06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

363. mál, hafnaáætlun

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég get undirstrikað margt, sem hv. 1. þm. Vestf., fyrirspyrjandi, sagði um hafnamálin almennt. Hitt er kannski ekki alveg nákvæmt hjá honum, að á síðari árum hafi algerlega skort áætlanir um hafnarframkvæmdir, því að við höfum haft þær allt frá árinu 1968, en þá var gerð áætlun um hafnarframkvæmdir, sem átti að gilda frá því ári til 1972, að báðum árum meðtöldum. Ýmislegar ráðstafanir urðu til þess, að sú áætlun var ekki framkvæmd fullkomlega og ekki nándar nærri, en aðalástæðuna verður þó að telja, að með mjög versnandi hag þjóðarbúsins á árunum 1968 og '69 hafði þáv. ríkisstj. forgöngu um mjög mikinn samdrátt í öllum verklegum framkvæmdum. Þess vegna er það svo, að ennþá á því ári, sem nú er að liða, árinu 1973, hefur að verulegu leyti verið unnið eftir þessari gömlu fjögurra ára áætlun. Að sjálfsögðu hafa orðið ýmsar breytingar á viðhorfum, sem tekið hefur verið tillit til jafnóðum, utan þessarar áætlunar.

Á árinu 1972 hefði átt að leggja fram nýja áætlun fyrir tímabilið 1973–1976, en á sama tíma kom fram frv. að nýjum hafnalögum, sem hafði í för með sér verulegar breytingar á þátttöku ríkisins í kostnaði og nokkrar aðrar mjög þýðingarmiklar breytingar, ef að lögum hefði þá orðið, og sjálfsagt þótti að taka tillit til þess við nýja áætlunargerð. Var þess vegna frestað að setja fram áætlun fyrir tímabilið 1973–1976, en unnið var á Hafnamálastofnun ríkisins að öllum undirbúningi og öflun gagna í því sambandi. Hafnalagafrv. var ekki samþ. á því þingi, 1972, og var því fyrst á yfirstandandi ári, að það náði fram að ganga. Á grundvelli þeirra gagna, sem safnað hafði verið, og eldri áætlana, voru gerðar till. um fjárveitingar árið 1973, og hefur að mestu verið unnið samkv. þeim á yfirstandandi ári.

Eftir samþykkt hafnalaganna var tekið til óspilltra mála, vil ég segja, við gerð fjögurra ára áætlunar, og nær hin nýja áætlun yfir árin 1973, 1974, 1975 og 1976. Áætlun þessi verður ekki tilbúin í endanlegu formi nú fyrir gerð fjárl. fyrir árið 1974, en í öllum verulegum atriðum munu liggja fyrir helstu till, og helstu þarfir næstu ára. Verður við gerð fjárl. höfð hliðsjón af þeim drögum að áætlun, sem nú þegar liggja fyrir. Vonast er til, að áætlunin verði tilbúin að leggjast fyrir Alþ. seinni part vetrar í endanlegu formi og þá þannig, að fastáætlaðar verði framkvæmdir ársins 1974, en framkvæmdir áranna 1975 og 1976 verði e. t. v. lausari í reipum og teknar saman undir eitt. Er síðan gert ráð fyrir, að sú áætlun verði endurskoðuð fyrir fjárlagagerð fyrir árið 1975 og þá sundurliðuð til tveggja ára. Jafnframt verði aukið við áætlunina, þannig að árin 1977 og 1978 verði tekin með, og þannig haldið áfram endurskoðun á tveggja ára fresti.

Þá er spurt, hvað hafi tafið áætlanir. Væri þar sjálfsagt margt hægt að tína til, en ég vil segja, að meðal þeirra vandamála, sem þar hefur verið við að etja, hefur verið m. a. mannaflaskortur á hafnamálaskrifstofunni, sem nú hefur að nokkru leyti verið bætt úr og ég vona, að beri árangur. En kannski er ekki síst um það að ræða, að í raun og veru hefur ekki verið til nein fullkomlega samræmd byggðastefna. Hún hefur ekki verið fyrir hendi og þar með ekki neinar fastar áætlanir um uppbyggingu eða verkaskiptingu byggðarlaga nema í pörtum.

Loks er svo þess að geta, að fjárveitingavaldið hefur skammtað framkvæmdahraðann, eins og ég kom að nokkru leyti inn á áður. Í samræmi við það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, hefur þeirri spurningu, hvað mikið þjóðarbúið geti lagt til hafnarframkvæmda, ekki verið svarað fullkomlega í samræmi við þarfirnar, eins og þær hafa verið. Allra síst nú á seinni árum, með tilkomu hins nýja flota, sem er að koma til landsins, hafa hafnarframkvæmdir verið nálægt því samstiga þeirri framför og þeirri byltingu sem hefur orðið í útgerðinni. En sannleikurinn er sá, að Hafnamálastofnun ríkisins hefur nægar upplýsingar um þarfir hafnanna, en vegna þess, hve fjármagn hefur verði takmarkað, er oftast nær mjög erfitt verk, — og það veit ég, að þeir vita best, sem í fjvn. starfa, — að hraða framkvæmdum þannig, að allir uni sæmilega við, vegna þess að yfirleitt eru ekki óskir um annað en það, sem á nokkurn og venjulegast fullan rétt á sér.