29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

15. mál, orkulög

Frsm. minni hl. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hæstv. iðnrh. sagði, þegar málið var til umr. fyrir nokkrum dögum. Hæstv. ráðh. furðaði sig á vinnubrögðum minni hl. iðnn., eins og hann orðaði það, og vildi gefa í skyn, að það væri raunverulega mófisögn í málflutningi mínum og niðurlagi nál. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh. Það er fullkomið samræmi í þessu. Í niðurlagi nál. er sagt:

„Með tilliti til þess; sem fram hefur komið í málinu, þykir minni hl. iðnn. ekki fært að samþykkja frv., en telur nauðsynlegt að taka málið til frekari yfirvegunar og athugunar. Leggjum við undirritaðir því til, að frv. verði vísað til ríkisstj, til endurskoðunar, sem færi fram í samráði við Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Samband ísl. sveitarfélaga. Endurskoðuninni mætti ljúka áður en næsta reglulegt Alþingi tekur til starfa á komandi hausti.“

Það, sem minni hl. iðnn. vill gera, er að taka tillit til umsagna þeirra, sem hafa borist bæði frá Búnaðarfélagi Íslands, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og frá þriðja aðila. Þessar umsagnir eru prentaðar með nál. Það, sem minni hl. á við, er, að það sé ekki viðeigandi að samþykkja frv. gegn mótmælum þessara aðila, sem eiga hlut að máli og sérstakra hagsmuna að gæta. Það er miklu frekar eðlilegt að endurskoða frv. og leita eftir því að fá samkomulag við þessa aðila, fá samkomulag við þá um að taka þá annmarka úr frv., sem þeir eru helst á móti. Það er ekki lagður þyngri dómur á þetta frv. hæstv. ríkisstj. en það, að haft sé samráð og tekið tillit til þeirra aðila, sem hér eiga sérstaklega hagsmuna að gæta. Þetta hefði ég haldið, að allir gætu veríð ásáttir með.

Hæstv. ráðh. talaði um, að nauðsynlegt væri að lögfesta frv. eins og það er, til þess að það spillti ekki fyrir framkvæmdum, sem á döfinni eru, eða rannsóknum, sem nauðsynlegt er að flýta og gera. Það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, var, að rannsóknir hefðu ekkert tafist undanfarin ár vegna þess, að háhitasvæði hafi verið í eigu félaga, sveitarfélaga eða einstaklinga. Það er ekki hægt að nefna neitt dæmi um það, og það er ekki heldur hægt að nefna neitt dæmi um, að það hafi tafið fyrir skipulegum vinnubrögðum, að allt háhitasvæðið var ekki í ríkiseign. Það er ekki heldur hægt að nefna neitt dæmi um það, að framkvæmdir, sem gerðar hafa verið í orku- eða hitaveitumálum, hafi orðið tiltakanlega dýrari vegna þess, að landið eða orkan var ekki í ríkiseign.

Bæði ég og hæstv. ráðh. metum mikils það, sem Orkustofnunin segir, og það er vitað mál, að Orkustofnunin hefur best og gleggst yfirlit í þessu efni öllu saman. Ég las upp úr ársskýrslu Orkustofnunar frá 1973, þar sem talað er um eitt stærsta háhitasvæðið, sem er ekki í ríkiseign, heldur í einkaeign, og í skýrslu Orkustofnunar segir, að það hafi engin afgerandi áhrif á hagkvæmni framkvæmda, þótt það sé í einstaklingseign eða félagseign og þurfi að borga eitthvað fyrir.

