24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3941 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

305. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Till. sú, sem við höfum leyft okkur að flytja, hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmason, og hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að komið verði á fót stofnlánasjóði, sem hefði það hlutverk að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum.“

Langrar framsögu umfram það, sem er í grg., er ekki þörf. Nauðsyn þeirra tækja, sem hér er gert ráð fyrir, að hægt verði að veita stofnlán út á, dregur enginn í efa. Vörubifreiðar, langferðabifreiðar og stórvirkar vinnuvélar eru allt ómissandi atvinnutæki í okkar nútímaþjóðfélagi. Fólks- og vöruflutningar á landi teljast til hinnar nauðsynlegustu þjónustu. Stórvirkar vinnuvélar ryðja sér til rúms æ víðar við hvers kyns framkvæmdir. Þessi atvinnutæki eru dýr í dag, og það er nánast aðeins á færi fjársterkra aðila að eignast þau án þess að taka til kaupa á þeim stórfelld lán, sem oft er illmögulegt að fá, einkum þeim, sem úti á landsbyggðinni búa. Möguleg lán eru nær eingöngu falin í víxlum með þeim ókostum, sem þeim fylgja, einkum þegar um stórar uppbæðir er að ræða. Það hlýtur því að teljast eðlilegt og sjálfsagt, að þessir aðilar eigi einhvers staðar kost stofnlána, eins og ýmsir aðrir atvinnuþættir, að vísu sterkari og þýðingarmeiri, hafa átt um langt árabil.

Hvað snertir stórvirkar vinnuvélar hafa kaupendur þeirra átt um tíma kost vissrar fyrirgreiðslu frá Byggðasjóði, alveg sérstaklega vegna hins stórfellda þrýstings þeirra og um sumt sveitarfélaga og ræktunarsambanda, sem hafa þá gjarnan skrifað upp á umsagnirnar að formi til, svo að skilyrðum sjóðsins yrði fullnægt. Ég tel sjálfsagt, að Byggðasjóður komi inn í þessa heildarmynd, jafnvel hvað snertir þessi atvinnutæki, en þá aðeins sem hreinn viðbótaraðili, þar sem rekstraraðstaða væri örðug. Hans verkefni eru ærin fyrir, og haus hlutverk á að vera stuðningur við þá landsbyggðarstaði, sem erfiðast eiga uppdráttar hverju sinni. A.m.k. hlýtur það að teljast meginhlutverk hans að verja þá staði og þau atvinnufyrirtæki landsbyggðarinnar, sem höllustum fæti standa á hverjum tíma. Með þessum orðum er ég alls ekki að mæla gegn þessari fyrirgreiðslu sem hér um ræðir. Hún hefur verið knýjandi og nauðsynleg. Við flm. viljum aðeins með till. okkar létta þessum vanda af Byggðasjóði og gera hér stórt átak til að koma á fót öflugum stofnlánasjóði eða útlánadeild fyrir alla þessa aðila.

Nú munu menn eflaust segja, að nóg sé til af sjóðunum hér á landi og lítil ástæða til að vera þar við að bæta. Við flm. teldum það reyndar eðlilegast og heppilegast um flest, að slíkri stofnlánadeild yrði komið upp hjá Framkvæmdasjóði eða þá beinlínis hjá einhverjum ríkisbankanum og því mætti að okkar áliti gjarnan breyta till. í einhverja þá átt, ef n. sýndist svo. Aðalatriðið að okkar dómi er það, að fundin verði leið til að sjá þessum aðilum fyrir eðlilegum stofnlánum.

Mig hafa frætt á því menn, sem eru fróðir í þessum efnum, að í raun þurfi að breyta veðlögum í þá átt, að atvinnutæki sem þessi séu veðhæf að fullu, og þyrfti þá um leið að taka þau efni öll til meðferðar, ef af samþykkt till. þessarar verður.

