06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

363. mál, hafnaáætlun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vona, að ég sé ekki eini þm., sem farið er að lengja eftir hafnaáætlun. Þann tíma, sem ég hef setið á Alþ., sem er að vísu ekki langur, hef ég á hverju ári heyrt því fleygt, að nú ætti að fara að leggja fram hafnaáætlun og vinna skipulega að gerð hafna og taka upp svipaða vinnuhætti og tíðkast með vegáætlun, sem að mínu viti er til fyrirmyndar. Ég held, að við séum raunar allir sammála um, að þannig, á skipulegan hátt, her að vinna að þessum mikilvægu málum.

Það er rétt, að fjármagn til hafnarframkvæmda hefur verið aukið verulega upp á síðkastið. En þó hygg ég, að staðreyndin sé sú, að þörfin hafi aukist enn hraðar. Þörfin hefur aukist m. a. vegna þess, að til landsins hafa komið stærri og stærri skip, fjöldinn allur af skuttogurum og öðrum stórum skipum, sem raunar er illkleift að veita aðstöðu við fjölmargar af mikilvægustu fiskihöfnum þessa lands. Dæmin eru alls staðar í kringum okkur. Af þessari ástæðu held ég, að það sé orðið enn meira aðkallandi en áður var að vinna skipulega að þessum málum og tengja framkvæmdir í hafnamálum kaupum á stórum skipum og eflingu fiskiskipaflotans, sem ég hef nefnt.

Með tilvísun til þessa þótti mér ástæða til þess að ýta nokkuð við þessu máli og hef leyft mér að gera það með því að leggja fram fsp. til hæstv. samgrh., sem hljóðar þannig:

„1. Hvenær má gera ráð fyrir því, að áætlun um framkvæmdir við hafnir landsins verði lögð fyrir Alþ.?

2. Hvað tefur gerð umræddrar áætlunar?“