18.10.1973
Sameinað þing: 4. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Segja má með sanni, að þessar umr. séu leyndardómsfullar og það í meira lagi. Hér koma fram fyrir þjóðina 11 alþm., allt frá ráðh. niður í óbreytta þm., fulltrúar allra flokka Alþ. Þeir skeggræða um margvíslega málaflokka, sem snerta stefnu ríkisstj. á næstu mánuðum. En það mál, sem allir eru að hugsa nm. sem allar umr. utan við þingsalinn hafa snúist um í dag, má ekki nefna, svo að þjóðin lífeyri. Það eru að sjálfsögðu nýjustu atburðir í landhelgisdeilunni, sem hafa verið gerðir að trúnaðarmáli og engir mega fyrst um sinn heyra rætt um nema ráðh. og þm. á lokuðum fundum.

Erum við ekki öll sammála um, að landhelgismálið skipi algera sérstöðu sem mikilvægasta verkefni og vandamál þjóðarinnar? Erum við ekki sammála um, að það hafi forgang, hversu mikilvæg sem önnur mál eru?

Þau tíðindi hafa gerst, að forsrh. hefur með einbeittum hótunum um stjórnmálaslit knúið fram fund með forsrh. Breta og fengið þar fram nýjar hugmyndir um hugsanlega bráðabirgðalausn á landhelgisdeilunni til tveggja ára. Forsrh. hefur flogið til Lundúna, þingað í Downing Street og snúið heim með hið nýja plagg í tösku sinni. En hann hefur mælt svo fyrir, að efni skjalsins skuli a. m. k. fyrst um sinn vera algert trúnaðarmál, sem megi ekki fara út fyrir hinn þrönga hring ríkisstj. og Alþ., og hafa allir aðilar virt það utan einn. Ég tel, að þessi starfsaðferð hafi ekki verið rétt. Að sjálfsögðu er oft nauðsyn, að leynd hvíli yfir meðferð utanríkismála, sérstaklega á byrjunarstigi þeirra. En þetta er ekki einhlít regla.

Það er líka til kenning um opna samninga og opin samskipti þjóða. Ég tel, að það hefði átt betur við í þetta skipti, því að ekkert er leynt, sem ekki mun verða opinbert, né nokkuð hulið, sem ekki verði kunnugt og komi í ljós, eins og segir í bókinni góðu. Landhelgismálið er ekki á byrjunarstigi, heldur hefur þjóðin fylgst með því af athygli í meira en ár og þrautþekkir hvert smáatriði þess. Þar að auki hafa breskir fjölmiðlar birt margvíslegar fregnir um þessi leyniskjöl og efni þeirra, og málið hefur verið rætt á fundi útgerðarmanna í Hull á opinskáan hátt. Er ekki kominn tími til þess, að Íslendingar hætti að fá fréttir af sínum eigin málum úr breskum blöðum?

Ég tel eðlilegt, að forsrh. hefði ætlað sér allt að einum sólarhring til að kynna málið sérstaklega fyrir stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni, en ekki síðar en í gærkvöld hefði ráðh. átt að flytja í sjónvarpi og hljóðvarpi ræðu, þar sem hann skýrði allri þjóðinni hreinskilnislega frá málavöxtum. Á eftir hefðu nokkrir stjórnmálamenn eða nokkrir fréttamenn getað lagt fyrir hann spurningar til að varpa frekara ljósi á einstök atriði. Ég tel, að íslensku þjóðinni sé sannarlega treystandi til að gera sér rökstudda og ábyrga grein fyrir slíku máli á skömmum tíma, eftir að allar upplýsingar hafa verið veittar. Þjóðin hefði getað áttað sig á því, hvort hún vill kaupa friðinn því verði, sem í boði er. Þjóðin hefði getað áttað sig fljótlega á því, hvort forsrh. kom heim með óaðgengilega úrslitakosti eða með mikinn áfangasigur fyrir næstu tvö ár, hvort sem kann að reynast. Alþm. hefðu heyrt margar raddir úr kjördæmum sínum og haft betri aðstöðu en ella til að taka eftir nokkra daga ákvörðun um málið. Á þennan hátt hefði mátt ráðgast við þjóðina, einmitt vegna þess að við erum ekki stærri þjóð og ekki fleiri en við vitum, og við getum stundum hegðað okkur eins og ein stór fjölskylda. Ekki þarf að efast um, að afgreiðsla málsins, hver sem niðurstaðan yrði, mundi endanlega verða miklu sterkari en ella. Það er betra að geta vísað til þjóðarinnar allrar en þurfa að spekúlera um, hvað þessi og hinn hafi gert og sagt á lokuðum fundum.

Ég er bundinn trúnaðareðli málsins eins og aðrir þm. og mun því ekki ræða það efnislega. Hins vegar vil ég skýra frá því, að þm. Alþfl. hófu umr. um þetta mál, strax og þeim barst skýrsla forsrh., en við höfum vísvitandi ekki lokið þeirri umr. Óðagot í þessum efnum er ábyrgðarleysi, og vera má, að enn þurfi að spyrja um ýmis atriði.

