24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3945 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

312. mál, farkennsla í meðferð fiskileitar- og siglingatækja

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 717 hef ég ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal og Lárusi Jónssyni leyft mér að flytja þáltill., þar sem skorað er á ríkisstj., að hún feli tæknideild Fiskifélags Íslands í samráði við skólastjóra Stýrimannaskólans að koma á fót farkennslu í meðferð og viðgerðum á fiskleitar- og siglingatækjum. Staðreyndin er sú, að á undanförnum árum og áratugum hefur siglinga- og fiskleitartækjum sífellt farið fram að því leyti, að þau hafa orðið viðameiri, veigameiri, nauðsynlegri við fiskveiðar og flóknari. Að sama skapi hefur skipstjórnarmönnum ekki verið kennd meðferð þeirra og þó enn síður viðgerð þeirra. Það er, eins og í grg. segir, undirstaða nú orðið flestra fiskveiða, að þessi fiskleitartæki um borð í hverju skipi séu sem fullkomnust og að sjálfsögðu, að þau séu á hverjum tíma í lagi.

Hjá öðrum þjóðum, t.d. Bretum, hefur nú nýverið verið tekin upp sú aðferð að auka stórkostlega upplýsingar og alla kennslu í meðferð þessara tækja. Þeir hafa gripið til þess ráðs að búa út bifreið, sem búin er öllum nýjustu og fullkomnustu fiskleitar- og siglingatækjum, og ekið henni milli aðalhafnarstöðva í landi sínu og haldið þar stutt námskeið til þess að kenna sæfarendum meðferð þeirra og eins viðgerð á þeim, að vísu viðgerð í smærri atriðum, þar sem þessi tæki eru geysiflókin og viðamikil, þannig að ef um alvarlegar bilanir er að tefla, þá er ekki venjulegum skipstjórnar-mönnum ætlandi að fást við þær. Þetta hefur gefið hina bestu raun. Þessi námskeið hafa verið haldin 2–3 daga á hverjum stað, og reynslan hefur sýnt, að þetta hefur í mörgum tilfellum sparað skipum tíma við að leita hafnar við hinar minnstu bilanir, fyrir utan það, að þeir, sem kennslunnar hafa notið, hafa verið miklu hæfari til þess að beita þessum tækjum eftir en áður. Ég veit dæmi þess, að einn af okkar færustu skipstjórnarmönnum, fiskiskipstjórum, lagði sig fram um það að afla sér bæklinga um meðferð þessara tækja, og á fiskislóð fjarri þessu landi kom honum ásamt með fyrri reynslu sinni þetta að slíku haldi, að hann gat komið sannanlega í veg fyrir milljónaaflatjón.

Fyrir tveimur árum gaf Stýrimannaskólinn út leiðbeiningabækling um meðferð þessara tækja, sem hefur gefið góða raun. En á sömu braut þarf áfram að halda. Það þarf frekari útgáfu slíkra leiðbeiningabæklinga á íslensku. Þeir eru að vísu til með flestum þessum tækjum á ensku, en það tæknimál er yfirleitt með þeim hætti, að skipstjórnarmönnum okkar nýtist það ekki sem skyldi.

Það er enginn vafi á því, og hefur reynslan reyndar sýnt, að þetta gæti orðið til þess að spara geysilegan tíma og þar með forða frá miklu aflatjóni. Fleira þarf auðvitað til en þetta. T.d. er það mjög áberandi víða í verstöðvum, að það vantar varahluti. Viðgerðarmenn á þessum stöðum eiga þess ekki kost að eiga nógan varahlutalager. Kemur þar allt annað til, að jafnaði fjárskortur, því að þessir varahlutir eru yfirleitt mjög dýrir og þess vegna mjög dýrt að eiga þá á lager. Úr þessu þarf að bæta.

Ég er sannfærður um, að útbúnaður slíkrar bifreiðar, sem gæti annast slíka farkennslu, þyrfti ekki að verða mjög dýr. Ég er sannfærður um það, að umboðsmenn helstu tækja, sem í þessu skyni eru notuð, til fiskleitar og siglinga, mundu keppast um að koma tækjum sínum fyrir í slíkri bifreið og jafnvel mundu þeir lána til þess sérhæfða menn að kenna meðferð tækjanna, þannig að af þessu þyrfti ekki að hljótast nema mjög óverulegur kostnaður og alla vega óverulegur miðað við það gagn, sem þetta getur gert.

Þessi þáttur varðandi fiskleitartækin t.d. er að verða æ snarari í öllum fiskveiðum okkar. Og það mætti gjarnan koma hér fram, að miklu fleira mætti taka til athugunar í þessu sambandi. T.d. er það í aðalútgerðarstöðum Breta, að þeir hafa heilar brýr, ef svo mætti kalla, þeir hafa skipstjórnarklefa útbúinn öllum tækjum og eins eðlilegan og hann er í raun til þess að þjálfa skipstjórnarmenn sína í.

Ég er sannfærður um það, að ef á þetta ráð yrði brugðið að búa bifreið tækjum, hinum nýjustu og bestu tækjum, fiskleitartækjum og siglingatækjum, og senda hana yfir sumarmánuðina t.d. víðs vegar um landið, þá mundu það verða vel sótt námskeið og gefa mjög góða raun.

Þetta er aðeins einn þáttur, þótt ekki sé sá mikilverðasti, í því, að við eflum mjög alla kennslu og um leið áhuga manna á þessari aðalgrein okkar, hinni einu og sönnu stóriðju, sem íslenskur sjávarútvegur er.

Ég vil svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, svo einfalt og upplagt sem mér sýnist það vera, en vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þegar þessari fyrri umr. lýkur, verði málinu vísað til hv. fjvn.