Það, sem er um að ræða, þegar talað er um að lögfesta þetta frv. óbreytt er það, hvort eigi að fá þessi landsgæði fyrir lægra verð en greiða þyrfti fyrir það, ef farið væri eftir núgildandi eignarnáms- eða leigunámslögum. Ég held, að það sé rétt, sem Búnaðarfélag Íslands segir, að eðlilegt sé að fara eftir gildandi lögum í þessu efni, það tryggir algjörlega hagsmuni almennings í þessu efni og þess vegna sé ekki nein nauðsyn á að breyta gildandi lagaákvæði. Hins vegar er með orkulögin eins og aðra löggjöf, að til þess að fylgjast með tímanum og breyttum staðháttum má vel vera, að eðlilegt sé að endurskoða gildandi orkulög, ekki bara í einu atriði, heldur yfirleitt. Þess vegna teljum við í minni hl. eðlilegt, að endurskoðun frv. fari fram í samráði við þá aðila, sem ég áður nefndi. Leiði hún til þess, að ekki þyki ástæða til að breyta lögunum, það þyki engin ástæða til að lögfesta þetta frv., hvorki breytt né óbreytt, þá ætti Alþingi að geta fallist á það og hæstv. ráðh. einnig.

Það er því ekki eðlilegt, að hæstv. ráðh. snúist gegn þeim till., sem við í minni hl. höfum sett fram í þessu efni. Við erum á móti frv., á meðan það brýtur algjörlega í bága við þá aðila, sem mest hafa um það að segja. En við getum orðið með frv., eftir að það hefur verið endurskoðað með þeim hætti, sem við leggjum til, að gert verði, ef ástæða þykir til að endurskoðuninni lokinni að breyta orkulögunum.

Ég held, að hæstv. ráðh. og hv. alþm. ætti að lesa þær umsagnir, sem komið hafa, og kynna sér þetta mál betur. Mér finnst leiðinlegt til þess að vita, að meiri hl. iðnn. hefur gert till. um að frv. verði samþykkt næstum óbreytt. Ég hefði talið, að menn gætu sameinast um að leiða saman þá, sem sent hafa umsagnir í þessu máli, og leita eftir samkomulagi. Hér er áreiðanlega um mál að ræða, sem þörf er að íhuga gaumgæfilega. Er hægt að breyta núgildandi eignarnáms- og leigunámslögum, án þess að það gangi út yfir þá, sem réttindin eiga? Er hægt að gera það að nokkru gagni fyrir þá, sem landsgæðin ætla að nota, nema þá með því að tryggja lægra verð en eignarnámslögin eða leigunámslögin gera ráð fyrir eða þá að taka landið án nokkurrar greiðslu?

Lagadeild Háskóla Íslands hefur sent umsögn um þetta mál, og lagadeildin kemst að þeirri niðurstöðu, að þetta frv. brjóti ekki í bága við stjórnarskrána, en þó því aðeins, að gjald komi fyrir þau gæði, sem eru tekin. En lagadeildin orðar þetta ekki skýrar en svo að segja, að það megi ætla, að gjald komi fyrir, og því aðeins er það ekki stjórnarskrárbrot, að það verði greitt gjald fyrir það, sem tekið er.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um almenningsheill og þetta frv. þyrfti að samþykkja til þess að tryggja almenningsheill. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki haft í huga, þegar hann talaði um þetta, að lög um eignar- og leigunám eru sett til þess að tryggja almenningaheill, og það er alltaf opin leið fyrir löggjafann að setja lög um eignar- eða leigunám, þegar almenningsheill krefst, ef frjálsir samningar hafa ekki náðst.

Ég fyrir mitt leyti tel ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri sem andsvari við því, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta mál. Hann byrjaði ræðu sína á þann veg, að hann vildi haga orðum sínum þannig, að það lengdi ekki umr., og má segja, að hann hafi gert það í aðalatriðum með því að tala hófsamlega um þetta, en af nokkrum misskilningi, að ég tel. Það er nauðsynlegt, að menn átti sig á því, að hér er um misskilning að ræða, þegar því er haldið fram, að það sé nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. til þess að tryggja almenningsheill, til þess að tryggja, að það sé hægt að nýta landsins gæði til almenningsþarfa. Það þarf ekki að samþykkja þetta frv. til þess að það verði gert. Það eru til lagaheimildir, sem tryggja það.