06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

363. mál, hafnaáætlun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh, greinargóð svör. Sérstaklega vil ég fagna því, að nú virðist kominn nokkur skriður á þessa áætlunargerð, jafnvel svo, að við fáum að sjá hana á þessu þingi. Ég veit, að hæstv. ráðh. er allur af vilja gerður til þess, að svo megi verða, og ég treysti því, að honum megi takast það. Ég geri mér grein fyrir því, að eitt sinn var lögð fram áætlun. Mér hafði hins vegar skilist, eins og reyndar kom fram hjá hæstv. ráðh., að eftir henni hefði lítið verið unnið. Ég leit því svo á, að hún hefði raunar aldrei komið til framkvæmda.

Eitt er það atriði, sem ég vil minnast á, sem gerir kröfur manna um landið um slíka áætlun háværari í dag en áður var. Það eru hin stóru lán, sem tekin hafa verið til hafnarframkvæmda á Suðurlandi. Ég er út af fyrir sig alls ekki að að áfellast þá lántöku, þótt ég geti ekki annað en tekið undir með manninum í sjónvarpinu í gærkvöld, sem taldi það furðulegt, ef þetta lán væri tekið vegna Vestmannaeyja, sem búa nú við einhverja bestu höfn á landinu. Eflaust hefur verið rík ást eða til þess að þiggja lánið. Þetta eru hagstæð lán, og þeim er varið til framkvæmda, sem við erum allir sammála um, að eru ákaflega mikilvægar. En hins vegar verður það eðlileg spurning við fiskihafnir um land allt, sem búa við gífurlega erfiðleika og þar sem ekki er síður borið á land stórkostlegt aflaverðmæti, hvenær röðin komi að þeim. Ég hygg því, að m. a. af þessari ástæðu, auk þess, sem ég hef áður nefnt um endurnýjun fiskiskipaflotans og þá aðstöðu, sem í því sambandi þarf að skapast, verði það ófrávíkjanleg krafa landsmanna við fiskihafnir landsins, að þeir fái að sjá, hvenær röðin komi að þeim.