29.04.1974
Neðri deild: 114. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3996 í B-deild Alþingistíðinda. (3611)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að gera þessa aths., hún skal vera mjög stutt. — Ég er satt að segja alveg steinhissa á jafnreyndum og greindum stjórnmálamanni og hæstv. sjútvrh. að gera sér ítrekað leik — gera sér ítrekað orðaleik — leika sér að því að snúa út úr þýðingu orðs eins og ryksuguskip eða ryksugutogari. Mér vitanlega er engin opinber skilgreining til á því, hvað sé ryksuguskip eða ryksugutogari. Ég held, að þetta sé hugtak, sem menn hafa fundið upp hér, sjómenn og aðrir áhugamenn um sjávarútveg. Það er ekki til í nokkru öðru máli, að því er ég best veit. Ég hef spurt um það, og það er ekki til. Það er íslensk uppfinning. En við vitum allir saman um það bil, við hvað við eigum, þegar við tölum um ryksuguskip eða ryksuguveiðar, sem er allt eins algengt. Það eru þess konar veiðar á takmörkuðu svæði, sem hirða bókstaflega allan fisk, sem hægt er að hirða af svæðinu. Það er þetta, sem kallað er ryksuguveiðar, og skip, sem stunda slíkar veiðar, eru öll ryksuguskip. Það, sem ég gerði og hver einasti maður getur séð, sem les ræðu mína, var, að ég kallaði þetta 10 þús. tonna skip fyrst verksmiðjuskip og síðar ryksuguskip. Í ræðunni kalla ég skipið ýmist verksmiðjuskip eða ryksuguskip. Ástæðan til þess, að ég notaði fyrst orðið verksmiðjuskip, er að skipið er það, en ástæðan til þess, að ég leyfði mér líka að kalla það ryksuguskip, er sú, að þetta skip er kjarninn í veiðiflota, sem einmitt hagnýtir ákveðin, takmörkuð mið þannig, að ekkert kvikt sleppur þaðan, þau eru hreinsuð upp.

Mjög kunnugur skipstjóri hefur sagt mér, að þetta verksmiðjuskip geti veitt, sé þannig útbúið, að það geti veitt. Hver er þá kominn til með að segja, að það geri það ekki, ef um mjög góðar aflahorfur er að ræða? Það er tilbúið til veiða, en ég skal ekkert fullyrða um, að það raunverulega veiði. Ég hygg, að það hafi alveg nóg með að þjónusta 6–8 togara að stærð 700–800 tonn, sem veiða í það. Veiðiaðferðirnar eru þær, — og það hlýtur hæstv. sjútvrh. að vita, hann er svo gjörkunnugur sjávarútvegi, að það er útilokað annað en honum sé nákunnugt um, viti nákvæmlega, hvað hér er að ske, — að ef fréttist af góðum stofni, af miklum fiski á tilteknu svæði, þá fer allur flotinn þangað strax. Skipið er í miðjunni, litlu togararnir veiða í kringum það og landa aflanum um borð í móðurskipið. Ef fréttist af góðum afla annars staðar og skipið getur ekki tekið við frá öllum togurum, fer fyrsti litli togarinn á nýja svæðið, og ef hann fyllir netin þar, þá skilur hann þan eftir lokuð og móðurskipið kemur seinna og hirðir þau. Ef allir togarar geta ekki landað í móðurskipið í einu, gera þeir það sama í kringum móðurskipið, þeir skilja fiskinn eftir í lokuðum netum, halda til veiða annars staðar, en móðurskipið biður og hirðir netin upp. Þetta er hæstv. sjútvrh. áreiðanlega nákunnugt um. Ef þetta er ekki það, sem íslenskir sjómenn eiga við með ryksuguveiði, þá veit ég ekki, hvað það er. Öll skip, sem taka þátt í þessu, hvort sem þau veiða sjálf eða vinna úr aflanum, eru aðilar að ryksuguveiðum og því öll ryksuguskip. Sum eru veiðiskip, önnur eru verksmiðjuskip, en þetta er það, sem menn eiga við, þegar talað er um ryksuguveiðar.

Fyrir þetta vildi hæstv. ráðh. algerlega þræta í umr. í Sþ. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta, ég fer aðeins með tvær setningar, — hann segir: „Hér eru á ferðinni venjulegir verksmiðjutogarar, síst stærri en þeir, sem hafa stundað og stunda veiðar hér við land á vegum Vestur-Þjóðverja og margra annarra.“ Nokkru síðar segir hann: „Hér er um sams konar skip að ræða, — skip, sem yfirleitt eru frá 1500–3000 tonn. Hér er um að ræða skip af þessari gerð, sem ég greindi frá... Stóru skipin, 10000 tonna skipin, sem aðeins þekkjast, þau yfirleitt skipta ekki um áhafnir á þennan hátt. Þar eru áhafnirnar úti miklu lengri tíma.“

Hann þrætir m.ö.o. fyrir alveg svart á hvítu, að hér sé um nokkurt 10 þús. tonna skip að ræða. Það kom þó hingað nokkrum dögum seinna. Hana segir, að skipin, sem um sé að ræða, séu venjulegir verksmiðjutogarar. Það eru engin slík skip af þeirri stærð þarna. Það eru 10 þús. tonna móðurskip og 600–800 tonna veiðiskip, sem veiða í móðurskipið. Þetta er flotinn sem hann var að greiða fyrir með leyfisveitingum sínum. Allt það, sem hann hefur sagt, eins og ég las hérna, er staðlausir stafir, bein ósannindi.