06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

360. mál, sjómannastofur

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og fyrir það, að þetta mál hefur verið tekið til meðferðar á vegum ríkisstj. Ég leyfi mér að vona, að málið sjáist svo í frv.-formi á þessu þingi eða í byrjun þess næsta. Meginatriðið er þó auðvitað, að það er komið í gang, og svo hitt, að það er fengið til athugunar þeim mönnum, sem eru líklegir til að gera því góð skil. Ég vil aðeins láta það koma fram hér, að það er mín skoðun, að löggjöf um sjómannastofur eigi fyrst og fremst að byggjast þannig upp, að efldur verði stuðningur og hvatning frá hinu opinbera við áhugafólkið á hafnarstöðunum.