07.11.1973
Efri deild: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

69. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þeim athugasemdum, sem hér koma fram, taka undir það, að sjútvn. deildarinnar, sem fær málið til athugunar, íhugi það, hvort ekki geti komið til mála að greiða einnig styrki úr flutningasjóði, þegar um landflutninga er að ræða, því að vissulega getur staðið svo á, að slíkir flutningar gætu greitt verulega fyrir. En mér er ljóst, að hér er líka um nokkurt viðkvæmnismál að ræða, því að loðnuflutningasjóður er byggður upp þannig, að tiltekið verð er raunverulega tekið bæði af þeim, sem selja loðnuna, þ. e. a. s. skipum og sjómönnum, og einnig af hinum, sem kaupa hana, og lagt í þennan sjóð, og þá hefur í aðalatriðum verið gengið út frá því, að þetta fé rynni til þessara aðila aftur í formi aukinna flutningastyrkja til skipanna. En hér er um slíkt hagsmunamál þessara aðila að ræða, að mestu máli skiptir þó að greiða fyrir veiðimöguleikum skipanna og ekki sé verið að knýja þau til þess að vera að fara lengri leið hverju sinni en þörf er á, heldur að koma verðmætinu til skila með sem bestum hætti. Ég tek undir það, að þetta verði athugað, en að sjálfsögðu verður að taka ákvarðanir um þetta í nánu samráði við þá, sem hér eiga nánastan hlut að.