29.04.1974
Efri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3965 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

272. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr. og afgreiðslu, fjallar um breyt. á l. um meðferð opinberra mála. Þegar frv. til l. um meðferð opinberra mála var til umr. á síðasta þingi, var það frv. afgr. með ákvæði til bráðabirgða, sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Réttarfarsnefnd skal falið að endurskoða réttarstöðu fulltrúa saksóknara ríkisins með hliðsjón af réttarstöðu og lögkjörum hliðstæðra ríkisstarfsmanna og ljúka endurskoðuninni það tímanlega, að unnt verði að leggja fram frv. um það efni í byrjun næsta þings.“

Til þess að fullnægja þessu ákvæði var lagt fyrir svokallaða réttarfarsnefnd að íhuga þetta málefni, og niðurstaða n. liggur hér fyrir í frv.- formi. Frv. felur fyrst og fremst í sér þá breyt., að embættisheiti saksóknara ríkisins verði breytt, og er till. um, að heitið verði ríkissaksóknari. Þessi breyting er gerð með tilliti til þess, að þetta stöðuheiti samsvarar því, sem gerist á Norðurlöndum, og auk þess fellur það mjög vel að málinu.

Þá er ennfremur gert ráð fyrir í frv., að skipaður verði sérstakur vararíkissaksóknari, sem verði m.a. staðgengill ríkissaksóknara í fjarveru hans og vinni að öðru leyti að þeim málum, sem til hans kasta koma í embættinu.

Þá er einnig í frv. gert ráð fyrir því, að dómsmrh. hafi heimild til þess að skipa einn eða tvo saksóknara, ef þörf krefur, við málflutningsstörf fyrir Hæstarétti, þ.e.a.s. þegar svo miklar annir eru hjá ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara, að þeir komast ekki yfir flutning mála.

Þetta er höfuðinntakið í frv. Svo eru ýmsar smærri breyt. gerðar á l., þar sem reynslan hefur leitt í ljós, að rétt sé að gera á breytingar.

Allshn. sendi þetta frv. til umsagnar saksóknara, og hann mælir með samþykkt þess. Þá var það enn fremur sent til umsagnar Hæstarétti, en Hæstiréttur vildi ekki gefa álit út af sinni hálfu um efni frv. Og í þriðja lagi var frv. sent til fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Ég vil aðeins fara örfáum orðum um þá umsögn eða réttara sagt lesa upp nokkur atriði úr þeirri umsögn Þar segir m.a.:

„Þegar embætti héraðsdómara voru stofnuð með lögum árið 1972, nr. 74, var sett bráðabirgðaákvæði, sem kveður svo á, að við þau héraðsdómaraembætti, þar sem héraðsdómurum er fjölgað samkv. l. þessum, skuli jafnmargar fulltrúastöður lagðar niður.“

En í umsögninni er tekið fram, sem rétt er, að ekkert slíkt ákvæði fylgir með í þessu frv. Fjárlaga- og hagsýslustofnunin lítur svo á, að verði menn í stöður vararíkissaksóknara og saksóknara ekki valdir úr starfsliði embættisins, heldur komi til embættisins utan frá, sé stefnt að viðbót á mannafla þessa embættis og þar með auknum kostnaði. En hins vegar er getið um það, sem líka er rétt, að ef hinn nýi mannafli kæmi beint ár embættinu sjálfu, þ.e.a.s. fulltrúar yrðu skipaðir í embættin, yrði kostnaður ekki tilfinnanlegur. En sé gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna, hefur fjárlaga- og hagsýslustofnunin reiknað út, hver mundi nánast verða hinn aukni kostnaður, ef allar heimildir samkv. frv. yrðu notaðar til fulls. Og stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu, að líklegt yrði, að heildarkostnaður með núv. verðlagi mundi nema allt að 5 millj. kr. á ári.

Eitt mikilvægasta embætti í okkar landi er að sjálfsögðu það embætti, sem frv. fjallar um, saksóknaraembættið, og eðlilega þarf þar af leiðandi að tryggja vel, að þau störf, sem þar til falla, séu sem best af hendi leyst. Um það er enginn ágreiningur.

Frv. veitir aðeins heimild til þess að fjölga saksóknurum, en skilyrðislaust ákvæði er um, að vararíkissaksóknari skuli skipaður. Nú verður að gera fyllilega ráð fyrir því, að þrautvanir fulltrúar, sem starfa við embættið, mundu að öðru jöfnu og framar öðrum, þegar til kemur, verða settir í hin nýju embætti, sem frv. fjallar um. Þannig mundi mannafli að þessu leyti við embættið aðeins flytjast til. Ég sagði, að það mætti gera fyllilega ráð fyrir því, að svo yrði, ef heimildir yrðu notaðar af hálfu dómsmrh. Ég held þess vegna, að það hafi verið rétt álitið af allshn., að þrátt fyrir þessa umsögn frá Fjárlaga- og hagsýslustofnuninni, sem auðvitað á rétt á sér og var eðlilegt að kalla fram, þá eigi hún ekki við að því leyti að hefta e.t.v. framgang þessa frv. Það verður að ætla, að viðkomandi ráðh. hafi glöggt auga fyrir því, að þarna séu ekki notaðar heimildir nema í ítrustu nauðsyn. Þetta var skoðun okkar í allshn.

En eina brtt. vildum við í n. gera, og hún fylgir í nál. og er við 4. gr. frv., 5. mgr. Frv. gerir ráð fyrir því, að dómsmrh. hafi heimild til að skipa einn eða tvo saksóknara, ef ríkis saksóknari og vararíkissaksóknari anna eigi flutningi mála. Í frv. segir þannig: „anna eigi flutningi mála fyrir Hæstarétti“, en við í n. gerum þá brtt., að í stað „fyrir Hæstarétti“ komi: fyrir dómi.

Þessi brtt, okkar byggist á því, að samkv. ákvæðum sjálfra l. um saksóknara hvílir jafnrík málflutningsskylda á ríkissaksóknara fyrir héraðsdómi sem fyrir Hæstarétti. N. þótti óeðlilegt, miðað við þessi ákvæði l. að kveða aðeins á um flutning mála af hálfu saksóknara fyrir Hæstarétti. Og það verður að segja eins og er, að sá, sem flytur mál af hálfu saksóknaraembættisins fyrir Hæstarétti, er betur undir búinn að vinna það verk, ef hann hefur áður unnið það fyrir héraðsdómi. Þessi eru rökin fyrir því, að n. leyfir sér að flytja þessa brtt.

Allshn. hefur samþ. að mæla með frv. með þeirri breyt., sem ég hef vikið að. Ég verð að geta þess, að fjarstaddir afgreiðslu málsins voru þm. Eggert G. Þorsteinsson og Geir Gunnarsson.