Hitt gera menn sér ljóst, bæði í baksölum Alþ. og utan þess, að þetta mál getur haft víðtæk pólitísk áhrif, þrátt fyrir þá einingu í landhelgismálinu, sem tekist hefur að varðveita nokkurn veginn út á við. Það hefur verið upplýst, hvað einn stjórnarflokkurinn ætlar að gera, en ekki sagt frá afstöðu hinna enn. E. t. v. stendur ríkisstj. saman um málið að lokum. En hún virðist hæglega geta klofnað um það, og hvað tæki þá við? Um þessi atriði veit líklega enginn neitt í dag, síst af öllu ráðh. sjálfir. En næstu dagar geta orðið örlagaríkir á sviði íslenskra stjórnmála.

Landhelgismálið yfirskyggir allt annað í dag, eins og það hefur oft gert áður. En ríkisstj. hefur í önnur horn að líta og nóg af vandamálum að glíma við. Ráðh. eru 7 talsins, en ég hef lúmskan grun um, að á fundum þeirra um þessar mundir sé stundum áttundi aðilinn viðstaddur. Þessi áttundi ráðh. er vofan frá 1958, endurminningin um síðustu vikur og fall þáv, ríkisstj., sem einnig var kölluð vinstri stjórn. Vofan frá 1958 hefur margt að minna á.

Gamla vinstri stjórnin ætlaði í upphafi að láta varnarliðið fara, en guggnaði á því, og gleyptu kommúnistar þá ákvörðun án þess að verða bumbult af. Það verður fróðlegt að sjá um jólin í vetur, ef stjórnin lifir þá enn, hvort matarlyst þeirra er enn þá svo mikil.

Gamla vinstri stjórnin færði út landhelgina úr 4 í 12 mílur og átti í höggi við breska flotann. Það gerðust dramatískir atburðir á miðunum í átökum varðskipa okkar við hina bresku bryndreka.

En svo komu tímabil, þegar hlé varð á málinu og efnahagsmál kröfðust úrlausnar. Gamla vinstri stjórnin bjó við eitt mesta góðæri 1958, sem þjóðin hafði lifað fram að þeim tíma. En samt missti hún algerlega stjórn á efnahagsmálum og fjármálum ríkisins, og það varð henni að falli. Vofan frá 1958 gæti einnig minnt ríkisstj. á óðaverðbólgu þá eins og nú og skattpíningu, sem þá var að vísu ekkert í samanburði við núverandi ástand. Vofan gæti minnt á erfiðleika í samningum við launþegastéttirnar og síðast, en ekki síst píslargöngu forsrh. á Alþýðusambandsþing.

Gamla vinstri stjórnin lifði tvö ár og nokkra mánuði. Núv. ríkisstj. hefur setið í tvö úr og nokkra mánuði, og henni hefur tekist að komast lengra en hinni fyrri og sökkva sér í fen verðbólgu og efnahagsvandræða, missa af sér allan vinstri blæ og skattpína þjóðina, svo að öll fyrri met eru slegin.

Vandræði ríkisstj. eru þó ekki öll talin enn. Einn af þingm. stjórnarliðsins, Bjarni Guðnason, reyndist fljótlega brokkgengur og sagði sig úr þingflokki SF, en hélt þó um skeið áfram að styðja ríkisstj. Í ræðu sinni í kvöld steig Bjarni í raun skrefið að fullu og sagði ríkisstj. upp hollustu með því að krefjast kosninga. Þetta þýðir, að ríkisstj. hefur ekki lengur meiri hl. í Nd. Þar standa atkv. 20:20. Ríkisstj. getur því ekki komið neinu frv. í gegnum deildir Alþ., nema einhver einn stjórnarandstæðingur a. m. k. komi til liðs við hana hverju sinni. Þegar Bjarni Guðnason gaf yfirlýsingu sína fyrir rúmum 20 mínútum, breyttist ríkisstj. Íslands úr meirihlutastjórn í minnihlutastjórn. Þetta er töluvert mikill pólitískur atburður.

Alþfl. lýsti því yfir við myndun ríkisstj., að hann mundi veita henni stuðning í öllum málum, sem væru í anda sannrar jafnaðarstefnu og horfðu til bóta fyrir land og lýð. Þetta hefur flokkurinn gert og gerir enn. Alþfl. hefur ekki látið við það sitja að gagnrýna ævintýralega meðferð varnarmála í höndum ríkisstj., heldur hefur flokkurinn bent á nýjar ábyrgar hugmyndir um lausn þeirra mála. Alþfl. hefur af einbeitni stutt þjóðareiningu í landhelgismálinu og tekið mikinn og virkan þátt í þeirri baráttu af heilum hug. Ábyrgari andstöðuflokk getur engin ríkisstj. beðið um. Hins vegar hefur Alþfl. vægðarlaust gagnrýnt óstjórn efnahagsmála, skattaáþján og margt annað, sem hefur komið ríkisstj. út á kaldan klaka, tekið af henni vinstri svipinn, að svo miklu leyti sem hann nokkru sinni var til, og sett á hana þau feigðarmerki, sem blasa við sjónum þjóðarinnar í dag.

Nú bendir allt til, að fram undan séu tímamót, og er það von mín, að í næsta þætti íslenskra stjórnmála standi allir jafnaðarmenn saman sem eitt afl með nýjan styrk og ferskan blæ, því að engin stjórnmálastefna er meira að skapi Íslendinga allflestra en jafnaðarstefnan og engin stjórnmálastefna uppfyllir drauma íslenskrar æsku eins vel og jafnaðarstefnan getur gert. Vaxtarbroddur stjórnmálanna á næstu árum verður sameinaður og sterkur Jafnaðarmannaflokkur Íslands, og vonandi mun þá betur ganga heldur en gengið hefur undanfarin tvö ár. — Góða nótt.