24.04.1974
Sameinað þing: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3501)

313. mál, bygging rannsóknarskips

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 718 á ég ásamt hv. 2. þm. Norðurl. e. till. um það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að leita nú þegar samninga um smíði hafrannsóknaskips af skuttogsgerð, 500 smálestir eða stærra, knúið af a.m.k. 2 þús. hestafla aðalvél.

Fyrr í vetur flutti ég þáltill. um leit að nýjum karfamiðum og lagði þar til, að leigt yrði skuttogskip nægilega stórt og aflmikið til slíkra veiða. Í grg. með þeirri till. kom fram, að við hefðum ekki yfir að ráða skipi nægilega öflugu og stóru til þess að stunda slíkar rannsóknir. Sú till. á vitanlega áfram rétt á sér, þótt þessi till. sé borin fram, þar sem gera má ráð fyrir því, að smíði slíks skips, eins og hér er um rætt, mundi taka a.m.k. 3 ár.

Það er alveg ljóst, að við erum allt of skammt á veg komnir um allar hafrannsóknir. Ég vil rifja það upp, að ég gerði fsp. til hæstv. sjútvrh. um framkvæmd á þáltill. um rannsóknir á fiskstofnum og skelfiski o.fl. við Austurland, og í svarræðu hans kom fram, að það mætti kenna því, sem á skorti um rannsóknir okkar, að við þyrftum á fleiri rannsóknarskipum að halda. Við þurfum á fleiru en auknum skipastól að halda. Þótt við séum vel menntir að því leyti, að við eigum mjög vel hæfa forustumenn á sviði hafrannsókna, þá skortir fleiri í þann hóp og sérstaklega skortir aðstoðarfólk.

Hér er lagt til að byggja nýtt hafrannsóknaskip, sem er ekkert smámál. Það er hundruð millj. kr. kostnaður því samfara, en spurningin er sú, hvort við getum ekki stóraukið hafrannsóknir með nýju og breyttu skipulagi, með því skipulagi t.d., að fjölgað yrði aðstoðarfólki, sem hægt væri að koma um borð í hin nýju skuttogskip okkar og fylgdist með veiðunum, tæki sýnishorn og hefði með höndum ýmsar rannsóknir, sem það ætti vel að geta gert, því að ærið pláss er þar að finna, ekki einungis fyrir einn mann heldur og það hafurtask, sem hann kynni að hafa með sér vegna rannsóknanna. Við getum aukið rannsóknirnar enn með því að gera skipstjórnarmönnum að skyldu að halda miklu nákvæmari skýrslur um sókn sína í hina ýmsu veiðistofna, á hvaða svæði þeir sækja t.d., með hvaða hætti hver afli er, um fiskigöngur almennt, um innihald fæðutegunda, sem fiskur á viðkomandi svæðum neytir, o.s.frv., o.s.frv. Allt þetta þarf að auka, vegna þess að undir öllu er komið, að við getum fylgst sem nákvæmlegast með fiskstofnunum við strendur landsins, fylgst með því, hversu mikla sókn við getum átt í þá, ekki til friðunar fiskstofna, eins og menn jafnan hafa í orði, heldur til verndunar þeim. Það er hart, ef við göngum þannig fram, að til þess þurfi að grípa að friða fiskstofna, eins og t.a.m. síldina. Það þurfum við að forðast með því að bregða nógu fljótt á það ráð að vernda þá.

Till. hljóðar um byggingu skips, sem er minnst 500 smálestir, búið a.m.k. 2 þús. hestafla aðalvél. Nú höfum við að undanförnu verið að fá til landsins hin nýju, stóru og öflugu skuttogskip, sem flest eru frá 400–500 smálestum upp í 1000 smálestir. Þessi skip eru gífurlega afkastamikil. Þeirra vegna megum við til með hið allra fyrsta að átta okkur á því, hvort fiskstofnarnir okkar þurfi ekki verndunar við vegna hinnar nýju og harkalegu sóknar í örfáa fiskstofna, sem þessi skip munu hafa í frammi.

Skipastóll okkar nú eru einvörðungu 4 skip. Nýjast er Bjarni Sæmundsson, sem þó reyndist við leit að hinum nýju karfamiðum t.d. hér langt vestur og suður af landinu allt of lítið bæði að stærð, sér í lagi þó að togafli. Árni Friðriksson, sem er 8 ára eða svo. Þá er Hafþór, sem nú er þannig kominn, að sennilega mundi borga sig best að leggja honum eða selja hann í brotajárn, því að viðgerð hans kostar það mikið, að talið er, að það muni ekki svara kostnaði, og enn fremur litið skip, 70 smálestir eða svo, sem nýlega hefur verið keypt. Við þurfum umfram allt að halda áfram jafnri og ákveðinni þróun um byggingu á rannsóknarskipum. Það eru allir sammála um það, að við erum langt frá því nægjanlega vel búnir tækjum til þess að stunda þær hafrannsóknir, sem okkur ber lífsnauðsynlega til að stunda. Þetta er dýrt fyrirtæki, það er að vísu rétt, en það eru þó hreinir smámunir á borð við það, sem í húfi kynni að vera ella, ef okkur tekst ekki að afla þeirra upplýsinga um fiskstofnana í kringum strendur landsins, sem okkur eru nauðsynlegar.

Vissulega er það stórt átak, sem gert var með kaupum á Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni. Skip þessi eru dýr, vegna þess að þau þurfa að vera búin öllum nýjustu tækjum, en eins og ég sagði eru það hreinir smámunir á borð við það, sem í húfi er að hinu leytinu. En aðalforsenda þess, að við getum talið okkur eiga siðferðisrétt á stórstækkaðri landhelgi, er sú, að við reynumst menn til þess að gæta þeirra lífvera, að ekki farist og eyðist, sem á því hafsvæði lifa og tímgast. Ef við sýnum, að við erum ekki menn til þess að ávaxta það pund, þá missum við um leið allan siðferðisrétt til þessara fiskimiða. Og við berum ábyrgð gagnvart miklu fleirum en sjálfum okkur. Við berum ábyrgð gagnvart öllum þeim, sem þurfa að neyta þessarar mikilvægu fæðu, sem á þessum miðum finnst.

Ég er sannfærður um það, að menn skilur ekki á um það, að nauðsyn sé á þegar í stað að ráðast í samninga um smíði á slíku hafrannsóknaskipi, og ég vænti þess, að þessi till., þótt seinborin sé á þessu þingi, fái sem allra skjótasta framgöngu, því að málið er eitt af því allra brýnasta. Hér er aðeins einn þáttur málsins. Við þurfum miklu fleiri skip. Við þurfum einnig smærri skip, sem geta stundað rannsóknir á öðrum sviðum og grynnra. Við þurfum aukinn mannafla til þess arna og megum í raun og veru ekkert til spara í þessum efnum.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þegar þessari fyrri umr. lýkur, verði þessu máli vísað til hv. fjvn.