30.04.1974
Sameinað þing: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4006 í B-deild Alþingistíðinda. (3624)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér er fullkomlega heimilt og ég hef til þess fullnægjandi umboð að leggja til við forseta Íslands, að þing verði rofið í sumar og efnt til nýrra kosninga í haust. Hvort eða hvenær ég kann að neyta slíkrar heimildar, gef ég engar yfirlýsingar um á þessu stigi. Í dag vil ég ekki gera öðru skóna en að hv. Alþ. sitji út sitt kjörtímabil.

Út af þeim formálsorðum, sem fréttastofan lét fylgja ávarpi Magnúsar Kjartanssonar í gærkvöld, vil ég taka fram, að fréttastofan hafði ekkert samband við mig í gær. Hún hefur því ekki leitað minnar umsagnar um þetta mál. Ég hef því hvorki færst undan að svara spurningum varðandi það né heldur veitt Magnúsi Kjartanssyni neitt umboð til þess að tala í nafni ríkisstj. eða mín. En að því var látið liggja í þessum formálsorðum eða svo mátti skilja það sem einhverjir ráðh. hefðu gefið honum til þess umboð.