29.04.1974
Neðri deild: 112. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3972 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Við umr. málsins hér í d. í fyrri viku var spurst fyrir um það, hvort fjh.- og viðskn. hafi sent þetta mál til umsagnar til Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég var ekki viðstaddur á fundinum og gat ekki svarað þessu þá.

N. sendi málið ekki til umsagnar til Sambands ísl. sveitarfélaga. Hins vegar hefur n. nú borist bréf frá sambandinu, þar sem það tjáir sig um þetta mál, eða framkvstj. fyrir hönd þess. Þetta bréf er dags. í dag, 29. apríl. Ég vil gjarnan fá tækifæri til að kynna viðhorf Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir hv. dm. og vil með leyfi hæstv. forseta lesa umsögnina. Hún er á þessa leið:

„Hér er um að ræða niðurgreiðslu á verði tiltekinnar vöru. Hingað til hefur ríkið haft með slík mál að gera í sambandi við höfuðdreifendur vöru, sbr. niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum. Sveitarfélögin hafa engin afskipti haft af niðurgreiðslumálum. Í frv. er því gert ráð fyrir stefnubreytingu í tilhögun þessara mála. Það er ljóst, að sú niðurgreiðsluaðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, þ.e. endurgreiðsla beint til neytenda, er bæði flóknari og dýrari en sú aðferð, sem hingað til hefur verið beitt í sambandi við niðurgreiðslur. Einnig er ljóst, að mörg vafatilvik hljóta að koma upp við framkvæmd l. Það virðist vera lagt á vald sveitarstjórna að meta, hvaða íbúar sveitarfélags búa við olíuupphitun. Í því sambandi virðist ekki muni verða unnt að miða við íbúaskrá sveitarfélagsins óbreytta, hvorki varðandi lögheimili né dvalarheimili. Hvað t.d. með ungling, sem er fjarverandi í skóla eða við vinnu í öðru sveitarfélagi? Hvað með þá, sem eru fjarverandi í sumarleyfum eða dvelja á sjúkrahúsum? Á að draga þann tíma frá, sem þeir eru fjarverandi heimili sínu eða sveitarfélaginu? Ótalmörg önnur vafaatriði hljóta að skjóta upp kollinum við framkvæmd l. Samkv. frv. eru lögð ný verkefni á þau sveitarfélög, þar sem ekki eru hitaveitur, þ.e. að láta viðskrn. í té skýrslur um, hve margir íbúar sveitarfélags búa við olíuupphitun, og að úthluta styrkjum til framteljenda til skatts vegna þeirra, maka þeirra og barna. Ljóst er, að hér er um allviðamikið verkefni að ræða. Af ákvæðum frv. verður ekki ráðið, að sveitarfélög eigi að fá nokkra þóknun fyrir þessi störf. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga er samþykk tilgangi frv., en með tilvísun til framanritaðs getur stjórnin ekki mælt með samþykkt frv. í þeirri mynd, sem það er nú.“

Þannig hljóðar umsögnin, og undir þetta ritar Magnús E. Guðjónsson framkvstj. sambandsins. Þetta bréf hefur ekki verið rætt í fjh: og viðskn., því að n. var búin að skila áliti, áður en það var skrifað. Ég vil aðeins leyfa mér fyrir mína parta að segja eftirfarandi í framhaldi af þessari kynningu á afstöðu stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga:

Hér hafa einkum komið fram tvær hugmyndir um ráðstöfun þess fjár, sem inn kemur og ætlað er til að greiða niður olíuverð. Annars vegar er sú hugmynd, sem felst í frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir d., þ.e.a.s. um, að sveitarfélögin komi þarna til hjálpar við að koma niðurgreiðslunum til skila. Hins vegar er svo sú hugmynd, sem nokkrir þm. hafa reifað hér og talað fyrir, að greiða olíuverðið niður á húsahitunarolíunni og þar með að fela olíufélögunum að annast verkið í gegnum niðurgreiðslur. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök, sem hér hafa verið flutt með og móti þessum leiðum tveim, en vil aðeins segja það, að ég er persónulega hlynntur þeirri stefnu, sem í frv. felst, og þarf ég raunar ekki að taka það fram, því að það hefur komið fram í nál., sem ég hef undirritað.

Ég held, að flestir hv. dm. séu þeirrar skoðunar, að hér hljóti að verða um stutts tíma ráðstöfun að ræða, að þetta geti ekki orðið fyrirkomulag til langframa. Það er skoðun mín, að það sé eðlilegra að leggja þá ábyrgð, það ómak og þann kostnað, sem hlýst af framkvæmd málsins, að svo miklu leyti sem það getur ekki komið á ríkið og starfsmenn þess beint, — þá tel ég af augljósum ástæðum eðlilegra að leggja ábyrgðina, ómakið og kostnaðinn á sveitarfélögin fremur en olíufélögin.