gr. þessa frv., þar sem hver einasti skattgreiðandi, ekki olíugreiðandi, á landinu, hver einasti skattgreiðandi á að fá endurgreidda olíu, hvort sem hann greiðir olíu eða ekki. Ég tel það mjög hæpið, hvort það sé sæmandi fyrir Alþ. að samþykkja slíkt endurgreiðslukerfi, að menn, sem ekki greiða neitt til hlutanna, fái samt endurgreiðslu. Þetta er það, sem skeður í mörgum tilfellum. Ég þarf ekki að fara nánar út í þetta, það veit hver einasti maður, sem nokkuð þekkir til þessara mála, að það kemur þannig út í framkvæmd, að það verður fjöldi aðila, sem fær endurgreiðslu, þótt þeir hafi enga olíugreiðslu innt af hendi.

Því var haldið fram við 1. umr., þ. á m. af hæstv. viðskrh., að ef farið yrði út í beina niðurgreiðslu á olíunni, verðlækkun til þeirra, sem olíu kaupa til húshitunar, gæti verið hætta á, að það yrði misnotað. Auðvitað er alltaf sú hætta fyrir hendi við öll niðurgreiðslukerfi, að þau kunni að verða misnotuð. Ég óttast ekki í sambandi við þetta atriði, að menn fari að kaupa olíu til húshitunar, láta keyra hana heim á olíutanka við heimili sín og láta síðan alla nágranna sína sjá, að þeir væru að dæla upp úr tönkunum aftur og setja á tæki eða vélar. Ég er alveg sannfærður um, að það er enginn einasti maður, sem mundi leyfa sér það, og ef hann leyfði sér það, þá mundu allir nágrannar hans og allt byggðarlag hans vita um það sama daginn og þetta gerðist. Ég er því ekkert hræddur um, að það yrði um neina misnotkun að ræða að þessu leyti í sambandi við niðurgreiðslu á olíu, þó að farið yrði eftir því, sem ég hef lagt til í till. minni.

Ég skil vel, að olíufélögin séu ekki ginnkeypt fyrir að taka að sér eða samþykkja þær reglur, sem ég er hér að ræða. Auðvitað vitum við, að það er búið að leggja slíka kvöð á atvinnuvegina í sambandi við skattamál og alls konar skýrslugerðir, að þeir eru komnir þarna í varnaraðstöðu. Þetta er það, sem liggur fyrir og hver einasti atvinnurekandi veit og hver einasti maður veit, sem nokkuð þekkir inn á atvinnurekstur. Þetta er orðin plága fyrir þá, sem atvinnurekstur stunda, að standa skil á öllum þeim skýrslugerðum, sem af þeim er krafist af stjórnvöldum. Það er því eðlilegt, að þeirra viðbrögð séu neikvæð í hverju tilfelli, — það er sama, hvort um er að ræða niðurgreiðslu á olíu eða öðru, — að þeirra viðbrögð séu neikvæð við að taka á sig meiri skýrslugerðir. Það vill svo til í þessu tilfelli, að þau verða að gera það. Stjórnvöld hafa krafist þess af þeim, að þau geri þetta, að þau sendi sundurliðun mánaðarlega, sundurliðaðar skýrslur um hvern verðflokk, ekki bara hve mikið magn þau selja í hverjum verðflokki, heldur verða að gera grein fyrir hverjum þau selja olíu í hverjum verðflokki. Þetta hafa olíufélögin hjá sér, þetta fer gegnum þeirra bókhald, og ég fór beinlínis í að kynna mér þetta, fékk að sjá þetta hjá einu olíufélagi. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Það þarf ekki umsögn eins eða neins um það. Hv. n. gæti kynnt sér þetta, ef hún færi í eitthvert olíuumboð, þar sem olía er seld til húshitunar og annars. Þá gæti hún séð, hvernig málið liggur raunverulega fyrir. En það virðist vera, að hún hafi ekki hug á að breyta kerfinu. Ég segi: því miður, því að þetta kemur til með að verða bæði vandræða- og leiðindamál fyrir alla, sem hlut eiga að máli, bæði hið opinbera og þá, sem eiga að taka við olíustyrknum.