07.11.1973
Efri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

69. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, voru sett lög á s. l. ári um löndun á loðnu til bræðslu. Þar var ákveðið skipulag tekið upp á því, hvernig löndun á loðnu skyldi háttað á loðnuvertíðinni. En þau lög, sem þá voru sett, giltu aðeins í eitt ár, og verður því að setja ný l. fyrir næstu áramót, ef ætlunin er að halda áfram svipuðu skipulagi og haft var á loðnulöndun til bræðslu á síðustu loðnuvertíð. Það var alltaf gert ráð fyrir því, að það skipulag, sem ákveðið var með lögum á síðasta þingi, yrði til reynslu og síðan yrðu lögin tekin til endurskoðunar og reynt að draga ályktanir af reynslunni og gera þá breytingar, eftir því sem þörf þætti vera á.

Í rauninni er það svo með þetta fyrirkomulag, að það byggist fyrst og fremst á samstarfi þeirra aðila, sem hér eiga mestan hlut að, þeirra, sem veiða og selja loðnuna til bræðslu, og hinna, sem kaupa. En síðan hafa einnig verið menn frá sjútvrn. í þeirri nefnd, sem með skipulagninguna á þessu máli hefur haft að gera.

Nú er lagt fram frv., sem samið er af þeim aðilum, sem höfðu með framkvæmdina að gera, eða þeim aðilum, sem hér áttu mestra hagsmuna að gæta og höfðu allan tímann náið samstarf sín á milli um framkv. í þessum efnum. Það var haft samráð við þá á ný og skipuð sérstök 5 manna n. til þess að endurskoða l. og semja nýtt frv. Það frv., sem hér liggur fyrir, er sem sagt samið af þessari samstarfsnefnd aðila, og það er flutt hér eins og það kom frá þessari nefnd.

Það má segja, að í þessu frv. sé ekki gert ráð fyrir miklum efnisbreytingum frá því skipulagi, sem ákveðið var á síðustu vertíð og ég hygg, að flestir eða allir viðurkenni, að hafi skilað góðum árangri, þegar litið er á heildina. Þó er hér um nokkur atriði að ræða, eins og segir í grg. frv.

Fellt er niður úr 2. gr. l. ákvæði, sem sett hafði verið inn af þinginu, þegar lögin voru sett um þetta efni, og atriðið, sem fellt er niður, hljóðar þannig: „Eigi er heimilt að stöðva löndun í verksmiðju, meðan móttökuskilyrði eru fyrir hendi.“ Það var álit manna, þegar löggjöf var sett um þetta efni, að rétt væri að taka af allan vafa um það, að löndun í verksmiðju væri heimil, ef fyrir hendi væru tvímælalaus skilyrði til þess að taka við loðnunni, sem sagt, að vald n. næði ekki svo langt, að hún gæti ákveðið stöðvun á móttöku, þar sem móttökuskilyrði væru fyrir hendi. Nú virðist það vera till. þessara aðila, að þessar hömlur, sem var að finna í l. verði felldar niður, þannig að n. fái einnig vald til þess að stöðva löndun, þó að svo standi á, að móttökuskilyrði séu fyrir hendi á viðkomandi stað. Vænti ég, að sú n., sem fær málið til athugunar, athugi þetta gaumgæfilega. Ég fyrir mitt leyti dreg í efa, að svona langt eigi að ganga í skipulagningunni, að þetta vald eigi að nota. Þó kann það að vera í einstökum tilfellum, að það geti verið réttlætanlegt, að n. hafi þetta vald. En hér er samt sem áður verið að gera ráð fyrir valdbeitingu, sem að mínum dómi er fremur hæpin.

Þá segir einnig í grg. frá þessari n., að í þessu frv. sé gert ráð fyrir skýrari ákvæðum en í gildandi l. um ýmis framkvæmdaatriði og einnig varðandi sektarákvæði eða refsiákvæði, þegar um brot á l. er að ræða. Það tel ég fyrir mitt leyti allt vera til bóta og er því út af fyrir sig samþykkur.

Ég held, að það hafi sýnt sig á síðustu loðnuvertíð, að það skipulag, sem ákveðið var þá, hafi gefist mjög vel, hafi hreinlega orðið til þess, að veiðiflotinn nýttist betur en ella hefði orðið, og bæði útgerðarmenn og sjómenn hafi verið ánægðir, þegar á heildina er litið, með framkvæmdina á l. Ég held líka, að það sé samdóma álit verksmiðjueigenda, að hér hafi vel tekist til, þó að nokkrir árekstrar hafi að sjálfsögðu orðið, en ég held, að þetta sé almennt viðurkennt. Það er mín skoðun, að það sé brýn þörf á því að fá löggjöf um þetta atriði fyrir næstu áramót. Ég legg því áherslu á, að þetta frv. geti fengið greiða afgreiðslu, og vona, að svo geti orðið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða hér málið frekar á þessu stigi, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til sjútvn. til fyrirgreiðslu.