24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3462)

47. mál, undirbúningur að næstu stórvirkjun

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ég tel rétt, ef hæstv. forseti veitir leyfi til þess, að ræða bæði málin, sem eru á dagskrá, nr. 7 og 8, í senn, því að þau fjalla um mjög skyld efni.

47. mál fjallar um stórvirkjun utan Þjórsársvæðisins, að stefnt skuli að næstu stórvirkjun utan þess, t.d. á Norðurlandi, eins og í frv. segir, og virkjunarrannsóknum og öðrum undirbúningi þannig hagað, að af því geti orðið.

Eins og kunnugt er og margoft hefur verið getið, eru orkumálin nú meir en nokkru sinni fyrr í brennipunkti hjá okkur Íslendingum eins og mörgum öðrum þjóðum. Orsök þess er að sjálfsögðu alkunn. Það er olíukreppan, sem hefur geisað um þann heim, þar sem iðnaðarþjóðir búa. Hún hefur komið nokkuð á óvart, vegna þess að fjöldi þessara þjóða og þ. á m. Íslendingar hafa engan veginn verið því viðbúnar að koma í veg fyrir þá kreppu, sem myndast hefur og mun ríkja um skeið. Og það er alkunna, að olían var á fyrra ári notuð sem pólitískt vopn af hálfu þeirra ríkja, sem olíuna selja, á hendur hinum þjóðunum, sem bana nota hvað mest. En nú er að sjá sem farið geti svo, að vopnin snúist í höndum þeirra, sem tóku þau upp. En við Íslendingar erum svo lánsamir, að við búum yfir orkugjöfum, sem sjálfsagt mega duga okkur mjög lengi, þó að vel kunni að sækjast fram hjá okkur að beisla orkuna. Og það verður að segja eins og er, að höfuðatriðið er það, að okkur takist að fara þær leiðir, sem miða að sem jafnastri búsetu í landinu og styrkja með því sem best alhliða afkomumöguleika og þar með öll helstu lífsskilyrði fólksins. Þess vegna skiptir það meginmáli í þessu efni eins og í mörgum öðrum, að skynsamlegar ákvarðanir verði teknar af hálfu þeirra, sem forustuna hafa um framkvæmdir á hverjum tíma.

Nú þegar, eins og kunnugt er, er hafin stórvirkjun við Sigöldu í Rangárþingi. Á þeim slóðum er einnig ætlunin að virkja bæði svokallaðan Hrauneyjafoss og svo líka við Sultartanga, og segja okkar sérfræðingar í orkumálum, að undirbúningur og framkvæmdir við báðar þær virkjanir geti hafist með mjög skömmum fyrirvara.

En hitt þarf engan að undra, að stórvirkjun á Norðurlandi sé ofarlega í hugum margra. Deilur um raforkumál hafa veríð jafnvel meiri í Norðurlandi og þá sérstaklega Norðurl. e., heldur en um getur annars staðar í landinu, a.m.k. á seinni árum. Þeim deilum er sennilega lokið að mestu núna, en áframhaldandi er orkuskorturinn á þessum slóðum eins og víða annars staðar. Það er því full þörf á því, að gripið verði til ráða í þessu efni og brugðist sem best við og athafnir fylgi hið fyrsta. Nú er það kunnugt, að ríkisstj. hefur látið vinna að margs konar rannsóknum og margs konar undirbúningi að raforkumálum og þá ekki síst á Norðurlandi, og yfirgripsmikil vinna er þar nú í fullum gangi. Má nefna t.d. frv. það, sem ríkisstj. lagði fram á þessu þingi um Kröfluvirkjun, 65 mw. gufuaflsvirkjun. Þetta er vissulega mjög stórt og þarft mál og spor í rétta átt, og sú virkjun þarf að sjálfsögðu að komast í gagnið sem allra fyrst. Einnig er áformuð svokölluð byggðalína frá aflstöðvum á Suðurlandi, og sú lína má vafalaust verða að miklu gagni Norðlendingum, þegar þar að kemur. Þá hefur verið unnið að rannsóknum í sambandi við Dettifoss og víðar á Norðurlandi.

Um Dettifossvirkjunarrannsóknir segir í umsögn frá Orkustofnuninni, með leyfi hæstv. forseta:

„4, og síðasti liður till. fjallar um Dettifossvirkjun. Þar hefur Orkustofnun unnið að virkjunarrannsóknum um árabil. og verður þeim fram haldið næsta sumar.“ — Þetta bréf er skrifað fyrir nokkrum vikum. — „Áfangaáætlun verður gerð nú í vetur, — áætlun, sem er áfangi í rannsóknum. Við ýmis vandamál jarðfræðilegs eðlis er að glíma, en með viðeigandi hönnun sýnist unnt að ráða við þau. Ekkert hefur fram komið í rannsóknum til þessa, sem bendir til annars en þarna sé um hagkvæma og álitlega virkjun að ræða.“

Þetta segir Orkustofnun um Dettifossvirkjun. 73. mál á þingi, sem er 8. mál á dagskrá í dag, fjallar um staðarval stóriðju og stórvirkjana á Norðurlandi. Efni till. er í fyrra lagi, að könnuð verði hagkvæmni þess að velja stóriðjufyrirtæki stað á Norðurlandi með hliðsjón af jákvæðri byggðaþróun og auknu öryggi í orkuöflun landsmanna, og í öðru lagi, að lögð verði öflug miðlunarlína norður í land.

Um hið fyrra atriði er það að segja, að svokölluð viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hefur haft þetta efni m.a. til könnunar, þ.e.a.s. um stóriðju og staðarval hennar á Norðurlandi, og sú n. mun halda áfram athugunum um það. En til þess að raunhæft verði þarf að sjálfsögðu að koma til aukið rafmagn. Þá verður staðarval stóriðju og stóriðjumálin á Norðurlandi að sjálfsögðu í brennipunkti. Það er alveg auðsætt, að það mun ekki skorta vilja né áhuga, hvorki af hálfu innlendra aðila né erlendra, að stofna til stóriðju, eftir því sem virkjunarframkvæmdum og orkumálum miðar áfram. Og að lokum: Iðnaðarstöðvar eða iðjustöðvar hljóta að öðrum þræði að verða efnahagsleg undirstaða stórvirkjunar og undirstaða hagkvæms rekstrar orkuvera. Um það er ekki að villast. En þessi mál eru öll í undirbúningi, á rannsóknastigi. Sum eru að komast af því, önnur eru skemmra á veg komin. En það er eðlilegt, að það sé nokkurt óþol í þeim, sem á Norðurlandi búa og búa við orkuskort og hann aukinn með hverjum mánuði að kalla sem líður.

Allshn. treystir því, að með fyllstum hraða verði unnið að rannsóknum og undirbúningi raforkumála í Norðlendingafjórðungi og að þær ábendingar, sem koma fram í báðum þessum greindu þáltill., verði teknar til íhugunar við meðferð þessara mála í heild. Og þar sem kunnugt er, að þessi mál eru í höndum þeirra aðila, sem ekki aðeins hafa sérfræðilega þekkingu á þeim, heldur og ber skylda til þess að vinna að þeim og koma þeim til hafnar, eins og auðið verður, þá þykir n. eftir atvikum eðlilegt, að báðum þessum till. verði við svo búið vísað til ríkisstj.