29.04.1974
Neðri deild: 113. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

292. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Geirþrúður H. Bernhöft:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að koma með brtt. við brtt. þá, sem flutt var hér áðan og er frá fjh.- og viðskn. Hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta.

„Á eftir orðunum „sem býr við olíuupphitun“ komi: Þó skulu lífeyrisþegar, sem njóta bóta samkv. 19. gr. l. um almannatryggingar, fá greiddan styrk, sem nemur 11/2 styrk einstaklins.“

Ég vil byrja á því að þakka hv. fjh: og viðskn. fyrir þessa brtt., en með þessari brtt. sýnir hv. fjh.- og viðskn., að einhugur ríkir í n. um, að taka beri sérstakt tillit til þeirra þegna þjóðfélagsins, sem við bágust kjör búa meðal elli- og örorkulífeyrisþega, með því að veita þeim þeirra, sem nota olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis, 50% hærri styrk en öðrum. En því miður er sá galli á þessari brtt., að vísað er til 19. gr. l. um almannatryggingar til að ákveða nánar, hvaða lífeyrisþegar það séu, sem þess skulu njóta, en upphaf 19. gr. l. um almannatryggingar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú eru tekjur elli- eða örorkulífeyrisþega lægri en 120 þús. kr. á ári,“ — að vísu eru komnar aukatölur ofan á þetta síðan, — „og skal þá hækka lífeyri hans um það, sem á þá fjárhæð vantar. Sama gildir um hjónalífeyri, eftir því sem við á. Heimilt er að greiða frekari uppbót á elli- og örorkulífeyri, ef sýnt þykir, að lífeyrisþegi geti ekki komist af án þess.“

Með því að vísa til 19. gr. l. um almannatryggingar er það beinlínis tekið fram, að aðeins þeir, sem lifa á lífeyrisfé eingöngu, skuli fá greiddan fyrrnefndan styrk. Nú er alltaf nokkuð stór hópur lífeyrisþega, sem fær synjun um hækkun lífeyris, þar sem umsækjandi hefur auk grunnlífeyris aðrar tekjur, t.d. smálaunatekjur eða eftirlaun úr lífeyrissjóði. Í mörgum tilfellum hefur sá lífeyrisþegi, sem fær synjun á hækkun lífeyris samkv. 19. gr. l. um almannatryggingar, svipaðar heildartekjur og þeir lífeyrisþegar hafa, sem hafa hækkaðan lífeyri samkv. 19. gr.

T.d. mætti nefna hér dæmi ellilífeyrisþega. Við skulum kalla hann Jón. Jón hefur grunnlífeyri í Tryggingastofnun ríkisins eins og lög heimila, auk þess hefur hann létta vinnu hluta úr degi. Hann er alsæll að hafa vinnuna, að komast út meðal starfsfélaganna daglega. Þótt starfskraftar séu farnir að þverra, finnst honum það mikill munur að hafa vinnu hluta úr degi og vill ekki með nokkru móti missa vinnuna. Jón fær laun svipuð og hann hefur í ellilífeyri. Samtals hefur Jón því í laun sömu upphæð og sá, sem nýtur ellilífeyris með tekjutryggingu og fullri upphót, þ.e.a.s. þann ellilífeyri, sem ellilífeyrisþeginn hefur möguleika að fá samkv. 19. gr. l., ef hann hefur engar aðrar tekjur. Ef Jón hefði ekki unnið, en haft eftirlaun, þá hefði honum verið synjað um tekjutryggingu og uppbót lífeyris, og hafi hann vinnu, þá er honum einnig synjað. Þar sem ég tel útilokað að refsa nokkrum manni fyrir að vilja vinna, eftir því sem starfskraftar leyfa, eða fyrir að hafa lág eftirlaun, leyfi ég mér að bera fram þá brtt. við a-lið 2. gr. frv. til I. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða og í áframhaldi af þeirri brtt., sem hér er komin fram, að við bætist:

„Á eftir orðunum „samkv. 19. gr. l. um almannatryggingar“ komi: og aðrir lífeyrisþegar, sem hafa svipaðar heildartekjur.“

Ég tel, að hér sé um réttlætismál að ræða, og vonast því til, að sami einhugur ríki hér meðal hv. þm. og sýnilega hefur ríkt meðal nm. í hv. fjh- og viðskn. Það er skoðun mín, að hv. fjh.og viðskn. hafi með síðustu brtt. ætlað sér að bæta hag þeirra lífeyrisþega, sem minnst hafa á milli handa, en hins vegar hafi af vangá fallið niður að minnast sérstaklega á þá lífeyrisþega, sem hafa sömu heildartekjur og lífeyrisþegar samkv. 19. gr. l. um almannatryggingar, en þær komi bara úr tveim stöðum. Tel ég það réttlætismál. Allir hljóta að vera sammála um, að það er ekki hægt að refsa nokkrum manni fyrir að vilja vinna svo lengi sem hann hefur möguleika til þess.