Ekki skal nein dul á það dregin, að við flm. höfum hér fyrst og fremst í huga þá mörgu aðila úti á landsbyggðinni, sem svo sannarlega hafa átt í ærnum erfiðleikum með kaup þessara atvinnutækja sinna. Við þekkjum einnig mörg dæmi þeirra erfiðleika, sem sérstaklega fólksflutningafyrirtækin hafa átt í rekstrarlega séð. Þessi nauðsynlegi og ómissandi þáttur í samgöngukerfinu og þjónustu við almenning er víða í hættu einmitt af því, hve þessir aðilar hafa átt erfitt með að endurnýja tækjakost sinn. Þetta hefur einnig átt sínar orsakir í ónógu og slæmu skipulagi þessara mála í heild. Ég man, að á þinginu í hittiðfyrra var samþ. till. frá hv. þm. Skúla Alexanderssyni um bætt skipulag þessa þjónustuþáttar, en um framkvæmd hennar veit ég ekki, en ég óttast, að hún muni vera í nokkru lágmarki. Hér þyrfti vissulega að verða á breyting til batnaðar en fleira þarf til að koma og þar að víkur einmitt till. okkar þremenninganna, till., sem gæti þarna verulega hjálpað, ef samstillt átak yrði gert til að gera áætlunarferðirnar hagfelldari þægilegri og notadrýgri, svo sem till. Skúla gerði ráð fyrir.

Því hefur verið skotið að mér, að hér væri verið að opna sjóð, sem stórir verktakar mundu óðar gleypa að mestu og eftir sætu hinir smærri aðilar og lengra frá höfuðborgarsvæðinu, og því yrði raunin sú, að þeir, sem við helst hygðumst hjálpa, sætu eftir með sama vandann, sama lánsfjárskortinn. Þessi hætta kann vel að vera möguleg, en hún er ekkert meiri þarna en í öðrum stofnlánasjóðum, og ef till, yrði samþ., þá leggjum við flm, allir ríka áherslu á, að undir þennan leka yrði sett, það verði einmitt tryggt, sem er okkar aðalmeining, að þeir, sem erfiðasta aðstöðu eiga og minnsta möguleika hafa, gangi fyrir um alla lánsfyrirgreiðslu, og mun því sannarlega verða fylgt eftir. Hins vegar er erfitt að taka slíkan mismun inn í till. sem slíka, en það er rétt að taka þetta ótvírætt fram í framsögu. Sannleikurinn er nefnilega sá, að hinir stóru verktakar með sínar stóru bifreiðar og stórvirku vinnuvélar hafa ekki átt við neinn lánsfjárskort að etja. Slíkir aðilar eiga það sjaldnast, baukadyrnar standa þeim oftast opnar, of opnar, vildi ég mega fullyrða.

Við flm. gerum enga sérstaka beina till. um fjáröflun til sjóðsins eða deildarinnar, ef það form yrði haft á. Í grg. er hins vegar bent á tvennt: annars vegar, að Framkvæmdasjóður leggi til lánsfé, og í öðru lagi, að komi til gjald frá eigendum þessara atvinnutækja, sem þeir skiluðu til sjóðsins eftir vissum reglum. Verði þetta stofnlánadeild innan Framkvæmdasjóðs, fellur fyrri leiðin þar inn í. En hitt hlýtur að vera leið, sem sjálfsögð hlýtur að teljast með tilliti til annarra hliðstæðra sjóða eða stofnlánadeilda. Á fleiri leiðir bendum við ekki, en nefnt hefur það verið, að möguleiki væri á árlegu framlagi ríkissjóðs, en við efumst mjög um, að svo eigi að vera.

Við flm. leggjum ekki heldur til neina lánaprósentu af kaupverði. Hana verður að ákveða að vel yfirlögðu ráði, og um það hljóta að gilda um margt misjafnar reglur eftir eðli umsóknanna. Hins vegar endurtek ég þá skoðun okkar flm., að hér eigi þeir að njóta hæstrar lánsprósentu, sem erfiðasta aðstöðu hafa, jafnt til kaupanna sem til rekstrarins. Nauðsyn slíks rekstrar og slíkra atvinnutækja getur verið ærin, þótt margir erfiðleikar séu á veginum, t.d. vegna fólksfæðar og einangrunar, e.t.v. enn meiri en annars staðar og þá sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem vandinn er örugglega minnstur, hvað þetta snertir.

Ég tel að öðru leyti ekki ástæðu til að fjölyrða hér um frekar, en legg til, herra forseti, að umr. um till. verði frestað og till. vísað til fjvn.