24.04.1974
Neðri deild: 111. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3453)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil fagna því alveg sérstaklega, að nm. í hv. fjhn: og viðskn. munu flytja till. um hærri greiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar af almannatryggingum. Þar er um að ræða tekjulægsta fólkið í þjóðfélaginu og mikil þörf á að gera ráðstafanir til þess, að það verði ekki fyrir skakkaföllum, sem kynni að verða þessu fólki mjög torveld.

En ástæðan til að ég kvaddi mér hljóðs, er sú, að mig langaði til að bæta við röksemd í sambandi við, hvaða fyrirkomulag á að hafa á greiðslum vegna þessara ráðstafana til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða. Nú er það svo, eins og við vitum, að þau hin varanlegu úrræði okkar, framtíðarúrræði okkar, í þessu efni eru þau að reyna að hraða nýtingu innlendra orkugjafa eins og við erum menn til. þ.e.a.s. nýta jarðvarma og raforku með eins skjótum hætti og við getum, og um þetta er enginn ágreiningur hér á hinu háa Alþingi. En í þessu efni nægir ekki afstaða Alþingis eða stjórnvalda. Þarna verður einnig að koma til brennandi áhugi almennings, — áhugi, sem sprettur af því, að menn finna áhrifin á sjálfum sér. Gallinn við niðurgreiðslur er sá, að þær fela hið raunverulega verðlag, þannig að manni, sem kaupir niðurgreidda olíu, finnst hann vera að kaupa olíu á því verði, jafnvel þó að þar komi til stórfelldur styrkur frá opinberum aðilum. Það er verið að fela hið raunverulega verð, og það dregur úr áhuga viðkomandi manns á því að breyta um orkugjafa, taka upp rafhitun hjá sér eða hitun með jarðvarma. Þetta held ég, að sé ákaflega veigamikið sálfræðilegt atriði. Með þessu fyrirkomulagi, sem nefnt er hér í frv., er hins vegar ekki falið á neinn hátt, hvað olían kostar, en hins vegar lagðir fram fjármunir til þess að reyna að draga úr áhrifum þessara hækkana. Menn sjá eftir sem áður svart á hvítu, hvað er dýrt að hita hús sín með olíu, og ég held, að það sé ákaflega veigamikið atriði, ef við viljum ýta undir vaxandi áhuga almennings á því, að slík þróun verði, sem við allir viljum. Ég held, að menn þurfi að hafa þetta atriði einnig í huga í sambandi við þann ágreining, sem upp er kominn um það, hvernig eigi að haga þessum greiðslum.