29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3603)

15. mál, orkulög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem orðið er. Ég vil undirstrika þá skoðun hv. 1. þm. Sunnl., að frv. þetta sé óþarft vegna þess, að fullar heimildir séu fyrir í lögum um að taka land og verðmæti eignarnámi eða leigunámi, ef almenningsheill krefst.

Ég vil geta þess hér, að mér hafa borist mótmæli gegn þessu frv., bæði frá Landeigendafélagi Austur-Húnavatnssýslu og sveitarstjórn Svínavatnshrepps í Austur-Húnavatnssýslu, og ég er þeirrar skoðunar, að andstaða gegn þessu frv. sé ákaflega sterk um a.m.k. hin strjálbýlu svæði landsins. Það hefur enda komið hér fram og er prentað sem fskj, með áliti minni hl. n., að Búnaðarþing hefur mælt mjög sterklega gegn þessu frv., og hæstv. iðnrh. tók til orða eitthvað á þá lund í ræðu sinni fyrir nokkrum dögum, að sér þætti leitt til þess að vita, að bændasamtökin í landinu vildu verða til þess að koma í veg fyrir, að verðmæti yrðu notuð til almenningsheilla. Ég hefði átt von á því hér í hv. d., að einhver hv. þm. Framsfl. mundi spretta upp til andsvara, því að það er margsinnis yfirlýst af þm. þess flokks, að þeir vilji fara að í flestum greinum sem mest í samræmi við vilja bændasamtakanna. Ég sé, að formaður þingflokks framsóknarmanna situr inni í hv. d., en hann á einmitt sæti í þeirri hv. þingnefnd, sem um þetta mál hefur fjallað. Ég hefði búist við því, að hann hefði ekki undirritað nál., sem mælir með samþykkt þessa máls. En ég vil af þessu tilefni geta þess, að ég tel, að í samræmi við það, að þetta frv. sé algjörlega óþarft og stangist á við vilja a.m.k. bændasamtakanna og fjölmargra annarra aðila víðs vegar um landið, sé óskiljanlegt, hvað liggur að baki því að knýja þetta frv. fram. Hið eina, sem þar getur verið að verki, er, að taka eigi þessi réttindi í einu lagi af sveitarfélögum og einstaklingum með þeim hætti, að bætur eigi ekki að koma fyrir í samræmi við það, sem eignarnámslög kveða á um. Það er vissulega í samræmi við þá skoðun, sem vænta má, að ríki í flokki hæstv, iðnrh. Þetta er einn þáttur í þeirri þjóðnýtingarstefnu, sem hann væntanlega berst fyrir og hann vill, að gildi við meðferð mála hér á landi.

Ég þarf ekki að taka það fram frekar en orðið er, að ég er þessu frv. algjörlega andvígur, og ég undrast það mjög, ef hv. stjórnarliðar í heild vilja styðja þetta frv., svo mjög sem það gengur í berhögg við fjölmarga þá aðila, sem þeir telja sig vera umbjóðendur fyrir. Ég skal ekki fara út í einstök atriði þeirra umr., sem hér hafa farið fram, að neinu marki. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Stefáns Gunnlaugssonar fyrir nokkrum dögum, að hann taldi, að samningaþóf og málaferli vegna fjárkrafna landeigenda í sambandi við nýtingu þeirra verðmæta, sem hér er um að tefla, orku á háhitasvæðum, hefði stórkostlega tafið það, að þessi verðmæti yrðu hagnýtt. Ég held, að hér sé um einberan fyrirslátt að ræða. Ef svo fer í samningaumleitunum, að tafir verða og þóf og málaferli, þá er ekki annað auðveldara ráð fyrir þá, sem vilja hagnýta þessi verðmæti í þágu almennings, en að ganga að þessum verðmætum með eignarnámi og láta bætur koma fyrir í samræmi við þau ákvæði. Af þessu þurfa ekki miklar tafir að verða, heldur er hér um einberan fyrirslátt að ræða. Það má einnig kallast forkastanlegt, að svo skuli vera hugsað í þessu máli, að sveitarfélögin í landinu, sem mörg hver eiga þau háhitasvæði, sem hér er um að tefla, skuli ekki einu sinni mega nýta þau, eins og fram hefur komið. Hæstv. ráðh. sagði hér fyrir nokkrum dögum, að svo virtist sem hv. þm. Stefán Gunnlaugsson, sem hér hefur talað máli sveitarfélaganna og flutt brtt. við frv., sem ég tel ganga í rétta átt, talaði út frá sjónarmiði sveitarfélaganna með sama hætti og einstaklingur talaði út frá sjónarmiði einstaklings og eins og hann orðaði það: með tilliti til lögmála hins skefjalausa einkaeignarréttar hér á landi.

Ég þarf ekki að fara um það fleiri orðum, að frv. þetta stangast gersamlega á við skoðanir mínar um eignarrétt og það, hvernig fara eigi að í sambandi við töku verðmæta til almenningsheilla, og mun þess vegna greiða atkv. gegn þessu frv. Ég vil þó taka það skýrar fram en áður er komið fram, að ég tel till. hv. 5. landsk, þm. Stefáns Gunnlaugssonar til bóta og mundi greiða henni atkv., nái það ekki fram að ganga, að frv. verði vísað frá.

Ég vil svo að lokum vænta þess, að þeir fáu hv. þm. Framsfl., sem eru í hv. d. við þessa umr., hugleiði þær yfirlýsingar, sem talsmenn þess flokks hafa gefið í tíma og ótíma, ekki síst hæstv. landb.- og fjmrh., um það, að Framsfl. vilji fara að í sambandi við löggjafarmálefni nánast í samræmi við vilja bændasamtakanna og skoða í því ljósi afstöðu Búnaðarþings til þessa máls, sem hér liggur fyrir, og kynna sér, hvernig hægt er að samræma slíkar yfirlýsingar sem þeir hafa gefið og afstöðu bændasamtakanna til þessa máls.